Hér hefur auðvitað snjóað síðustu vikurnar. Auðvitað núna, þegar ég skrifa þetta er ekki arða af snjó eftir og fjöllin í kring bara hálfhvít. En maður lifandi það snjóaði! Við náttúrulega búin að vera lengi í stórborg erlendis, sagt til að leggja áherslu á að við höfum varla séð snjó, svona af nokkru viti, í 10 ár. Arna hafði ekkert séð neinn snjó svo hún myndi eftir.

Skemmst er frá að segja að eftir eitt óveðrið og eins og allir sem þetta mál kunna að lesa vita, að þau voru alveg nokkur óveður sem gengu hér yfir í janúar og febrúar, myndaðist þessi líka dúndur fíni skafl. Svo fullkominn fyrir snjóhúsabyggingu. Diddmundur og Herforinginn að grafa. Hann með skóflu, fullorðins, en hún með ausu úr eldhúsinu.

Þá voru settar hurðar fyrir. Lokað kyrfilega. Annarsstaðar í garðinum var grafið enn stærra hús og byggður veggur í kring og farið með vasaljós og legið þar inni í kyrrðinni. Ó ég man þá tíma. Vera barn í snjóhúsi. Það er svo gott. Nei, ég er ekki búin að útiloka eða kveðja það að vera barn og  liggja í snjóhúsi, mér verður bara svo andskoti kalt.

Allir reyna að njóta sín í snjónum. Eiginmaðurinn er þannig gerður að hann vill helst vera úti í hríðinni. Um daginn kom hér ofsalegt rok, svo mikið að það komst í fréttirnar. Það var ekki hundi út sigandi. Bókstaflega. Ruslatunnan, endurvinnslu, full af pappír og plasti hafði verið komið fyrir í horni við húsið. Ekki bundin. Ég sá hana detta, blikkaði augunum og þegar ég opnaði aftur, s.s sekúndubroti síðar, þá var hún HORFIN! Fokin útí veður og vind! Bókstaflega! Ég rauk í glugga í barnaherbergi til að ath hvort hún myndi nokkuð fjúka á nærliggjandi hús eða bílinn Frumburðarins (já, hann keypti sér bíl, fær próf í apríl n.k – hann er móðurbeturngur í að geta ekki beðið eftir hlutunum) – hún lá á túninu og endaði síðar í ánni, en ruslið sem hafði verið í henni var horfið. Eins og dögg fyrir sólu. Jedúdda. Það hékk eitt aumt blað á þvottasnúrunni, hitt var bara eins og jörðin hefði gleypt það.

Innandyra í óveðrum og sögulega miklu roki er bara náttfatadagur. Helst með náttbrækurnar klemmdar á milli rasskinnanna, með veglega úfið hár að vaska upp að fyrirskipan Bústýrunnar. Djók, hún vildi auðvitað vaska upp sjálf.

Ég get alveg haft óveður ef ég þarf ekki að fara útí það, það er ekkert að gerast inni hjá mér sem gerir að verkum að mig langar út og ef ég get unnið vinnuna mína eða lendi ekki í 2 vikna löngum vandræðum með hana eftir á. Ó hve flókið það stundum er að vera sjálfstæður atvinnurekandi. Mér finnst best þegar hríðin er búin, kyrrðin eftir hana þ.e. Þetta er Hvammstangi, séð frá Kaupfélaginu, einhvern morguninn. Mikið meiri snjór inná Hvammstanga heldur en útá Reykjaskóla. Allt hvítt.

Hvað gera ungmennin í svona óveðrum? Það veit ég ekkert um, það er alltaf lokað inn til þeirra.

Síðan um miðjan janúar hef ég litað ógrynni af garni.

Hér er partur af hrúgunni sem ég var að pakka fyrir síðustu pöntun fyrir Ömmu mús (garnbúð í RVK).

Hjálparinn á náttfötunum. Rólegan. Hún er ekki alltaf á náttfötunum, þetta er mynd tekin sama dag og þegar hún vaskaði upp.

