Var ég búin að tala um það hvað mér líður furðulega með að geta ekki bara verið að taka mynd af öllu sem börnin eru að gera og ræða það opinberlega á internetinu?

Ef ég var ekki búin að því þá er ástæðan fyrir því, að mér finnst ég ekki almennilega geta það, sú að þau elstu eru 14 og 15 ára (næstum 16 – minnt á það á hverjum degi) og þau eru eiginlega alltaf inní herbergi (nema þegar þau spyrja um pening) og ég veit það ekki – ég er hrædd um að þau muni aldrei fyrirgefa mér ef þau sæu að ég væri að apa allt upp eftir þeim sem þau segja. Allar frábæru (og tótallí fjarstæðukenndu) ástæðurnar fyrir hinu og þessu og hve ÓTRÚLEGA og þá meina ég Ó T R Ú L E G A þau eru ótilbúin og óviljug að taka við ráðum frá foreldrunum. Allar afbökuðu framtíðarhugmyndirnar, hehe, í sjálfu sér mígandi fyndið.

Yngsta tryppið er alltaf alsbert. Þessvegna er ekki hægt að taka myndir af því og setja hér inn. Ég grínast ekki. Hún fer ekki í föt heilu dagana. Finnst það jafn eðlilegt og að himininn er blár og vatnið er glært.

Engu að síður hef ég náð að festa hana, alklædda, á filmu hér undanfarið. T.d á Fastelavn, sem er hinn danski öskudagur – nema hér eru menn hófkenndari (eins og í flestu miðað við Ísland) og hafa einn dag fyrir að klæða sig upp sem það sem hugurinn girnist og borða bollur með rjóma, sultu og súkkulaði. Hér er fólk semsagt í búning meðan það gúffar bollur. Ekki fyrst að gúffa bollur, svo gúffa saltkjöt (ég skil ekki þennan dag!) og svo klæða sig upp…

Var þetta þá þannig að fólk tróð í sig bollum og var afvelta og svo daginn eftir var ekki annað í stöðunni en að belgja sig út af söltuðu kjöti OG baunasúpu (versta áferð á mat, ever) og svo daginn eftir það þá var fólk orðið sturlað og vissi ekki sitt rjúkandi ráð af öllum sykrinum og saltinu að það hélt að það væri köttur og fór út sem einn slíkur…?

Neinei, vorum annars að ræða hvað við hefðum verið á öskudaginn í gamladaga. Eiginmaðurinn kvaðst hafa verið oftast gamall maður. Það meikaði mestan sens því það var það sem hægt var að klæða sig upp sem. Ég man eftir að hafa verið Lína langsokkur og grænn litur – yfirleitt, ef ekki alltaf í heimasaumuðum búningum. Mér finnst það meira töff heldur en að það sé ekki annað hægt en að kaupa búning í dag.

Hvar er þá ímyndunaraflið? Hvergi?

Svo takk mamma fyrir að nenna að græja til búning og sauma og allt. Og takk mAmma Lóa fyrir að geyma föt af gömlum körlum í fataskápnum – það hefði verið sorgleg saga ef Eiginmaðurinn hefði alltaf þurft að klæða sig upp sem “hann sjálfur”.

Að öllu gríni slepptu þá var Bína litla köttur á fastelavn. Hún var í keyptum búning því ég á ekki ennþá saumavél og á heldur engan gamlan karl til að fá lánuð fötin af.

Hér er hún tilbúin í fastelavns-partý í barnagarðinum.

Þegar ég svo sótti hana síðar um daginn var hún komin úr fjárans búningnum, enda óþægilegt gerviefni en búin að fá lítið sætt kattaandlit  og bleika rönd í hárið öðrumegin og græna rönd hinum megin. Sést ekki vel á þessari myndi, en það sem sést vel eru tattúmyndirnar sem hún fékk á sínhvorn framhandlegginn og gat bara ekki verið meira ánægð. Þegar ég mætti á svæðið voru þau að borða sykurpúða, sannkallað partý.

Ég fer yfirleitt ekki með hana í leikskólann. Eiginmaðurinn hjólar þar framhjá á leiðinni í vinnuna og mér finnst ekkert eðlilegra en að hann taki hana bara með. Þetta eru ss þrjár myndir af þeim þremur skiptum, á þessu ári, sem ég hef þurft að fara með hana eða sækja. Þarna er hún að sporta hversu dugleg hún er að klæða sig alveg sjálf.

Hún beit þetta í sig einn daginn en svo varða líka búið.

Við förum stundum í Bilka (hér úti í Fields) og kaupum inn. Í eitthvað skiptið var hún með og útaf því að hún er yngst, sætust og frekust þá fékk hún derhúfu, eða “skaskett” borið fram “ska-hættaðdragaandann-skett”, sem á að vera fyrir “kasket” sem er derhúfa á dönsku.

Aftur í kerrunni, nema núna með sólgleraugu og gúrku- og gulrótabita í poka. Þessi mynd var tekin í gær þegar ég og hún fórum morgungöngu útí Nettó. Það var æðilsegt veður! Ég fann lyktina af upphafinu. Brumið farið í gang.

Ég held að það sé árviss atburður að ég er komin með nóg af myrkri, kulda og vetri í endan febrúar (eða fyrr, jafnvel um leið og það byrjaði) og er bara svo rífandi fegin þegar það er fyrir alvöru að koma nýtt vor.

Í gær var fyrsti svona dagurinn og ég fór beint útí svalagarðinn að gera skurk í garðverkunum. Það verður öðruvísi í ár, í svalagarðinum, þ.e það verður ekki ræktað neitt nýtt í ár. En í gær tók ég þar til og henti öllu dauðu og sópaði og svona. Eftir standa berjatré og jarðaberjaplöntur tvær. Smá tregi yfir að vera ekki að fara að rækta neitt í sumar.

Örnídabörn (afbökun af Arna Barn eins og Bína er stundum kölluð – ætlarðu nokkuð að hringja á barnaverndaryfirvöld vegna nafnamisnotkunar?) tók æfingu á flautunni (hægt að sjá vidjóið á instagramminu mínu, svakalega hæf í flautuleik..) um leið og ég lagði hana niður þegar ég var að endurraða nótunum við æfingar um daginn. Barnið bert að sjálfsögðu.. svo The Naked Flutist.

Og síðasta myndin sem náðst hefur af barninu í fötum undanfarna daga. Nú verður hún 4 ára í sumar, þýðir að hún er rétt rúmlega 3 og 1/2 árs núna. Hún er u.þ.b 1 meter á lengd. Rúmið mitt er 160cm á breidd. Það þýðir að ef hún liggur þvert á það, sem hún gerir allar nætur, þá nær hún yfir rúmlega helminginn af því.

Ég sef laust sem enginn annar (nema móðir mín kannski) og Eiginmaðurinn sefur sem steinn. Hann er meira að segja sofandi núna, klukkan 9 á sunnudagsmorgni :O Bína sefur með svakalegum látum. Kemur allar nætur uppí (nema 4 á öllu hennar lífi) og sparkar sér þar í hringi og talar uppúr svefni og öskrar. Prílar uppá hinum sem sofa í rúminu og ég hef bara hreinlega gefist upp áessu.

Er flutt í sófann. Sef þar með eyrnatappa. Langt síðan ég náði eins góðum og ókvíðnum nætursvefni.

Hér að lokum er þá mynd af Úngdömunni. Hver af þessum þremur heldur þú að hún sé? Þær komu hér í gær og ruku út til að taka myndir af hvorri annarri og filma. Sátu svo hér frammi og gerðu grín og hlógu eins og enginn væri morgundagurinn. Elska svona.