ravelry-at-timann-minn

Ætlaði að koma með rosalegan dúndur póst um eitthvað svakalega áhugavert sem allir myndu falla í stafi yfir.. en festist síðan á Ravelry og veit varla hvað ég heiti lengur.  Hver kannast ekki við að hafa rétt aðeins ætlað að skoða uppskriftir, bara 5 mínútur í mesta lagi og ranka svo við sér og mánudagurinn í næstu viku er runninn upp?

Ætlaði s.s aaaaðeins að skoða hvort þar væri ekki uppskrift af einhverju flottu sjali á Ravelry, það hefur kólnað í veðri og haustlitirnir farnir að láta sjá sig, þannig að mig langar bara að pakka mér inn í eitthvað mjúkt og heitt og koma ekki út aftur fyrr en það er komið sumar.

Ég náði þó að safna mér aðeins saman en endaði eiginlega á því að skoða nokkra af þeim hönnuðum sem hanna allar uppskriftirnar inná Ravelry en ekki sjöl.

Jared Flood hannar prjónaðar flíkur, er ljósmyndari og stofnandi hönnunarhússins og garnframleiðandans Brooklyn Tweed. Þar á síðunni er hægt að skoða prjónablöðin sem BT hefur gefið út, mikið um kaðla og persónulega finnst mér blaðið með prjónuðum flíkum fyrir menn vera alveg svakalega flott (leynt og ljóst finnst mér of lítið um uppskriftir fyrir menn í boði) og einnig krakkablaðið, mikið um kaðla sýnist mér og meira að segja er þarna sæt barnapeysa innblásin af íslensku lopapeysunni. Ég er að hugsa um að fylgjast vel með hvað kemur frá honum í framtíðinni.

Stephen West er af allt öðrum toga. Hann hannar og prjónar mikið af öðruvísi flíkum, notar skemmtilega liti og öðruvísi form. Ég er sérstaklega hrifin af þessari peysu frá honum, ég er búin að setja hana á listann yfir það sem prjónað skal.

Stephanie Dosen er ævintýralegur hönnuður. Hún gefur út mynstur undir nafninu Tiny Owl, kíktu á safnið hennar, það er alveg meirihátta flott.

Því ekki að detta svolítið útúr hinu hefðbundna og prjóna sér neon stuttubuxur eftir Stephen West eða álfa-vængi eftir Stefpanie Dosen?

Ég held síðan að ég hafi dottið niður á flott sjal, svakaleg tilviljun að ég hafi fundið það á síðu Brooklyn Tweed, þar sem Jared Flood vinur minn ræður ríkjum…