Nú er ég frekar kvartin. Ég hef kvartað yfir mörgu og lengi yfir því að vera að drepast í kroppnum. Ég hef eiginlega ekki stoppað síðan ég var komin 12 vikur á leið með Bjútíbínu. Þá sá ég mér ekki annað fært en að éta ofan í mig eigin orð um það að það sé í raun og veru ekki til neitt sem heitir grindargliðnun né verkir á meðgöngu, bara massa þetta stelpur og hætta þessu endalausa og eilífa pípi.

Því, eins kvartin og ég sjálf er, á ég rosalega erfitt með að sýna meðaumkun yfir kvarti annarra, sérstaklega þeirra sem ég ekki þekki.

Þú veist hvernig það er þegar einhver í herberginu kúkar og allir finna lyktina, kúkurinn er ekki þrifinn og eftir smá, þá verður þetta bara lyktin, hvorki góð né vond, er bara svona. Svona hefur þetta kannski verið nú á hátt í annað ár með þessa endalausu bak og fótaverki mína.

Á mánudaginn í síðustu viku, eða réttara sagt á aðfararnótt þriðjudags lá ég andvaka, fyrst vegna hugsanaóveðurs í hausnum á mér en svo vegna þess að mér var svoleiðis illt að ég gat ekki á heilli mér tekið og legið í neinni stellingu, þannig að ég fór á internetið um miðja nótt og pantaði mér tíma hjá kírópraktor strax daginn eftir.

Það er rándýrt og ég fékk samstundis samvikubit. En eiginlega laust því niður að það gæti nú ekki verið að ekki eldri manneskja en ég, geti varla gengið af sársauka í kroppi, né hjólað svo vel sé. Ég sem hef alltaf haft ekkert að mér, þó svo að ég kvarti mikið (bylur hæst í tómri…).

Þegar ég kom á svæðið, tók á móti mér bambólétt rauðhærð kona. Falleg. Hún spurði mig allra mögulegra spurninga sem ég svaraði með bestu samvisku og svo sagði hún, taktu af þér fötin, allt nema nærföt.

Ö. Ég var ekki viðbúin því að þurfa að fara úr fötum og standa einhversstaðar á brókinni og mér til mikillar ólukku þá var ég í nærbuxum sem gera ekki á mig fjórfaldan rass (þessar sem liggja vel að og eru þægilegar) heldur í þessum sem ég var í alla meðgönguna (já ég á gamlar nærur) og passa ekki á mig fyrir fimmaura, eru eins og fjárans sirkustjald. En svo sem brúklegar ef þarf að lofta um þarna niðri.

Fyrir utan að vera í flaksandi nærum og ég kem að því eftir smá afhverju það var ekki það besta sem fyrir gat komið, þá hef ég ekki, frekar en fyrridaginn, stundað hárfjarlægingu af neinu tagi lengi.

Alltí lagi. Sársauki minn er þvílíkur að ég læt mig hafa það .. og ég gat ekki af mér fengið að hlaupa bara þaðan út því ég væri í ljótum nærbuxum með loðna leggi. Ég fór bara í femínistafötin… djók. Hún er líka mjög blátt áfram og sagði ekkert við þessu ástandi.

Hún lét mig snúa með bakið að henni, potaði í mig að aftan meðan ég lyfti hægri og vinstri fæti til skiptis. Hummaði og ummaði og lét mig beygja mig fram, eins langt og ég kæmist…

Hún komst strax að niðurstöðu um hvað væri, enda kvikk og létta í máli og fasi. Spjaldhryggurinn situr ekki rétt. Hún sagði að það væri hreint ekki skrítið að mér liði ekki vel í kroppnum. Ég var furðulega fegin að heyra þetta. Þá er ég með eindæmum stíf í mjó og brjóstbaki. Það sennilega tilkomið af þessari afbökun þarna í spjaldhrygg.

Læg dig ned på ryggen.

Við tók þá lega á legubekk. Sko ég sá þann sem var á undan mér. Hann var risastór maður sem eflaust svitar ekki lítið. Það var enginn pappír á bekknum og manni var þarna ábyggilega líka á brókinni, kannski á jafn flaksandi brók og ég.

Hún vafði mér í einhvert kuðl og setti einhverskonar áhald undir brjóstbakið, sagði mér að draga andan og svo, með öllum sínum þunga og NB að hún er ólétt, hlunkaði sér niður á mig svo það brakaði í hverjum einum og einasta hryggjarlið. Og svo hinum megin.

Læg dig på den anden side.

Ekki bara þetta heldur húrraði hún mér í aðra læsta legu og lét gossa þannig að loft á milli hryggjaliða í mjóbaki puðraðist út.

Þá hóf hún fótaleikfimi, á mér þ.e.a.s. Hún byrjaði að lyfta, beygja, leggja hnén á mér út til hliðanna og nú skilur þú afhverju það var óheppilegt fyrir mig að vera í flaksandi brók.

Du er meget smidig.

Ég er líka of liðug sagði hún. Þú átt ekki að gera yoga, nema að hafa styrkt vöðvana þarna í kring svo um munar. Svo, bless yoga. Halló táfýla í ræktinni.

Vend dig om, læg på maven. Jeg stikker dig med en nål.

Ha? Stinga mig með nál? Já, þetta var ekki nein kínversk nál eða nál með neinu indversku eða ótrúlegum mætti í. Hún sagði eins og var að hún ætlaði bara að rístarta á mér rassinum. S.s hún potaði í rassvöðvana hægra megin með nál, það var ekki gott. Nálin gæfi 10-15 sinnum meiri áhrif heldur en þegar maður fer í nudd og það er verið að þrýsta á hina og þessa punkta til að einskonar “vekja” vöðvana.

Jeg har et plan for dig.

 

Hún er rauðhærð, ólétt kona með plan. Ég þurfti að koma aftur strax daginn eftir. Þegar hún hefur losað um alla tregðuna í hryggnum mun hún senda mig niður til Dennis. Og hver er Dennis, spyr ég, ennþá á nærhaldinu. Dennis er sjúkraþjálfi sem ætlar að hjálpa mér áfram með þetta.

Hop du bare i tøjet.

Já ég hoppa nú bara í fötin. Þegar ég kom út fann ég strax að ég átti auðveldara með að anda. Ótrúlegt. Daginn eftir, þegar hún hafði látið braka í mér aftur og sýnt mér og svo látið mig gera æfingar á svona harðri svamprúllu (á nærbuxunum..ennþá með ósnyrtan garðinn !) svo ég geti losað um þetta sjálf heima, fann ég að ég átti enn betra með að anda og líka með að setja herðablöðin nálægt hvoru öðru, eða fetta efra bakið, já eða heitir það að rétta úr bakinu.

Síðan þá er ég samt ennþá að drepast, enda nefndi hún það í fyrstu setningu að þegar svona ástand hefur varað lengi má ekki búast við neinni töfralausn.

Ég ætla geggjað að vera búin að taka til í garðinum hjá mér, ef þú skilur hvað ég á við, fyrir miðvikudaginn, en þá fer ég aftur.