Rigning segirðu.. Síðustu helgi, þá í kringum 15.ágúst  rigndi hér eins og ekki hafði rignt síðan 1931. Það rigndi innum gluggan og yfir eldhúsborðið hjá okkur og ég þurfti að setja handklæði í gluggana svo allt yrði ekki rennandi. Allir balar og ker á svölunum urðu full.

Hér er myndband sem sýnir flóð og bíla á kafi: http://ekstrabladet.tv/nyheder/112/article1390863.ece

Rigningin hafði víðtæk áhrif og hef ég heyrt um “vandskade” alveg hægri vinstri hér í kringum mig. Fulla kjallara, skólp upp um allar götur og annað ógeð. Fólkið sem vinnur í öðru húsinu sem ég er að þrífa hringdi og sagði að það væri smá pollur á gólfinu í einu herberginu..ég veit ekki hvort þessi mynd gerir því nákvæm skil hvað þetta var mikið af vatni, en dýpst var það amk 2 cm eða svo og nær yfir nær allt gólfið.

Ég var send í verkið og dró ég fyrst fram eina auma gólftusku þar sem sú sem hringdi í vinnuveitandann minn hélt því fram að þetta væri smá pollur sem þyrfti bara að skúra upp.

Í þessu húsi eru engin áhöld til vatnsuppsogs.. svo þarna sjást verkfærin. Fötur, fægiskúffa með standi og skúringakústur.. ég setti vatn í 4 fötur, samtals um sirka 60 lítra og það sást ekki f**** högg á vatni! Maður lifandi.

Þessa helgina, já bara í gær, fórum við drengirnir í vinnuna. Þegar við komum út var alveg piss rigning. Bræðurnir hýrðust undir einni regnhlíf og ég undir annarri. Merkilegt hvað regnid dundi á hlífunum og við urðum ekki merkilega blaut undir þeim. Nú skil ég hinsvegar afhverju daninn er bara með eina hlíf í töskunni alltaf.. það er heldur ekki hægt að vera í regnfötum það er svo fáránlega heitt.

Niðurföllin alveg búin á því..

Svo skutumst við í smá skjól til að bíða af okkur það allra versta. Það komu upp umræður um þrumuveður, eða “togggrrrdenveah” og hvaðst Örverpið vera skíthræddur við svoleiðis og sleppti ekki af mér hendinni fyrr en við vorum komin með Metor á DR-Byen þegar hann neyddist til þess því hann varð að setjast í hjólakerruna.

Svona getur daninn líka verið skrítinn… fyrst það er rigning förum við bara úr fötunum og leggjum þau á einhvern vegg..

Reyndar finnst mér miðborg Kaupmannahafnar alls ekki myndarleg svona um hádegisbil á sunnudegi. Ég fór með Hitt Fíbblið í afmæli við annan endann á Strikinu á sunnudeginum og það voru alveg fleiri hlandblettir og lyktin eftir því og fleiri ælur og lyktin eftir því og svo var þarna mjööög grunsamleg brún drulla.. ég vill ekki hugsa þá hugsun til enda. OJ.

Í allri þessari rigningu er alveg ótrúlega frábært að koma inn á Metro stöðina á Kongens Nytorv. Þar, eða þangað til í gær, er búin að vera einskonar innsetning eða gjörningur eða listaverk eða hvað á að kalla það. Formáli þess var að þetta átti að vera einskonar staður þar sem fólk gæti snappað aðeins út úr hversdagsleikanum og öllum asanum sem honum fylgir. Það er s.s spes lýsing sem ég reyndi að ná á mynd hér  og svo

er búið að varpa á veggina, alveg frá -2 uppá 0, myndbandi af fólki að dansa. Fólkið er hálf nakið og hreyfist í svona hægum þokkafullum hreyfingum. ALVEG ótrúlega flott og ég fann að ég datt alveg útúr því hvað ég var að gera eða hvert ég var að fara. Vildi að þetta væri alltaf svona.

Og eftir að ég hafði ferjað drengina heim frá vinnunni hentist ég eftir hinni óhefðbundnu prinsessu af Félagsbúinu í afmælið sem hún var í. Hún hafði fengið kóla í afmælinu og blöðru. Hún er bara þeim eiginleikum gædd þessi frábæra manneskja að kóla-ð ætlaði hún að gefa bræðrum sínum (henni fannst það vont) og svo var hún með blöðrur handa þeim líka. Þetta kann ég að meta í barni, að það sé ekki baaaara að hugsa um sjálft sig og tými ekki að gefa með sér.

Og rigningin hélt áfram daginn í dag og daginn í gær. Auðvitað gera þessar myndir þessu alls ekki skil enda flestar teknar á símann minn. En ég reyndi að mynda hér á þessari að ég horfði á þakrennuna fyllast á svona 3 mínútum.

Örverpið sat og var að dóta sér eitthvað í sínu horni og tættist svo fram með augu á stærð við undirskálar og þeytti útúr sér að það væri allt ggggrrrennandi blautt og ég (já.. sjálfsbjargarviðleitni unganna er ekki eins þróuð og hjá mér) YRÐI að koma og þurrka, það væri bara allt á floti.. það s.s rigndi inn um gluggann og inn á mitt gólf.

En svo stytti upp og þetta líka fallega sólskin teigði sig inn um gluggann minn. Það er svo mergjað þegar maður upplifir eitthvað svona einfalt, svo fallegt og svo eðlilegt sem sólarljósið er, að það geri mann svona glaðan í hjarta bara með því að vera þarna.