Umræðuefnið er pistill um fjármálaógöngur.

Ég er sérfræðingur í fjármálaógöngum. Ég hefi auðvitað sjálf útnefnt sjálfa mig sem sérfræðing í þeim efnum, eða óefnum, en ég hef séð fólk titla sig vefhönnuð og hafa ekki lært bobbs (hér gildir stafsetningar reglan tvö b verða að f í framburði, en það er ný regla í íslenskri stafsetningu sem á að koma á jafnvægi, þar sem það eru svo mörg orð þarna sem eru skrifuð með f  sem borið er fram sem b, eins og tafla og efla ) í þeim efnum, nema af reynslu. Þannig að ef ég get lært allt um hvernig á að búa til vef í skóla og þessvegna haft opinbert leyfi til að kalla mig margmiðlunarhönnuð (sem starfsheitið er) en aðrir sem ekki hafa gengið til náms og borgað fyrir það fúlgur fjár, en mega líka kalla sig hönnuð, þá má ég, alveg eins og bánkastjórar og fjármálaráðherraeftirlitsstarfsmenn mega kalla sig sérfræðinga í fjármálum, gefa mér starfsheitið sérfræðingur í fjármálaógöngum.

Hefst þá lesturinn.

Konan í pistlinum lýsir því, hér í mjög stuttu máli, hvernig hún og hennar fjölskylda áttu meirihluta húss síns og fjölskyldan að stækka og allir glaðir og svo eftir það,  sem ég vil eiginlega ekki segja því ég er nærri því að drulla á mig en að geta haldið í mér yfir leiðindum á þessu orði… s.s eftir “hrun” hafi lánin þeirra hækkað uppfyrir eign þeirra í húsinu, maðurinn orðið atvinnulaus, eignuðust þriðja barnið og þau búin að reyna allt. Þau eru ráðalaus og hálf vonlaus. Að mínu mati er það verri staða heldur en að vera peningalaus.

Ég finn alveg tryllt til með þeim. Það er útaf því að ég skil hvað hún er að tala um. Ekki þannig að ég ímyndi þér hvernig það hljóti að vera fyrir þau, heldur veit ég hvernig henni líður. Svona eins og tveir sem  fengið hafa eins krabbamein, VITA hvernig hinum líður.

Þó að ég sé í aðeins annarri stöðu, þ.e ég á ekki húsnæði og hef ekki tapað peningum í slíkum viðskiptum, þá veit ég að það er ótrúlega mikil þolraun að sjá börnin ganga um með pírð augun af sjónleysi (ekki mín, heldur hennar, því hún talar um að gleraugnakaup ruggi bátnum) og staðreyndin að maður verður að bíða frá 7. mánaðar, eða daginn sem maður uppgötvar að eitt barnanna hefur gengið útúr skónum sínum að framan (s.s útum tána),  þar til 1. næsta mánaðar til að kaupa skóna sem það vantar. Ég gæti fengið væna munnræpu um hversu erfitt það er að eiga ekki allan peninginn sem mann langar, en það er ekki það sem ég vildi skrifa um, heldur viðbrögð fólks við téðum pistli, reyndar eru þessi viðbrögð svo algeng að ég er aftur nær því að drulla mjög snögglega í brók heldur en að geta skottast þokkafull inná klósett til þess að létta á mér.

Það eru 32 komment við þessa færslu og þau eru á þrjá vegu: Fólk er að segja þeim að flytja af landi brott, einhver nefnir að byrja á núlli í Noregi. Aðrir segja að nú eigum við að fara í hóplögsókn á móti.. jahh. ég veit ekki hverju, s.s lögsækja banka og ríki, í hóp. Og þriðja er um að þau eigi að hætta að borga. Já og fjórða er spurning fólks um hvað stjórnvöld ætli eiginlega að fara að gera í málinu.

Ekkert af þessu er nein lausn.

1. Þó að margir hafi flutt erlendis og mörgum eflaust vegnar vel þar, þá get ég vottað, að ef einn ætlar að flytja til Danmerkur eða Noregs, sem ég tel að séu með vinsælli stöðum til að flykkjast til,  þá kostar það stór fé.

Ef ég tek eitt algengt dæmi um flutning 5 manna fjölskyldu (sem ég held að sé kjarnafjölskyldan á Íslandi) til Danmerkur, þá verður sú fjölskylda að eiga sirka 200 þúsund til að fljúga út. Það verður að flytja með sér dótið, kemur nánast á sama stað niður hvort fólk er að flytja allt sitt eða ætlar að kaupa sér úti, sú aðgerð er oftast í kringum 3 til 4 hundruð þúsund þegar upp er staðið, ef  ekki meira.  Ekki er ein báran stök, heldur ef fólk ætlar að leigja sér íbúð, sem ég geri fastlega ráð fyrir, þar sem ef það gæti keypt íbúð í útlöndum myndi það líklega ekki vera í fjárvanda á Íslandi, þá er bara ekki leikur einn að finna íbúð né að nálgast um það bil eina milljón íslenskra króna sem það getur kostað að landa leiguíbúð í Danmörku. Í mínu reiknisdæmi er ég með 5 manna íslenska fjölskyldu sem þarf só and só stórt húsnæði, sem kostar bara frekar mikið þar.  Niðurstaðan af þessu er að ef ég væri í alvöru fjárhagsvanda, þá ætti ég líklega ekki eina og hálfa millu til að koma mér til útlanda til að byrja þar á núlli. Það er reiknisdæmi, sem meira að segja ég skil að gengur ekki upp.

