Ég hef ákveðið að í Sjálfbæ muni ekki vera neinn banki. Íbúar Sjálfbæjar munu ekki þurfa að finnast þeir vera í fjárhagslegu fangelsi þar sem jafnvel tyggjótyggjandi unglömb, sem alist hafa upp við að sofna út frá bíótjaldssjónvarpinu sínu í gullrúminu með nuddið á, tjá vinnandi fólki, sem er bara venjulegt fólk, þú og ég,  að það sé ekki í vandræðum, það eigi heilar 30.000 krónur eftir til að framfleyta 5 manna fjölskyldu. Lesið  þessa nótu á Fésbókinni og fáið skilning um hvað ég er að rausa hér.

Ég nefni tyggjótyggjandi úngling sem fyrir tilstilli frænku sinnar, sem hefur setið í sama þjónustufulltrúa stólnum alla sína tíð, er að vinna í banka, sem dæmi um fulltrúa sem myndi segja svona við heimilisföður 5 manna fjölskyldu því enginn sem hefur reynslu af því að eiga svona stóra fjölskyldu myndi segja svona. Ég, sem manneskja með reynslu í að eiga nákvæmlega svona stóra fjölskyldu, VEIT að það er ekki hægt að gefa fjölskyldunni að borða fyrir 30.000 kr á mánuði. Ég þarf ekkert að nefna að það er ekki bara matur sem fólk þarf að kaupa í hverjum mánuði, það eru líka aðrar nauðsynjavörur.

Já, s.s engir bankar í Sjálfbæ. Nú veit ég ekki hvort það er yfir höfuð hægt að eyða fyrirbærinu peningur. Og ég held ekki að það sé raunhæft að segja að í Sjálfbæ verði engir peningar í umferð. Kannski gæti verið markmið að útrýma þeim alveg en ég er handviss um að peningar þurfi ekki að vera af hinu slæma. Þannig hef ég einnig ákveðið að allir peningar í Sjálfbæ munu vera merktir með OM og fullt af hjörtum til að fylla þá af kærleik.

Hvar eigum við að geyma peningana sem við munum þurfa að nota og vinnum okkur inn í Sjálfbæ? Jú, við munum ákveða að einn af okkur muni vera umsjónarmaður Peningageymslunnar. Það getur allt saman verið rafrænt eins og bankakerfi og við getum haft greiðslukort og svona, en málið verður bara það að maður hefur peninga sem maður vinnur sér inn og það er ekkert annað. Peningageymslan lánar ekki pening.

Peningageymslan í Sjálfbæ verður ekki gróðastofnun sem hefur áhuga á að éta viðskiptavini sína. Nei, Peningageymslan er bara geymsla, með engin áform önnur en að geyma peningana fyrir mig og afhenda þá þegar ég bið um það.

Í Sjálfbæ munum við ekki líta á það þannig að þeir sem geyma erfiði vinnu minnar hafi völdin. Við komum ekki til með að hugsa það þannig að þeir sem hafi hærra laun hafi frekari völd í þessum heimi en þeir sem hafa lægri laun. Ástæðan er augljós, það er ekki manneskjan sem ræður í þessum heimi. Það er öllu öðru að þakka að við getum yfir höfuð verið til, það er ekki þannig að allar lífverur séu þarna fyrir okkar tilstilli. Við erum ekki einu lífverurnar hér. Við kunnum að vera með eitthvað þróaðri vitsmuni en þeir eru ekkert ef það á að nota þá til ills.

Auk þess, þá mun sá sem geymir peninginn og þeir sem afla meiri fjár en aðrir aldrei ætlast til þess að hinir umgangist þá sem einhverskonar æðri líffverur. Það mun einfaldlega vera þannig að þeir sem hafa fleiri peninga en þú, þeir munu hjálpa þér með því að gefa þér af sínu fé. Það er eðlilegt því mannkynið er ekkert nema það gefi af sér. Það er eðlilegi hlutinn, AÐ GEFA.

Þessar hugmyndir sem ég er að skrifa hér,  eru ekki bara framkvæmanlegar heldur eru þær líka common sens og eiginlega hálfgerð snilld.

Ef þú pillar af náunganum starfstitilinn, kyn, hjúksaparstöðu, skapgerðareinkenni og allt sem einkennt getur persónu þá sérðu að náunginn er nákvæmlega eins og þú þegar þú ert búinn að pilla allt hið sama af þér. Þannig verður það í Sjálfbæ  þannig að allir vita að það er ekki hægt að dæma fólk, því við erum öll, í búnd og grúnd,  eins, eitt, það sama, saman.