Þetta er aldeilis kuldaleg mynd. Hún er tekin á jóladag, þegar ég fyrir einhvern gassagang þeytti af stað í vinnuna og varð fyrir þeirri leiðinda reynslu að læsa lyklana mína inni í skúringakompunni þar svo ég þurfti að ræsa yfirmanninn út…á jóladag. Vandræðalegt.

Hér í fríinu er búið að vera mikil rútína og harðar reglur (haha) settar um útivist og herbergistiltekt. Ég held að krakkaormarnir hljóti að vera orðin vel öguð núna. Allavega, sko, þegar maður er með alla grísina heima allan daginn, eins og til dæmis í jólafríi, þá verður maður jú að hafa einhverja reglu á þessu. T.d mátti ekki horfa á morgunsjónvarp til hádegis nema bara um helgar, já og á aðfangadag og gamlársdag. Það mátti ekki vera í fýlu eða með pirring (þessu beint til Sprengjunnar). Þau áttu að fá sér að borða morgunmat sjálf, það því við vorum aldrei komin frammúr þegar þau voru svöng. Svo var oftast hafragrautur í hádeginu og lýðurinn rekinn út með harðri hendi eftir mat. Það gekk yfirleitt vel en stundum þurfti ég að klæða þau öll og ýta þeim út um hurðina og flýta mér að loka svo þau myndu ekki velta inn aftur.. svona eins og þegar maður lokar “allskonardótarís-skápnum”. Svo finnst manni þegar allir eru heima, maður stanslaust vera rukkaður um máltíðir. Hádegi, kaffi, kvöldmat. Að minnstakosti verður að þvo tvær uppþvottavélar fullar á þessum dögum. ROSALEGT, hehe.

Og svo komu þau inn og voru send beint inní herbergi að laga til. Sprengjunni tókst að lauma sér framhjá að gera það í nær öll skiptin. Eitt skiptið tók faðir hennar í taumana og bannaði henni að horfa á sjónvarpið og að vera með bræðrum sínum í herberginu þeirra að gera grín. Henni var sko ekkert sama. Og hlunkaðist til að raða dótinu sínu þá um kvöldið og fékk að lokum að dunda aðeins með drengjunum.

Myndin er hinsvegar af Örverpinu í peysu frá Ömmu Hlíf. Einhver af mínum ættmennum má gjarnan sýna henni þessa mynd af honum í peysunni, honum þykir hún æði.

Tunglið mitt er búið að vera fallegt síðustu daga.

Ég get aldrei ákveðið hvort ég vill nota flass eður ei þegar ég tek myndir í svona myrkri. Myndin er tekin einhverja nóttina þegar ég var B-manneskjan alveg útí ystu æsar. Tunglið þá nótt var eins á litinn og á efri myndinni en hverfið er svo flott á neðri.

Svo áttum við gamlárskvöld saman. Við fórum um fimm leytið út í garðinn á horninu og sprengdum nokkrar ragettur. Þau voru sprenghress.

Við ákváðum að klæða okkur ekki alveg í vort fínasta púss og nenntum ekki að neyða spennt börnin í einn eða annan fatnað. Svo þau fengu að ráða. Við sögðum “viljiði ekki fara í eitthvað snyrtilegt fyrst það er gamlárs?” Strákarnir sögðu jú og þustu inn og komu út skyrtuklæddir í sparibuxum. Sprengjan kom út í sínum sparifatnaði, sem sést á myndinni. Glitrandi sokkabuxur, svartar stuttbuxur og svartur stuttermabolur. Sjitt hvað við ætluðum að pissa í buxurnar af hlátri.

Það var gaman. Svo skreyttum við matarborðið og borðuðum kalkúnsbringu og kjúkling með allskonar góðgæti töfruðu fram af Bóndanum.

Við tók bið eftir miðnætti. Við ungviðið gláptum á töframann í sjónvarpinu á meðan Bóndinn horfði á innlenda annálinn í tölvunni. Ekki nóg með að við horfðum á töframann heldur er síðasti dagur ársins 2010 helgaður því að læra að prjóna. Já… þarna sátum við þrjú..á gamlárskvöld og prjónuðum.

Og kveldinu lauk. Yngri tvö sofnuðu værum í sófanum. Rétt áður en það átti að fara inn að sofa. Frumburður þráaðist við. Kanínan var höfð inni allt kvöldið því hún var jú skíthrædd við sprengingar sem hófust bara .. alveg 29.des.

Í fríinu er margt búið að bardúsa fyrir utan að halda jól og áramót, læra skyldur sínar í heimilisverkum og almennum þrifum og almenna mannasiði. Hér var gerð tilraun í sápukúlugerð í fótabaðinu sem ég nota til að kæla mig á sumrin og til að hita mér um vetur. Kom í ljós að það er hægt að búa til ansi margar sápukúlur með þessu tæki sé sett sápa í það og svo stillt á nudd stillinguna á tækinu.

Við lofuðum að sjálfsögðu öllum að fara í baðið en þegar kom að Frumburði þá var klukkan orðin of seint, og allir búnir að gleyma öllu um fótabaðið og honum þessvegna sagt að hann gæti farið strax næsta morgun. Nú. Ekki veit ég um fyrirætlanir  búnglingsins, en hann fer alltaf fyrstur á fætur. Hann er nokkrum sinnum í fríinu búinn að taka til og ryksuga og skúra í herberginu áður en Bústýran varpar síðustu hrotunni. Hann er alltaf búinn að borða svo enginn sér til. Og fyrst það var búið að segja að hann mætti fara í fótabað strax morguninn eftir þá gerir hann það.

Hann er mun stórtækari en litla dýrið og bjó til fullt baðherbergi af froðu, haha, þetta var alveg rosalega fyndið.

Þá er hér búið að búa til myndasögur á pappír, þær gerast í hausnum á Sprengjunni. Myndirnar virðast fæðast þannig að hún liggur uppí rúmi að kvöldi með fullt af pappír. Liti í tugatali og svo vaknar hún með allt á andlitinu daginn eftir. Hún teiknar svona 30 myndir á dag. Rænir reglulega litunum, strokleðrinu og yddaranum mínum og teiknar enn, 8ára að aldri, á alla veggi.  Var ég búin að nefna að ég verð alvarlega súr ef hún verður ekki að listamanni.

Hér ræður Frumburður (held ég bara því hann er frumburður) í leikjum. Hann ræður hvort Örverpið má vera með eða ekki og hann ræður í hvaða herbergi á að leika. Hann ræður hvaða leik á að fara í og hann ræður hver er hvað í hvaða leik. Í dag er öðruvísi dagur því hún í miðið hefur numið meintan Frumburð upp og inní herbergið sitt  (sem gæti svosem alveg verið önnur pláneta). Þar hefur hún málað hann, klætt í kjól og sett á háhæla skó.

Seisei.

Árið 2011 tók á móti okkur með sólskini og fallegum morgni 1.janúar. Með eindæmum fallegur dagur og í dag líka.

Ég er alveg meirihátta tilbúin til að taka á móti öllum dásamlegheitunum sem Alheimurinn ætlar að færa mér á þessu ári. JÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ!!