Þeir sem ég vinn með fara í kaffipásu, til að drekka kaffi klukkan 10 og 14. Svona sirka allaveg flesta daga. Ég drekk ekki kaffi og líður eins og þegar ég var hætt að reykja, sem er fyrir að verða alveg 9 árum síðan, þar sem ég sit alltaf ein í deildinni á þessum tímapunktum dags.

Mér finnst nú samt skömminni skárra að þeir drekki kaffi en reyki. Það er svo ógisslega ólekkert og ókúl. Ég fer engu að síður í pásu líka. Nota hana í annað en að hella í mig svörtum brennandi heitum vökva. Já, rétt! Ég kann ekki að drekka kaffi.

Nú finnst mér eins og áhugi minn á að blogga og áhugi lesenda minna á að lesa það sem ég blogga hafi dvínað. Það er ábyggilega því ég get ekki verið með eins svæsnar lýsingar á umheimi mínum eins og úti.. þú veist, þar sem enginn þekkir mig úti og enginn (eða fæstir) af mínum lesendum lifa í sama umheimi.

Svo finnst mér ég vera hálf allsber í skrifum. Veit ekki hvort ég treysti mér til að skrifa allt það sem í kollinn kemur og pósta því svo á Facebook, eins og ég geri gjarnan, og eiga þar kannski nýja vini úr vinnunni og þeir munu halda að ég sé fáviti. Sem ég er auðvitað, þannig lagað séð, fattaru.

En þetta tengist mun stærra og flóknara sjálfsálitsmáli sem ég er með í réttarsal núna. Þar sem ég er dómarinn, lögfræðingarnir, sakborningur og kviðdómur. Ég flyt rökin, fletti fram sönnunum og dæmi í málinu. Það er efni í fleiri en einn póst bíst ég við.

Kveðjur úr vinnunni.