Mánudagur lofar góðu í átaki mínu um að verða betri manneskja og kenna sjálfri mér betri lífsstíl, enda eru óskaplega fáir klukkutímar síðan ég ákvað að hefjast handa, mér hefur ekki gefist tími til uppgjafar ennþá. Ég hef ákveðið að gefa mér prik fyrir að hafa hugsað í marga daga hvort ég ætlaði að gera þetta eða ekki, svona á móti því að hugsa bara í hálfa sekúndu áður en ég fleygi svona fram. Held að gallinn sé oft hugsunarleysi og flýtieinkenni þau er kenna má við sveimhuga og fljótfærar mannsveskjur eins og sjálfa mig. Þó neita ég að halda því fram að getan til að ákveða fljótt og örugglega sé eintómur galli.

Nú, í sjeik dagsinn fór:

  • 2dl Möndlumjólk úr búð (þessi með vanillubragði)
  • 6 fersk jarðaber af venjulegri stærð
  • 2 dl frosin íslensk bláber
  • 1 tsk hveitigrasduft
  • 1tsk kanill
  • 2 tsk kókosolía
Sjeikmanía

Lélegasti blandari sögunnar blandaði þetta nú samt.

Af einhverjum ástæðum hef ég ekki áhuga á að nota kúa-mjólkurvörur í sjeika, hef þessvegna aldrei smakkað skyrbúst, mér finnst eiginlega að skyr sé tilbúið til neyslu, þarf ekki að bæta neinu við það þannig… þannig ég nota möndlumjólk, úr búð eða sem ég geri sjálf. Það er alveg pípandi lítið mál að búa til möndlumjólk, bara 2 dl möndlur og 8 dl vatn í 8-12 tíma, trylla þetta í blandara og sigta í gegnum viskastykki eða taubleiu. Já, þú getur aldeilis líka keypt þér spírupoka og allskonar í kringum möndlumjólkur gerð, ég nenni bara að gera þetta á einfalda mátann með því sem hendi er næst.

Fersku jarðaberin því ég átti þau til. Annars get ég ekki fengið af mér að nota frosin ber úr búð, vegna hættu á lifrarbólguveiki og salmonellu… og finnst þau eitthvað ólekker soðin.

Íslensku bláberin átti ég líka til. Þau eru týnd í landi Boggu og Tomma fyrir norðan á Vatnsnesinu, man bara ekki hvað bærinn heitir.

Hveitigrasduft því ég sá það í Sollu hillunum í Bónus. Ég verð bara að trúa því sem stendur á pakkningunni að þetta sé hollt.

Kanill því hann er góður og sagður bólgueyðandi.. kannski bólgan framan mér, þessi undir naflanum á mér, á milli lífbeins og þindar, muni hjaðna eitthvað.

Kókosolía því allir segja að hún sé svo pípandi holl. Ég veit þannig lagað séð ekkert um það og hef ekki tröllatrú á henni.

Sjeikinn bragðaðist mjög vel, temmilega þunnur, ekki of kaldur og bláberin eru bara mitt uppáhald, svo íslensk og æðisleg.