Fór til Reykjavíkur í skottúr í fyrradag, með garnið í Ömmu Mús og Garnbúð Eddu. Þá var aldeilis blíðan. Spegilslétt. Kann mun betur að meta það heldur en rokið sem er eitthvað að vinda uppá sig meðan ég skrifa þessi orð.

Píanó

Hvað ætli ég hafi oft hrósað happi yfir því, síðustu 11 árin, meðan ég hef haldið þetta blogg, að hafa eignast píanó. Ég get sagt þér það. Þetta er þriðja píanóið sem ég særi til mín. Hin tvö fékk ég ókeypis og fyrir þetta borgaði ég mjög ásættanlega summu. Við sóttum það á hestakerru til höfuðborgarinnar og þetta er það sem ég elska við að vera á Íslandi. Jóhannes bróðir vor (þessi með dökku húfuna) var svo dásamlegur að keyra með okkur suður og hafa hestakerruna sína með. Jóhannes frændi vor (þessi í ljósbláa jakkanum), Siggi mágfrændi vor (í rauða og júvíst er það orð), Jóhannes bróðir og auðvitað Eiginmaðurinn tóku svo glimrandi fallegt píanóið föstum tökum og báru það út úr húsi á Laufásvegi í Reykjavík.

Ég. Elska. Sterka. Menn. Vúffhh.

Gekk eins og í sögu.

Svo dýrmætt að geta bara kallað í bræður sína, frændur og mágfrændur og sótt píanó í höfuðborgina í hestakerru. Þeir eru af Auðunarstaðakyni, þar eru hlutirnir bara straight forward, þar erum við ekkert að flækja málin – þar heita allir Jóhannes, Guðmundur, María, Ingibjörg, Margrét og Kristín.

Það er þessvegna sem á myndinni eru tveir Jóhannesar og Siggi sem tók Guðmund son sinn með. Sá Guðmundur á bróður sem heitir Jóhannes. Þeir tveir, synir Sigga eiga systur að nafni Þórný Kristín og  mömmu sem heitir Ingibjörg (eins og amman).  Sú Ingibjörg á systur sem heitir María, María á dóttur sem heitir Margrét eins og amma sín. Margrét (amma Margrétar..) á mann sem heitir Guðmundur. Jóhannes frændi er einnig sonur Guðmundar og Maddýar (umrædd eldri Margrét). Þá er komið að Stellu systur Maddýar (og mÖmmu Lóu) en hún heitir ekkert Stella heldur Kristín. Þá þarf að ræða Guðmund bróður Maddýar, Stellu og mÖmmu Lóu. Konan hans heitir Kristín, sonur þeirra Guðmundur, dóttir þeirra Ingibjörg og yngsti sonurinn Jóhannes. Þá er best að fara í næsta Jóhannes, en það er Jóhannes bróðir, konan hans heitir Stine, sem er auðvitað næsti bær við og eiginlega sjálfsagt. Þá er það ég sjálf, ég heiti auðvitað Kristín (og er Guðmundsdóttir) og sonur minn Guðmundur. Guðmundur sonur minn á kærustu (OMG!) en hún heitir að sjálfsögðu María.

Hvað varðar Þorvald Björnsson, þá kemur hann náttúrulega inní málið eins og skrattinn úr sauðalæknum. Sem og allir hinir sem ég ekki nefndi (sem eru ekkert rosa margir) og ekki fylgja ættarhefðinni. Þetta þýðir að ég er útvalin og að þú Freydís, þú verður að breyta um nafn og byrja að kalla þig Ingibjörgu. Þá verðið þið Jói “Jóhannes og Ingibjörg” og gætuð alveg eins flutt að Auðunnarstöðum.

Píanóið komst á sinn stað.

Það hefur verið spilað á það án stopps síðan við komum heim. Diddmundur að læra á það og vegna þess að það er af sömu gerð og píanóið sem ég ólst upp með, sem mAmma R á, þá fæ ég fortíðarljómatilfinningar við það eitt að sjá nóturnar, þær eru svo kunnuglegar. mAmma R kom þegar veðri slotaði um daginn og settist að sjálfsögðu aðeins við. Ahhh.. góðir tímar.