Þetta hafa verið svolítið random dagar undanfarið. Ég er alveg að njóta þess að vita ekki almennilega alltaf hvað er að fara að gerast allan daginn, svo lengi sem það er ekki eitthvað slæmt auðvitað.

Ég t.d hef verið að leysa af í vinnunni, en samt að vinna allan daginn (að vefa) og náttúrulega að álpast um á heimili mínu sem í augnablikinu lítur út eins og á sprengjusvæði.

Við fórum með peningapunginn í IKEA um daginn og leyfðum honum að vaða uppi og losa um hjá sér. Hann var náttúrulega orðinn svo pakkaður af seðlum (lesist: innkaupanótum, ekki fé). Fjárfestum í langþráðum bókaskápum og mublu undir sjónvarpið. Ekki bara það heldur keyptum við líka mottu á gólfið fyrri framan hurðina inni og fyrir utan hana.

Eini gallinn við þetta er að það eru aftur komnir kassar hingað upp sem ég veit ekki hvað á að gera við innihaldið úr. Við eigum mun færri bækur en ég hélt. Við grisjuðum alveg rosalega þegar við fluttum út, það var vel þörf á því og nú komast allar bækurnar fyrir.

Ég s.s hef verið að vinna í skúringunum undanfarið, það skar sig einhver á fingri og svo einhver veikindi held ég, en ég amk hef verið að leysa af á tveimur hæðum. Allir þarna vinna við tölvu. Samtals eru þarna á þessum tveimur hæðum um 216 tölvuskjáir og um það bil helmingi færri skrifborð. Nokkuð mörg fundarborð og hvorki meira né minna en 11 klósett. Gangar til að ryksuga og skúra. Þetta er ekkert grín auðvitað. Og alls ekki ef maður kemst ekki af stað fyrr en eftir kl. 22.

Í fyrrakvöld hinsvegar, þegar ég var að fara, kemur ekki vinnuveitandinn með tvær risastórar orkideur að gefa mér. Þeim átti að henda líklega, enda fullútsprungnar. Veit ekki fólkið að þær blómstra aftur?? Skemmtilegt því ég hafði verið að óska eftir orkideum lengi, þær eru svo fallegar. Og nú á ég svoleiðis.