Ég er haldin óaga. Eða altsvo, ég tel mig vera svo óagaða því ég get ekki fengið mig til að fara í hið sívinsæla kvenlæga nammibindindi. Allar stelpur geta þetta.. allar nema ég.

Mér til málsbóta drekk ég aldrei kók, kaffi né aðra svarta drykki. Afhverju mér fannst auðveldara fyrir öllum árunum síðan að hætta að reykja en bara tilhugsunin um að hætta að neyta súkkulaðis, kexs, kaka og annars gúmmulaðis, er mér óskiljanlegt.

Þetta mál er nefnilega flókið skal ég þér upplýsa. Þó svo að ég “bjargi” sjálfri mér fyrst (saman ber reglur í flugvélinni um að setja grímuna á mig fyrst og svo á þá sem ég þarf að hjálpa) þá komast hin fjögur fræknu sem eiga heima hjá mér ekki undan því að “smitast” af þessu uppátæki mínu. Vilja börn eitthvað sem heitir Indverskur kjúklingabaunaréttur?..Nei. Vilja börn eitthvað sem heitir Linsubaunabuff, sem lítur út eins og fuglaskítur og er að áferð ábyggilega svipað og ef einn myndi borða slíkan ófögnuð… Nei, þau eru ekki sólgin í það. Það sem þau eru sólgin í eru pizzur pantaðar frá Dominos, hamborgarar og allt sykraðasta morgunkornið í bænum.

Einhverstaðar verður maður að byrja, eins og þeir segja í Landsbankanum og hef ég sett reglu númer 1. Hún hljóðar svona:

#1. Það er bannað að kaupa morgunkorn.

Morgunkorn er nefnilega sykrað í hnút er okkur tjáð og víst er að alveg eins væri hægt að éta pappakassa. Morgunkorn er ekki eini morgunmaturinn sem við mannfólkið getum borðað. Það er afþví að við erum ekki hænur heldur fólk sem síðast þegar ég vissi ræður því hvort það er grænmetis, kjöt eða hreinlega villidýra-æta.

Svo er morgunkorn líka svífirðilega dýrt. Og það þýðir ekki að það sem stendur á því sé satt, þó morgunkorn sé dýrt!! Morgunkornið lýgur til þess að vera keypt, því er held ég alveg sama um það hvort við höfum gott af því eða ekki.

Annað í morgunmat getur verið smúðí og enn annað getur verið kjúklingamöffinns sem ég á uppskriftina að. T.d afgangurinn frá því kvöldið eða hádegið áður.

Ég hef ekki ennþá komið því til reglu að éta á morgnanna.

En regla #1 hefur tekið gildi.