Stuð lakkrís. STUÐ.. lakkrís! Ég fæ alltaf annað slagið gull og gersemar sendar til mín frá Ömmu Hlíf. Þetta er ein af þeim. Stuð lakkrís poki með 20 gömlum blýöntum í. Ég vill ekki einusinni nota þá, ég veit að allir á Breiða eða í Lýsuberginu hafa notað þá.. þeir eru söguleg staðreynd um að minningar mínar eru réttar, en ekki tilbúningur. Dásamlegt. Á einum blýantnum stendur “non toxic”.. úr hverju voru blýantar eiginlega, mér er spurn.

Og svo er  það hitapokinn. Minn er blár, keypti hann fyrir einhverjum árum síðan. Þvílík snilld er þetta tæki og það minnir mig einmitt svo mikið á Afa Tomma. Mér finnst að hann hafi oft verið með hitapoka, rauðan reyndar. Ég er með hann einmitt núna til að hlýja mér og lina þjáningar vöðva minna sem fóru á svo rosalega yoga æfingu í gær að ég get varla staðið upp af klósettinu fyrir harðsperrum. NÚ, ekki tala við mig um yoga og hvort það sé ekki eymingjalegt að fá harðsperrur eftir yoga æfingu fyrr en þú hefur prufað það sjálf/ur. Ashtanga yoga tala ég um. Ég finn fyrir vöðvum sem ég vissi ekki einusinni að ég hefði.

Þá er það pönnukökupannan og tilraunir mínar til að vera betri (hehe) en amma Ásta í að steikja pönnukökur. Alltaf þegar ég steiki, hugsa ég um Ömmu Ástu og hversu gaman mér fannst að horfa á hana steikja. Ég fékk að sykra úr sykurkari sem er með svona stút, ætti að fá mér þannig. Amma Ásta gaf mér líka hring einusinni, gylltan með risastórum rauðum stein (örugglega í tísku einhverntíma), sem ég á ennþá og nota í ákveðnum tilgangi. Reyndar hugsa ég oft um ömmur mínar, bæði þegar ég steiki pönnukökur og þegar ég prjóna vettlinga eða sokka.. eða lopapeysur um Ömmu Hlíf.

Og þá er það úlpan mín græna, sem ég er búin að eiga í hundrað ár og langar í nýja en ætla ekki að kaupa mér, sem minnir mig á úlpuna hans Afa Halldórs. Hans úlpa var reyndar einskonar blá, musku blá..segir maður það? Ég veit ekkert um það, en ég held að hann hafi líka átt úlpuna í hundrað ár. Veit hann fór í henni í vinnuna. Og ég man eftir honum koma úr vinnunni, þegar ég var hjá þeim, í úlpunni.

Ég elska ömmur og afa, þau eru svo frábær. Og okkar foreldrar eru líka dásamlegar ömmur og dásamlegir afar. Ég vona að ég verði einhverntíma amma eða afi.

Ég hef síðan pantað nýtt líf að ofan. Ég nenni ekki lengur að vera eitt eða annað, nema ég sjálf auðvitað, mér finnst ég skemmtileg og rosalega fyndin.

Og páfagaukurinn hefur líka ákveðið að skoða sjálfan sig, hann hefur komist að því að hann er í alvöru samkynhneigður og ekki bara það heldur er hann líka mannkynhneigður. Staðan er þannig að þegar Bóndinn er heima stoppar dýrið ekki gaulið, flautar og flautar og flautar. Ég er búin að hóta honum (fuglinum þá) öllu illu, garga á hann og segjast ætla að henda honum út eða berja hann til óbóta. Hann er bara svo ástfanginn af Bóndanum að engum fortölum er komið við.

Ég er að hlusta á mann tala um yoga og þannig allskonar og hann segir ” það er engin veröld til, bara þín veröld” og einhverra hluta vegna meikar það sens fyrir mér. Hvað er ég að breytast í eiginlega, vá.