Eiginmaðurinn og Bína að hjóla útí búð. Hún er kvenskörungur, hún fæddist þannig.

Já hver er hugleiðing dagsins?

Hún er að ég fór með Geðmundi, sem ég er alvarlega að íhuga að byrja að kalla aftur (síðan hann var yngri en 8 ára) Prinsinn, í verslunarferð nú í gær. Hann vantaði brækur blessað barnið. Hann hefur rokið uppúr öllum fötunum og það var eiginlega orðið hálf pínlegt að sjá hann í níðþröngum buxunum sem voru líka stuttar. Svolítið eins og vel þjöppuð medisterpulsa.

Fyrst verð ég að segja að ég er svolítið búin að vera að upplifa að ég sé í nýjum kroppi sem ég á erfitt með að sætta mig við. Síðan ég átti Bínu, hefur mér fundist eins og hann sé ekki eins sterkur og ekki eins meðfærilegur og áður, ekki eins hress. Mér er meira illt í honum og er þyngri en ég er vön. Ég er ekki alltaf alveg sátt við hvernig mér líður með kropinn, mér finnst hann stundum of linur og stundum of krumpaður, eða of eitthvað, ég veit það ekki.. en þúst.. innra með mér er rödd sem veit betur og hún segir: kona getur ekki ætlast til þess að ganga með og fæða 4 börn án þess að það sjáist á kroppnum á henni, þannig er það bara. Ég er dugleg að mæta í ræktina og hef verið síðan í mars. Ekki svo að segja að ég geri heil ósköp þar ennþá, mér finnst þetta svo húrrandi drepleiðinlegt að ég fer ekki nema vera með mjög góða bók í eyrunum á meðan ég stappa á tækinu sem lætur mig líta út fyrir að vera í ímyndaðri skíðaferð og geri 10 magaæfingar.

Allavegana. Í tengslum við þessar tvær yfirlýsingar, þá að ég fór í búð með elsta barnið og að mér finnst ég hafa fengið nýjan kropp, þá segi ég frá því að þegar við vorum á leiðinni niður í lyftunni, þar sem spegill sannleikans er (hver kannast ekki við að sjá öll búkonuhárin, bólurnar og hrukkurnar ótrúlega vel í lyftuspeglinum), sá ég að ég er ekki eins í framan og ég var. Hehe. Hvernig yfirlýsing er nú þetta?

Jú, ég sá hann við hliðina á mér, svona hálffullorðinn einhvernveginn, samt svaka barnalegur ennþá í framan, rak þá augun í að hann er áberandi stærri en ég og svo sá ég andlitið á mér og sá að ég er breytt kona. Nú á ég 4 börn þar sem tvö af þeim eru hálffullorðin. Framtíðin er þeirra, ég er ekki lengur aðalpassarinn, nú passa þau sig að flestu leiti sjálf og ég er bara hér til staðar ef á þarf að halda (og til að skikka þau til).

Þar hefurðu það, ég er breytt og barnið er stærra en ég. Hann er að fara til föðurhúsanna á morgun. Ég vil alltaf hafa hann nálægt, sama hversu hormónaður hann kann að geta orðið. Þegar hann var lítill og ég var að svæfa hann þá vissi ég alltaf hvenær hann var dottinn út, það var sérstök tilfinning sem ég fékk og það gekk í 100% tilfella eftir að hann var sofnaður þegar ég fékk þessa tilfinningu.