Ég er búin að skrifa 400 sögur af okkur hér á Félagsbúinu! Fjögurhundruð! Það eru aldeilis margar sögur. Hér er vonsku veður í augnablikinu og ég með munnræpu sem aldrei fyrr.

Mig vantar í rauninni hjálp og ákalla hér með, mér eldri og reyndari drengja mæður. Verður þetta alltaf svona? Verður alltaf kúkur og piss útum allt. Verða alltaf sjöhundruð einstæðir sokkar, líka útum allt? Verða sokkarnir alltaf svo grútgeðveiktskítugir að það er ekki hægt að ná því úr? Verður alltaf grasgræna á hnjánum? Eiga þeir alltaf eftir að éta epli og banana inni í herbergi og aldrei koma með  það þaðan út..fyrr en það hleypur þaðan sjálft?

Geta þeir aldrei hætt með fótboltann á lofti þó ég segi það oft daglega að við séum inni og þessvegna ekki við hæfi að vera með bolta á fleygi ferð?  Getur þvottavélin aldrei fengið að vera óhrædd við allt draslið sem er í vösunum þeirra? Geta þeir aldrei tekið vel til?

Já, ég get svo svarið það. Er það lögmál að fólk með typpi tekur ekki jafn vel til og fólk ekki með æxlunarfærin hangandi niðrá læri? Mér féllust eiginlega hendur hér um daginn þegar ég komst að því að “einhver” hafði orðið aðeins of seinn á klósettið og misst aaaaðeins í brækunrnar. Hinn meinti sökudólgur fór meðfram veggjum og læddist inná klósett svo enginn sá til, í þeirri von um að fela verknaðinn. Ekkert hálfkák dugar við svona aðstæður, það vitum við konur! Það fór því sem fór og ég fann alltí einu inná baði eitt lambasparð (svo sannarlega ekki úr neinu lambi) sem var búið að stíga í… s t í g a   í.

Ég mun ekki leyna því að ég varð mjög reið. Eiginlega varð ég yfir mig reið og æpti á lýðinn sem sat um alla íbúð (og örugglega búinn að þramma um alla íbúð) ýmist á rassinum (Örverpið) eða með fætur uppí sófa (eigum við að ræða að sófinn er rúmið mitt..), hvort þau væru nokkuð með eitthvað ógeð undir sokkunum. Enginn kannaðist við það.

Ég fann þá annað ástigið lambasparð inní öðru herbergi. Því lambasparði var búið að smyrja vandlega um gólfið, ekkert verið að felaða þar.

Það var eiginlega ekki um annað að ræða en að hefja tiltekt. Og klukkan var seinnipartur og ég var nýbúin að ákveða að ég ætlaði ekki að eyða þessum frídegi mínum í tiltekt og skúringar.

Mér finnst þetta ekki sanngjarnt og er guðslifandifegin að eiga eitt kvenkyns afkvæmi til að þurfa ekki, sem gömul kona, að standa ein í að þrífa eftir ósjálfbjarga karlpeninginn.

Og það er þessvegna sem ég lét hana skúra skrúbba og bóna heimilið á þessum örlagaríka föstudegi. Ég sat hinsvegar í hásætinu mínu og drakk smúððí og át súkkulaði. “Áfram stelpa” gargaði ég á milli þess að ég dottaði yfir uppáhalds blaðinu mínu og þegar hún stoppaði til að þurrka af sér blóð, svita og tár, þá öskraði ég ennþá hærra.

Og talandi um þrif. Ég er ræstitæknir af guðs náð. En þegar ég segi fólki hvað ég er að vinna við, þú veist þegar ég gleymi að segjast vera vefhönnuður þá fæ ég svona “oooohhh…æ, það hýtur eitthvað annað að koma upp” .. og ” æ..er allt í lagi, hvað kom til að þú verður að ..skúra” og  “æ, þú hlýtur að fá eitthvað betra, ég veit það kemur að því”.

Og fólkið, þar sem ég vinn við að hreinsa krónískan niðurgang af klósettunum, gerir endalausar kröfur. Og vill ekki borga eina einustu krónu fyrir. Finnst við þrífarar vera bara eitt af skordýrunum sem eru neðst í fæðukeðjunni.

Mér er spurn, HVER  þreif heima hjá ykkur?.. varða kannski mamma þín? Finnst þér mamma þín vera eitthvað keis  því hún var að þrífa?.. eða pabbi þinn, þreif hann ekki stundum líka? Og ekki er hann verri maður, þú lítur jafnvel upp til hans, og þeirra.

Afhverju er t.d ríkisstjórn sem inniheldur fólk sem gengur  í jakkafötum úr gulli, með frosið bros, hvíttaðar tennur og uppábúin svör við öllum vandræðalegum spurningum sem kunna að koma upp útaf því að sú sama ríkisstjórn hefur sett íslenskan venjulegan almenning í vandræði allan hringinn, betri en sá sem þrífur skítinn úr þeim af klósettinu daglega svo það geti drullað rækilega á það (ég get ekki sagt að allt fullorðið fólk geri stykkin sín ONÍ klósettið) aftur daginn eftir?

Já, ég gæti þurft að sýna á mér rassinn aftur barasta!