Ég hef verið meira sjálfhverf en flesta daga undanfarið. Þessvegna gleymdi ég með öllu að sýna uppskeruna úr Gróðrarstöð Félagsbúsins. Þetta er hún.  250gr af basilíku. Bæði grænni og fjólublárri. Ég bjó til pestó úr þessu. Reyndar bjó ég líka til pestó úr grænkáli, það var alveg ágætt, nema ég ræktaði það ekki sjálf. Ennþá er líf í Gróðrarstöðinni, kryddjurtir í röðum. Pantanir í tölvupósti.

Svo get ég sagðt þér að svölunum, sem eru ekkert rosalega spes í þessu húsi,  hefur verið umbreytt í tálgunarverkstæði Búnglingsins. Hann er að sjálfsögðu eins og aðrir drengir á þessum aldri, með verkfærakassa ásamt trékubbum af ýmsum stærðum í vösunum. Hann kom síðan með trjádrumb upp sem er um það bil meter á hæð.. spurning hvað verður úr því og hvenær….

Þá átti Sprengjan afmæli þann 5.október. Einmitt, sjálfmiðuð hegðun mín hefur alveg tekið yfir. Hún er útnefnd þreyttasta afmælisbarn ársins. Hún er B-manneskja er að koma í ljós. T.d núna, þegar hún ætti að vera farin að sofa berast hljóð úr herberginu hennar rétt eins og hún væri með þrjátíu manns í heimsókn.. í singstar.

Auðvitað hresstist hún við.

Ég bauð í mat á afmælisdagskvöldið og tóku þeir í spil. Örverpið er með spilafíkn og þrammar um öll gólf og upp að öllum með spil, eða kort eins og það heitir hjá honum, og spyr hvort einhver vilji ekki spila.

Helgina þar á eftir undirbjuggum við Nýji Eiginmaður minn veislu til handa Sprengjunni sem ákvað að bjóða bekkjarsystrum sínum heim. Þær eru hundrað. Í veislunni voru uppáhaldið mitt, ræs krispís kökur, skúffukaka og rauðar möffins.

Rauðar möffins segirðu?.. já, rauðar möffins. Þarna hefur eiginmaðurinn blandað eigin blóði við deigið og er að hræra í. Nei djók, það er heil flaska af rauðum matarlit í þessum kökum. En aðallega var það kremið sem kallaði á mig, en það er svona rjómaostaflórsykurskrem. NAMM.

Var ég búin að nefna að bekkjarsystur hennar væru hundrað?

Frænkurnar Sprengja og Sprengja. Við enda afmælisveislu, þar sem bekkjarsystrum og fjölskyldumeðlimum hafði verið boðið, voru þessar sestar við skrifborðið mitt og voru að gera grín.. með hlátrasköllum sem náðu alla leið uppí Mos.

Þreytt litla Örverpið. Fékk að hlusta á iPodinn minn.

LOVE.