Annar vinkill á flótta til útlanda væri og sem er ein af ástæðunum fyrir að við vildum flytja heim aftur, er jú að hér er heima og svo er allt fólkið okkar hér, það verður bara ekki metið til fjár.

Þegar út er komið, er síðan ekki víst að þú fáir neina vinnu. Ég veit af tilfellum þar sem menn hafa verið teknir bara solítið í rassinn með að fara og vinna í Noregi.. svolítið eins og what goes around comes around, m.v hvernig komið hefur verið fram við pólverja og aðra ég leyfi mér að segja austantjalds hér á landi. En alltí lagi, ekki algilt. Það að halda að maður sé svo mikilvægur og klár í starfi sínu, eða maður sé menntaður þannig að maður geti fengið vinnu allstaðar, á ekki við í dag. Og ekki þegar þú ert útlendingur og getur máske ekki tjáð þig almennilega. Það tekur fullorðinn alveg einhver ár að geta tjáð sig á erlendu tungumáli eins og ef það væri eins móðurmál.

Sem útlendingur áttu heldur ekki rétt á neinum bótum fyrr en þú hefur unnið lengi og borgað skatta. Sem er tótallí eðlilegt.

2. Hóp lögsókn. Mér finnst það eins framandi og jafn óaðlaðandi og að fara í hópkynlíf. Ég hef aldrei prufað  það, veit ekki hvernig það færi fram en veit hvað í því felst.  Já, kallaðu  mig tepru, en ég sé ekki tilganginn með hóp lögsókn.. og þá á hvað?..

3. Hætta að borga.. ég spyr sjálfa mig að þessu. Auðvitað vill fólk ekki hætta að borga það sem það hefur skuldbundið sig til. Ég væri mest hrædd um að þeir sem hafa skrifað uppá myndu lenda í vandræðum, ég myndi gera hvað ég gæti til að láta það ekki gerast. Það er held ég samt meira mál en að segja það að hætta bara að borga, það eru auðvitað afleiðingar. Ég er með og á móti. Ég hef  ákveðið mitt val í þeim efnum. Það val byggist á því að minnka áhyggjur og  stress. Áhyggjur og stress er banvænn sjúkdómur.

4. Hvað ætla stjórnvöld að gera.. ? Þessi spurning hefur verið uppi núna í hvað.. 4 ár.  Stjórnvöld eru upptekin í sandkassanum.  Spurningin ætti frekar að vera:  Hvað ætlum við að gera? Hvernig getum við hjálpað bara hvert öðru?  Það getur enginn sem er í fjárhagsógöngum ætlast til að sjórnvöld lagi ástand sitt í það horf sem sést í sjóndeildarhring ímyndunaraflsins eða hvernig það var fyrir “sldfjslfj-r-un”.  Það er ekki hægt að miða framtíðina við fortíðina. Útaf því að allt er bara núna.

Anyway.. það mætti t.d koma á einhverskonar nágrannahjálparstarfi, þannig að örmagna og bugað fólk sé ekki að brotna saman í búðum (hef verið þar, óskemmtileg reynsla) og þurfa að sækja börnin í gatslitnum skónum og ekki nógu vel búin fyrir veturinn, úr skólanum. Hvað þá að þynna mjólkina og éta baunir í hvert mál frá 3. hvers mánaðar. Þá er þetta nú bara orðið lýðheilsuvandamál.

En svo má líka búa til svona dómínó áhrif, en það felst í því að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, og þakklætið mun, án gríns, koma með á silfurfati hvað þú þarft. Má vera að það sem er á silfurfatinu sé ekki það sem þig langaði í, en það er pottþétt það sem á að vera.

Til sidst.. þá er mér FJANDANS SAMA um hvað er að gerast í öðrum þjóðum, eða hvað þær eru að gera. Ég vil bara að við (ég mun ekki segja íslendingar eða sjórnvöld eða að “það verði að “, eða “eitthvað verður að gera”) lítum okkur nær og finnum uppá lausn sem hentar Íslandi og Íslendingum. Við erum Íslendingar og þekkt fyrir að bjarga okkur, hættum að kaupa dýr krem til að hylja bauga og bólur, hættum að þykjast vera aðrar þjóðir og verum bara við sjálf. Þá kemur þetta.

Ég nota alltaf bara krem frá Gamla Apótekinu, þau kosta 1200kr  og endast í 3 mánuði. Engin aukaefni og ég er ekkert hrukkótt.

Djöfull verð ég alltaf æst yfir þessu.