image

Neisko! Ég bjó til matseðil númer tvö. Það er að fjálfsögðu stórt afrek. Reyndar fer ég pínu hjá mér verandi Bústýra Félagsbúsins til margra ára að vera að monta mig eftir 17 ára búskap að vera fyrst núna að segja frá því að ég búi til matseðla, það sennilega tilkomið útaf því að þeir eru sennilega allt í allt kannski 15, yfir allt þetta tímabil, talsins, matseðlarnir.

Reyndar, önnur staðreynd, er ég pínu foj (hehe, gott orð) yfir að það eru rosa margir farnir að kalla sig og sitt félagsbú.. svona er erfitt að vera trendsetter. Ég þarf nýtt nafn yfir okkur bráðum 7 fræknu, teljum hundinn með að sjálfsögðu.

En að matseðlinum aftur. Ég fylgist núna grimmt með blogginu hennar Eyglóar sem eldar. Fyrsti matseðillinn hennar var metnaðargjarn og er ég sammála mætri konu sem ég þekki að ég skildi heldur ekkert hvað hvaða réttur nákvæmlega var. Ég nenni ekki að elda neitt svona.. Löflefle ala gúgú. Enginn veit hvað er í því hvort sem er.

Í kvöld elduðum við nautakjötsrétt á pönnunni. Uppskriftin er eftirfarandi:

Fyrir 4 (við erum að spara og í hverjum kvöldmat þarf einn að sætta sig við að horfa á hina borða)

500gr nautavöðvi
3/4 paprika, rauð (þetta er MÖST! ef þú setur eitthvað annað oní er voðinn vís)
7 sveppir
lítill haus brokkólí

Allt nema nautið mýkt á pönnu og svo mjög þunnskorið kjötið steikt í nokkrar sekúndur á hvorri hlið. Fyrir eldunarbjána má taka fram að nautakjötið var skorið í strimla sem eru kannski 2 eða 3 millimetrar á þykkt. Þá öllu hrært saman á pönnunni.

Við áttum ekki önnur hrísgrjón en grautargrjón og suðum þau. Þau bragðast fínt og eru sennilega mjög góð í sushi gerð, amk var þetta meira grjónabúðingur en laus hrísgrjón.

Og salatið fína sem í fór: avocado, ekki af því að ég er svona “inn” að vera alltaf að flagga því að ég sé að éta eitthvað með avocado, heldur útaf því  að mér finnst það gott og svo vill ég fituna úr því, rauð paprika, gúrka og fetaostur.

Þar sem þetta var bara fyrir fjóra var ekki arða af afgang og ég fæ því engan hádegismat að viti á morgun.