Ég rembist eins og rjúpan við staurinn að hafa það af að éta ekki nammi. Ó hvílíkt erfiði. Það er heldur ekkert grín að endurforrita hegðun frá því ég var smábarn.

Ég man nefnilega eftir því sjáðu til þegar það var ekki sjónvarp á fimmtudögum og það var ekki búið að breyta nafninu á laugardegi í nammidagur.

Mánudagur, Þriðjudagur, Miðvikudagur, Fimmtudagur, Föstudagur, Nammidagur, Sunnudagur.

Nei, merkilegt en satt, þá er ég ekki yfir fertugt, ég er undir fertugu og vel það, eða svolítið vel, ekkert rosa mikið, eiginlega bara smá.

Í “gamladaga” eða “á minni öld” eins og dóttir mín eldri tók til orða hér um árið, var ekki nammidagur bara einusinni í viku, það var nammidagur alla daga og það hefur ekkert breyst. Ég fór annaðhvort í sjoppuna við enda götunnar sem ég bjó í eða niður í Úlfarsfell ALLA daga að kaupa mér nammi.

Þessi hegðun hefur ekkert breyst. Hvað segja atferlisfræðingar við þessu? Hvað á kona að gera þegar hún hefur viðhaft einhverja ákveðna hegðun í 30 ár?

Eftirfarandi hef ég reynt:

  • Nammibindindi, einusinni, það var fyrir 5 árum sirka
  • Hætta að borða nammi. Hef reynt það þrisvar og tekist í smástund. Ég veit að það er tæknilega séð nammibindindi, en markmiðið var samt að hætta að borða nammi, það tókst bara ekki.

Þetta er allt og sumt. Ég hef s.s ekki einusinni reynt almennilega að hætta þessum ósóma. Enda þekki ég ekkert annað. Viljinn er samt fyrir hendi krakkar mínir, trúið mér.

Ég er reyndar með kenningu í gangi núna þar sem ég held því fram að Ég þrufi að koma í veg fyrir að ég hegði mér eins og ég er vön. Já, Ég þarf að vera fyrri til, undirbúin, tilbúin og mun sneggri í hugsun og framkvæmd en ég.

Ég brá á það ráð að búa til nammi sem á að koma í staðinn fyrir félaga mína í gulapokanum, sem ég er eiginlega svolítið viss um að valdi mér hormónatruflunum. Amk fullt af bólum.

Nammið er svona heilsukúlur eins og er að finna í öllum heilsumatreiðslubókum sem gefnar voru út eftir árið 2005.

NEMA!

Í þeim er ekki kókosolía, né nein önnur olía né heldur neinn sykur. Það er nefnilega svo merkilegt að ég bjó til svona kúlur einhventíma uppúr bók þar sem voru fíkjur, döðlur og rúsínur (halló hvað það er allt saman úber sætt) og SVO kom 1dl af agave sírópi, eins og það væri gulldropar sem rynnu úr hendi Guðs hins eina sanna og að maður myndi í alvöru umbreytast í geyslandi heilsudís við að innbyrða það. Meira er þetta kannski lýsingin á öllu sykursætu sjokkinu, já eða vímunni sem fylgir átinu.

Þar sem ég er betri og sniðugri en allar ljóshærðu heilsukokkabloggskvísurnar og eiginlega mun gjafmildari en flestir þá ætla ég að deila hér með þér hvað ég gerði til að töfra fram þessar kúlur sem allir elska og dá.

Þetta er þá svona:

Finndu döðlur í búðinni. Gjarnan ferskar. Ég notaði ferskar og þá verður maður að taka steininn úr. Mauka þær svo í matvinnsluvél. Nú, væri ég alvöru bloggari myndi ég náttúrulega tiltaka hvaða matvinnsluvél væri nauðsynlegt að nota til að fá kúlurnar fullkomnar, en það nennir enginn að styrkja svona rugludall, svo ég læt vera að nefna að ég nota hræódýra electrolux matvinnsluvél sem ég býst svo sem ekki við að muni hafa næstu kúlugerð af.

Nei, ég get ekki sagt til hvað það voru margar döðlur, ég hvorki taldi né vigtaði. Þú gerir bara eitthvað, ekki vera hrædd/ur og nervös.

Þá erum við með maukaðar döðlur í electrolux matvinnsluvél. Næst á að blanda útí fræum og hnetum. Eigi maður börn, veit maður að um leið og einhver segir fræ eða hneta byrja þau að ýmist falla í mjög raunverulegt yfirlið eða fá únglíngakast eða hreint og beint hlaupa út og borða frekar matarafganga úr ruslatunnunni hér niðri heldur en að smakka kúlur sem móðir þeirra hefur búið til með ást og kærleika (eða í tótal nammigræðgi, þú mátt ráða).

Þessvegna brá ég á það ráð að nota litla rafmagns kaffikvörn, sem ég keypti til þess að mala fræ og þ.h um árið og malaði t.d hörfræ, heslihnetur, paranödder, sesamfræ, sólblómafræ, haframjöl og hvað eina sem til er í skápunum.

Ég get ekki gefið upp magn af þessu heldur. Ég hef miðað við að “fylla” döðlumassann af mjeli þar til að hann breytist í einn stóran kúk í matvinnsluvélinni, svona þéttan gaur, ekki neina linkind sem verður að skafa úr með sleikju, bara alveg svona þéttan lort.

Ok, ekki bara eitt leynitrix (þetta með fræmölunina) heldur tvö! Þegar fræin og hneturnar eru komnar saman við döðlurnar, þá setti ég hrákakó (ég get ekki verið þekkt fyrir að nota eitthvað venjulegt kökukakó og alls ekki neskvikk útí þetta heilsunammi sem á að bjarga öllum á jörðinni frá glötun) og vel af því útí  massann. Þegar ég var búin að því, setti ég slatta af kanil.

Svo rúllaði ég kúlur og rúllaði þeim síðan uppúr kókos og haframjöli á víxl.

Ástæðan fyrir því að ég veit að þér finnst þessar kúlur góðar er sú að ég hef gríðarlega reynslu í nammiáti. Ég hef borðað nammi í yfir 30 ár og veit hvað er gott nammi og þetta er það.

Plús. Þó svo að döðlur séu sætar og sennilega best að vera ekki að úða þeim í sig í tonnatali frekar en gleðikúlunum í gulapokanum, þá er þetta nammi pakkað af allskonar hollustu, amk ef marka má allar ljóshærðu heilsukonurnar sem fylla hausinn á mér af hugmyndum og ranghugmyndum um það sem ég á eða á ekki að vera að borða.

Allt gekk vel um helgina, þ.e eftir að ég hafði á föstudaginn dottið algjörlega í það og át ekkert nema kex og nammi allan daginn, tróð alveg í skjóðuna. Á laugardaginn var ég með samviskubit dauðans og illt í maganum. Á sunnudaginn, í gær s.s, sór ég þess eið að borða aldrei nammi aftur, mórallinn að fara með mig og ég bjó til nammið til þess að geta stoppað mig af áður en ég kæmist í nammigírinn.

Svo kom mánudagur, mórallinn farinn og sömuleiðis heill kexpakki. Er til nammianonymous?