Mosi cowl from Hlyja Collection by Kristin : Fjarhusid Yarn Store

Eiginmaðurinn er ekkert svakalega hrifinn af prjónlesi og var varla fáanlegur til að fara með strokkinn út. En það var sem ég sagði, það eru ALLIR með risastóran trefil eða strokk eða endalausan trefil um hálsinn og í þessari stuttu göngu rákumst við á hvorki meira né minna en 4 aðra karlmenn með eitt af ofnatöldu. Hann er sáttari við fyrirbærið núna blessaður.

Mosa ætla ég að framleiða í amk þremur litum, þessum fölgræna og gráa sem eru á myndinni og svo í appelsínugulum. Garnið er 100% ull og alveg svakalega mjúkt.

Mosi er prjónaður með perluprjóni sem mér finnst koma svolítið skemmtilega út þarna, í svona grófu garni með stóra prjóna.

Hvernig prjónar maður perluprjón?

Það er auðvelt ef þú kannt að prjóna bæði slétt og brugðið. Þú notar lykkjufjölda í sléttri tölu og gerir í fyrstu umferð slétta og brugna lykkju til skiptis og svo í næstu umferð byrjar þú á brugðinni lykkju og heldur áfram að gera til skiptis, slétt og brugðið og endurtekur umferð eitt og tvö.