Mér finnst nú orðið svo hallærislegt þegar fólk getur ekki verið neinstaðar nema glápa á símann eða spjaldtölvuna að ég get varla fengið sjálfa mig til að svara í símann ef hann þá hringir á almanna færi.  Ég geri hvað ég get að hafa blessað tækið bara í veskinu þegar ég ferðast eitthvað.

Hver man ekki eftir því þegar gemsar voru frekar nýjir af nálinni og svo var maður með símann í veskinu, eitthvað að prufa að vera töff og kúl með síma á sér en ekki í snúru í vegg,  og hann hringdi í búðinni. Maður fór alveg hjá sér og reyndi annaðhvort í þvílíku fáti að róta í gegnum veskið (sem hefur sennilega verið risastórt með minnst 200 hlutum í) og reyna að svara ógisslega lágt loksins þegar síminn fannst, eldrauð í framan..” hhhalló?” rétt eins og það væri spurning hvort þetta væri í raun og veru að gerast, eða þykjast ekki heyra í hringingunni og svitna geðveikt vondri lykt meðan maður setti met í að koma vörunum á bandið og óskaði þess í leiðinni að hafa ekki stoppað svona ógeðslega lengi í nammihillunni og blóta afgreiðslugreyinu fyrir að vera heimskt með hornös og vita ekki hvernig kínakál lítur út.

Hvað er uppi?!?? Ekkert. Það horfa allir niður. Það myndi enginn taka eftir því ef eitthvað æðilsegt myndi gerast. Allir munu á endanum gleyma því hvernig lifandi manneskjur líta út.

Það er ótrúlegt að vera í strætó eða metró, eða jafnvel í bílaumferðinni og það eru bókstaflega allir nema einn (ég) í símanum. Ég er sú eina sem er ekki í símanum, það gefur auga leið, annars hefði ég aldrei tekið eftir því að allir hinir væru að gera.

Og hvað er fólk að gera? Ég veit það svosum alveg. Maður eyðir biðtíma með því að vera í símanum og hefur algjörlega klárlega ekki  misst sekúndu úr lífi allra 354 (hugsaðu þér ef ég væri með fleiri.. ) sem maður er með á Facebook. Sko maður er með einhvern á fb, allir löngu hættir að tala um vini sína á fb.

Mér finnst þetta bara vera orðið svo hallærislegt, þá þetta með að horfa svona rosalega niður á símann sinn. Eiginlega fæ ég bara aulahroll. Það er ekkert fallegt við það að sjá sitjandi manneskjur í símanum í stellingu sem krefst þess að fólk geti setið á rassinum, með fætur á gólfinu en samt haft hökuna niðri við nafla, án þess að beygja sig fram, skilurðu. Eða standandi, hokinn í baki, axlir komnar saman fyrir framan háls, engir magavöðvar svo bumban stendur út, mjaðmir fram en hnén að koma í gegnum hnésbæturnar. Og tómt augnráð. Þarf ég ekki að rissa upp teikningu af þessu svo þú skiljir hvað ég er að meina? Það er mikilvægt.

Kírópraktorar hljóta að fá meira að gera við að reyna að rétta úr fólki sem er komið bara hreinlega með kryppu.

Það var það bara.