arna-med-brok-a-hausnum

Hvað er hægt að segja?

Mikil tíðindi og ábyggilega er mörgum létt, en Bjútíbína er formlega hætt á túttunni. Það er ágætt.

Hvað ef það er þannig að hver móðir veit með hverju barni hvenær nóg er komið af brjóstagjöf? Getur verið að líkami okkar sé gáfaðari en einhverjar misgáfulegar skræður og misgáfuleg ráð frá heilbrigðisstarfsfólki? Mér finnst ég vera að upplifa að um leið og ég læt hlutina bara gerast á sjálfu sér, þá er allt ekkert mál.

Þrettándinn hætti t.d með snuð bara þegar honum datt það í hug. Þetta fer að tosa af sér bleiuna þegar það fattar að það er búið að pissa í hana. Við lentum í svakalegum leiðindum með Fagra þegar hann var á svipuðum aldri og Bjútíbína er núna, sem ég er ábyggilega búin að segja frá, þar sem við vorum að þrengja honum og okkur inní fyrirfram ákveðna rútínu, sem passar samfélaginu en ekki endilega okkur.

Nú höfum við haft það bara einhvernveginn alveg síðan áður en hún fæddist hún Bjútíbína. Mikil lifandis ósköp er ég ánægð með þá ákvörðun að hafa átt hana heima. Það var í stuttu máli svona:

Ég fékk einhverja stingi, fattaði svo að það væru hríðir, hringdi í Eiginmanninn sem kom frá Reykjavík til Keflavíkur. Á meðan rölti ég bara fram og til baka á mínu eigin heimili, fram í eldhús útí garð, langaði svo í sturtu þannig að ég fór í hana, svo langaði mig úr henni, þannig að ég fór uppúr og þá langaði mig að setjast í einn stól sem var inni í svefnherberginu. Þegar maður er að svona löguðu, þá einhvernveginn breytist hugsanaferlið, þ.e það kemst ekkert annað að einhvernveginn, það er bara ein hugsun í einu: vil í sturtu, fara í sturtu.

Þegar ég var sest í stólinn voru bæði ljósmóðirin og Eiginmaðurinn komin. Mér fannst hríðarnar vera svo vægar að ég hugsaði með mér að þetta myndi taka allan guðslangan daginn… og þau sátu svona á rúminu okkar og störðu á mig á meðan.

Það var aldrei athuguð útvíkkun eða ég sett í eitt eða neitt mælitæki. Enginn vissi hvað var að gerast nema Bjútíbína.

Eftir smá þurfti ég á klósettið og þar átti ég svo barnið, á hnjánum á gólfinu. Líkaminn er svo sniðugur að þurfa á klósettið rétt áður en að barn kemur út. Ljósmóðirin var steinhissa á því hve lítið af svona bréfhandklæðum þurfti að nota. Bara eitt.

Frá því að ég fattaði að ég væri með hríðir og þangað til hún var komin í heiminn liðu sirka 3 klukkutímar.

Þetta var það náttúrulegasta sem ég hef á æfinni upplifað. Það er eins og það hafi síðan komið af sjálfu sér, í kjölfarið á þessu náttúrulegu upplifun, að Bjútíbína fékk að ráða bara hvort hún svaf eða ekki, drakk eða drakk meira.

Sjúr, ég hef verið þreytt á þessu tímabili, en hvaða foreldri hefur verið eins og nýsleginn túskildingur allar götur síðan barn kom í heiminn? Sennilega ekkert.

Og líka hef ég verið úrill og pirruð, útaf því hve oft hún var að vekja mig á nóttunni, bara til að fá sér sjúss og sennilega í marga mánuði af einskærum vana. Mér var alveg sama þó það væri þreytandi. Ekki svo að skilja að ég hafi alltaf verið með fullum fimm, einmitt útaf þessu.

Svo kom að því fyrir 4 dögum síðan að líkami minn sagði, ekki meir. Nú er nóg komið. Mig bara langaði ekki að gefa henni brjóst. Og það var hreint eins og hún skildi það. Ekkert var neitt mál að taka af henni síðustu gjöfina. Hún bað ekki einusinni um. Tíminn var kominn.

Hvað ef líkaminn er í alvöru gáfaðari en allar bækurnar og bæklingarnir? Hvað ef foreldrum yrði bara treyst til þess að sjá um börnin sín eins og á kallar? Er ekki aðeins of mikið af  “má og má ekki”  þarna úti? Er ekki svolítið verið að fjar-lægja okkur frá því að heyra í eigin móðureðli? Aðeins of mikill hávaði?