Ég er í ágætu stuði akkúrat núna þrátt fyrir að vera þessa dagana hálf græneygð og útá þekju.  Ég stofnaði hreyfingu um daginn þar sem er bara ein regla og hún er að ef maður segist ætla að gera eitthvað eða fær hugmynd og er að tala um að það væri nú gaman að framkvæma hana þá er BANNAÐ að framkvæma það ekki… heyrirðu það.. BANNAÐ. Viljirðu slást í hópinn ímáttu bara hafa samband, takk.

Það var þessvegna sem ég hóaði hljóðfæraleikara heim til mín eitt blíðskaparveðurs föstudagskvöld í nóvember mánuði. Það voru Kútur og Jafnar. Fyrst spiluðu þeir á sína, eða Kútur spilaði á minn, gítara og það svo vel og ég þóttist spila á sellóið.  Þá skiptum við einhverntíma og Kútur spilaði á sellóið sem það væri gítar og er hann nú svo fær að hann gat sms-að alveg á milljón meðan ég sat og dáðist að þessum snillingum spela og sms-a.

DSC_0124

Sko bara.. sellóið frekar hættulegt þarna myndi ég segja, pinninn neðan úr því alveg í hættulegri hæð, einsgott ég var ekki gó gó dansarinn í þessu bandi, ég hefði þurft áhættubónus háan.

DSC_0129

Já þeir kunna mörg grip strákarnir. Sum get ég alveg spilað en verð líklega ekki eins góð og þeir á næstu misserum, nema ég setjist á rúmstokkinn með kex (er svosem orðin góð í að éta kex) og spili eins og ég eigi lífið að leysa.

DSC_0125

Jafnar sýndi húsráð. Heimatilbúið slæd, eða hvað það heitir. Hann er með skeið á milli puttanna.

DSC_0126

Sko, skeið..ég er að segja ykkur það.

Þetta var skemmtikvöld mikið og endaði ekki fyrr en seint og síðar meir. Ég elska svoleiðis :)

DSC_0138

Hinn annars dásamlegi sonur minn Örverpið, fór í svo svakalega fýlu um daginn að annað eins hef ég bara ekki séð og þó á ég þrjá orma sem allir eru duglegir að vera bæði í fýlu og yfir sig kátir.  Þetta er the ultimate fýlusvipur..úff.. ég vissi bara ekki hvort ég ætti að hlæja eða..bara, flýja svæðið.

DSC_0137

og hann varð svo reiður að hann reif og tætti alla límmiðana úr þessari litalímmiðabók. Ég var ekkert að æsa mig við að stoppa hann, enda var þetta hálf fyndið jú.

Ég lýsti því yfir á hinni merku Facebook að ég ætlaði sko aldeilis ekki að fá hjartaáfall eða stresskast yfir því að í þessum mánuði aðeins seinna séu jól. Ég ætla ekki að ganga berserksgang með þrifatólin á lofti við að gera mitt heimili hæft fyrir jólin. Ef það er ekki hæft fyrir jólin í því standi sem það er í í dag, þá þurfa bara ekkert að koma nein jól hér.Hér er ekkert skítugt nefnilega, enda þríf ég oft.  En mest var ég bara að meina að ég nenni þessu ekki. Ég hef ekki metnaðinn í því að liggja yfir sextán sortum og ekki einni heldur og ég vill ekki finnast ég geti ekkert gert nema hafa eitt lítið og lásí heimili tilbúið fyrir eina kvöldstund, nei þakka þér. Hlussaðist samt niður að ná í jólaskrautskassann. Það var því ég fékk skipun um að gera það að handan.

DSC_0140

Sindri var hættur í fýlu, enda kominn annar dagur og tók til við að skoða fegurðina í kassanum. Sjálf er ég enn að bíða eftir að ég sjái einhverjar ógeðslegar pöddur á skriði hér um sem geymt hafa sjálf sig í jólakassanum síðan í fyrra og eru glærar og feitar því þær hafa ekki séð dagsins ljós í ár heldur lifað af gömlu ryki og glimmeri. Sindri var glaður hinsvegar.

Það var á stefnuskránni í gær að jólaskreyta amk herbergi krakkanna. Það hófst ekki því Eldey var búin að týna skónum sínum. Já þetta er alveg dagsatt, skótjónið varð til þess að við ekki komumst heim fyrr en seint og síðar meir í gær. Það byrjaði þannig að ég fór í nudd (þessi saga er alveg úr samhengi sé ég) en ég fór í avureyda nudd, eða hvernig það er skrifað. Það var úber kúl, mæli með að allir prufið það. Númm, ég var þessvegna frekar snemma á ferð minni á frítíðsheimilinu og hafði mig þessvegna rólega.. í nokkrar mínútur, því þegar ég komst að því að hún var búin að týna skópari númer 7 (ýkjur aðeins) þá hætti mér bara að lítast á blikuna og ákvað að hún skyldi ganga á sokkaleistunum út í metró og vera á sokkunum þaðan uppá Frederiksberg þar sem ég var hvort eð er að fara að versla kuldaskó á lýðinn. Og það gerði hún. Hún möglaði að henni væri kalt á tásunum og ég lét sem ég væri harðstjóri mikill, en var í raun að drepast yfir þessari ákvörðun, en sagði að hún gæti sér sjálfri  um kennt að hafa ekki hemil á sínum eigins skófatnaði.

Ekkert varð því skreytt.

Ætlaði þá að skreyta í dag en bara það að ég er ekki með neitt sjónvarp og leyfði Sindra að glápa í tölvunni minni , aldrei þessu vant, ýtti hugmyndinni um að jólaskreyta hér alveg á haf út. Þannig við gerum þetta bara seinna.

DSC_0145

Gummi skal fara í prufu til að ganga í annan skóla. Það er einskonar söngskóli, þar sem nemendur syngja óvenju mikið en læra líka venjulegt nám. Heyrum bara síðar hvernig það fer, en allir 2. bekkir eru skyldir til að velja tvo stráka og eina stelpu til að fara í prufu.

DSC_0150

Og því ekki að leggjast í sólbað á svona fögrum sólskins vetrardögum?

DSC_0158

Ég get ekki betur séð en það sé vel til fundið að ylja sér og fara varlega í öllum útfjólubláu geislum sólar…