Ég er þegar byrjuð að vinna eins og V I N D U R I N N í að prjóna úr öllum kílóunum að garni sem ég á. Þetta er fyrsta peysan. Hún er úr léttlopa og er til sölu. Já krakkar mínir, ég opnaði Etsy búð í gær, þar er ein vara til sölu í augnablikinu, hehe, en mun bæta þar við. Er að þurrka aðra peysu í þessum töluðu.

Ég elska að breyta. Þegar ég var krakki breytti ég mjög oft í herberginu mínu og fannst það æði. Þessu hef ég ekki hætt, kannski hægt aðeins á því vegna þess að ef ég breyti á heimilinu núna er það alveg bara 16 daga prósess. Kona verður eiginlega að nenna því.

Breyti bara hér inni í staðinn. Tel að hinni eilífu einkennis leit minni sé lokið. Þá að því hvað einkennir sjálfa mig. Það er nefnilega ekki eitthvað eitt, man ekki hvort ég var búin að ræða það áður… en ég tilheyri þeim hópi fólks sem hefur ekki eina ástríðu heldur margar. Hefði nú ekki verið frábært ef ég hefði ekki verið haldin þeirri hugsanavillu (hvaðan kom hún eiginlega?) að einstaklingur gæti bara haft eina ástríðu og að vegna þess að ég brann ekki fyrir einhverju einu að þá væri eitthvað að mér.. nú, 30 og eitthvað árum síðar ber að fagna því að þessi villa hefur verið leiðrétt. Því fagna ég að einhverju leiti í dag með því að flytja inná þetta blogg allt það sem ég hafði búið til og skrifað fyrir Fjárhúsið sem var og hét.

Það hafa nokkrir spurt mig um það sem ég hafði skrifað og nú hef ég þá ákveðið hafa það hér og skrifa kannski inná milli um prjón og þannig stöff. Það er nefnilega svakalega mikil vinna falin í því að skrifa bloggpóst, sérlega ef honum fylgja einhverskonar leiðbeiningar, þannig finnst mér það óréttlát framkoma við sjálfa mig að hafa notað allan þennan tíma í skrif og annað, sem enginn myndi þá fá að njóta.

Ég hef verið að flækjast með það svo lengi hvað ég ætla að skrifa hvar að ég skrifaði orðið ekkert, en þar sem ein af mínum ástríðum er að skrifa (ég á erfitt með að hugsa ekki um hvað ég ætla að skrifa einhverntíma) þá er þá ákveðið að springa út hér á þessu bloggi.