Mér finnst ekki leiðinlegt að gera prjónfestuprufu. Mér fannst það leiðinlegt, eða þar til að ég eyddi svakalegum tíma í að gera peysu sem enganveginn passaði því ég gerði ekki prjónfestuprufu.

Það er mikilvægt að gera prjónfestuprufu hvort sem þú ert að fara að prjóna beint eftir uppskrift eða ætlar jafnvel að breyta henni aðeins eða skipta um garn. Til þess að uppskrift gangi eftir, verður prjónfestan þín að vera sú sama og upp er gefin. Annarsvegar er svo hægt að umreikna uppskrift eða stilla prjónfestuna til með því að nota stærri prjóna og færri lykkjur eða minni prjóna og fleiri lykkjur.

Í prjónfestuprufu er mælt hve margar lykkjur og hve margar umferðir eru á ákveðinni stærð á ákveðinni mælieiningu. Við notum oftast sentimetra og oftar en ekki er prjónfestuprufan gerð á 10x10cm. Þessvegna er mikilvægt að prufan sjálf sé aðeins stærri en bara 10x10cm.

Ef þú vilt fá mjög nákvæma prjónfestuprufu, þarftu að þvo/bleyta prufuna og leggja til þerris, rétt eins og um tilbúna flík væri að ræða. Prjónfestuprufa verður líka alltaf að vera gerð í því prjóni sem er í uppskriftinni.

Hér ætla ég að fara yfir hvernig á að mæla út lykkjufjölda og umferðafjölda á 10x10cm á sléttu prjóni.

Þegar lykkjufjöldinn er talinn er reglustika eða málband lagt þversum yfir prufuna og lykkjurnar taldar.

prjonfestuprufa-lykkjur

Hér hef ég lagt reglustiku yfir prjónlesið og merkt inná hvar mælingin byrjar og endar. Ég tel 9 lykkjur á þessa 10cm.

Til þess að telja út umferðir á prufunni, er mæliáhaldið lagt langsum á prufuna og umferðirnar taldar.

prjonfesta-umferdir

Þarna hef ég merkt inn aftur 10cm og tel 13 umferðir.

Næst ætla ég að sýna þér hvernig má umreikna uppskrift, sem nýtist t.d ef þú vilt skipta út garni.