Frá örófi alda.. eða bara frá því að ég heyrði fyrst orðið mangó, hef ég keypt mangó, ábyggilega svona 50 sinnum en aldrei notað þau. Þau hafa orðið að gulgrænum vökva neðst í ávaxta og grænmetisskúffum ísskápsins.

Þar til í dag! Allt að gerast. Ég fékk aðstoðarmann við gerð drykksins og tvær aðstoðarmanneskjur við að borða hann. Fyrstu viðbrögð voru uppá 10 en næstu viðbrögð voru uppá eiginlega bara 3. Kom í ljós að mangóbragðið var aðeins of yfirdrifið. Mér finnst þetta fínt reyndar. En skil þau vel þar sem hann er ekki þannig á bragðið að manni langi í marga lítra af honum.

Þeir enda eitthvað svo eins á litinn allir þessir blessuðu sjeikar

Þeir enda eitthvað svo eins á litinn allir þessir blessuðu sjeikar

  • 1 mangó
  • 12 jarðaber
  • 2 dl bláber (frosin hér)
  • 1 dl vatn
  • 1 msk chiafræ bleytt í 2 msk af vatni
  • 1 msk kókosolía

Ég verð bara að hrópa húrra fyrir sjálfri mér að hafa notað mangóið loksins.

Mér finnst annars svo skemmtilegt að gera svona áskorunardæmi að ég er í óða önn að finna út hvað ég geri næst. Svo uppveðruð er ég að Eiginmaðurinn hefur smitast og ætlar að vera með. Síðasti sjeikdagurinn er á morgun og ég er í alvöru að spá hvort ég eigi að taka eina mánaðarlanga áskorun og halda áfram með vikulangar áskoranir. Mér finnst eins og það að hafa vikulangar muni halda mér betur við efnið, en ef t.d ég ætlaði að gera áskorun sem fæli í sér hreifingu þá er vika eitthvað svo stutt. Það sem mér hefur dottið í hug fyrir mánaðar langa hreyfingaráskorun er

  • 100 magaæfingar á dag
  • 10 Suria namaskara A á dag
  • Gönguferð á dag

og fyrir vikulanga áskorun:

  • Djúsaður drykkur á dag
  • Ekkert nammi
  • 5 á dag (ss 5 grænmeti eða ávextir á dag)
  • Engin mjólkurvara
  • Ekkert brauð eða brauðmeti
  • Ekkert hvítt (tala um hveti, grjón, sykur)

Sjáum til.