Svo er það þetta með nærbuxurnar. Ég hef farið í gegnum mörg tímabil og sýnist mér sem svo að eftir því sem aldur færist yfir að ég kunni að meta  nærhaldið betur eftir því hve þægilegt það er.

Kannski og kannski ekki er ég algjör tepra og hefur aldrei fundist frelsandi eða þokkafult á nokkurn máta að vera í engum nærbuxum. Eiginlega meikar það engan sens í mínum bókum þó svo að það gæti hafa leyst ansi mörg vandamál í gegnum tíðina.

Um árið (nú er ég að tala um árið fyrir u.þ.b 18 árum) þá héldu allir að það væri inn að vera í g-streng. Þú veist pjötlunni sem nær bara yfir svæðið þar sem hárin eru (já, þar voru hár, engum datt í hug í þá daga að vera að bera á sér ..konuna ) og svo yfir bara gatið á milli kinnanna. Þægilegt og hagkvæmt…? Nei, aldeilis ándskotans ekki! Hvað er æðislegt við það að vera í einhverju svo nálægt sér að eiginlega er ekki hægt að segja að maður hafi ekki skeint sig með nærbuxunum sínum meðan maður valhoppaði í einhverju þröngu um götur bæjarins. G-strengurinn er náttlega til þess að það sjáist ekki neitt nærbuxnafar.

Ég er samt alveg á því að maður eigi að reyna að forðast nærbuxnafarið. Mér finnst eiginlega líka að maður eigi að forðast að vera í brók sem gerir rasskinnarnar tvöfaldar. Þegar lærin síðan, óumflýjanlega (og algjörlega óumbeðið) fara að vaxa eins og enginn væri morgundagurinn bæði til austurs og vesturs þá verður þetta svæði bara eins og hoppukastali að sjá. Ekkert seggsí við það.

Næsta tímabil eru blúndunærföt. Ég þarf varla að byrja á þessu. Blúndu nærföt eru fáránleg og jafnvel óþægilegri en g-strengurinn. Á þeim eru fleiri saumar en nokkur kona á að þurfa að hafa upp við akkúrat þetta svæði. Kláði og útbrot segirðu?.. prufaðu að fara úr blúndubrókinni.

Og eftir það hef ég prufað hinar og þessar týpur af brókum, sérstaklega með það í huga að ég hafi það gott á botninum og að það hafi ekki myndast fellingar eða ákveðin týpa af nærbuxnafari sem ég vil kalla bleiurassfar. En það er þegar nærbuxurnar einhvernveginn ná að forma afturendann þannig að það lítur út fyrir að kona sé með annað hvort svakalegt dömubindi eða hreinlega bara bleiu.

Ég lenti fyrir nokkrum árum síðan á því að vera í nærum sem eru úr bómull og skera hvergi að. Held að þær heiti hotpants eða hipster nærur.  Hotpants.. hverskonar.. úrg, ég verð bara úrill, þarf alltaf allt á þessu svæði að benda til kynþokka?

Aftur að vandamáli bróka. Þegar ég gekk með hana Bjútíbínu tók ég ákvörðun um að vera bara í brókunum mínum í staðinn fyrir að kaupa mér sérstakar óléttunærbuxur sem ná upp yfir nafla. Hef átt svoleiðis og þær eru hræðilegar, hef ekki notað síðan á meðgöngu 1 fyrir 13 árum. S.s ákvað að ég myndi þá bara kaupa mér nýjar eftir meðgöngu.

Það er næstum því óþarfi að taka það fram að fyrst ég varð 100kg á þessum 9 mánuðum, þá eru nærurnar helst til víðar. Ég er búin að henda nokkrum og kaupa mér nýjar.

Fyrst gerði ég mistök og keypti ódýrar hvítar, 5 í pakka svona sloggí, en þær eru einu númeri of litlar. Það er svo mikill niðurtúr að kaupa of lítil föt, en þær sitja einum of vel. Þá fór ég í H&M, í mitt trausta, trausta H&M, sem veit alltaf hvaða stær ég er í. Reif þar nærbuxur í minni stærð úr hillunni.

Kemur í ljós að afturendinn á hér hefur sennilegast breyst í lögun og útliti. Mér sýnist ekki þegar ég kíki á hann alla leið niður í lyftunni (til að ath hvort ég geti ennþá látið sjá mig úti á meðal annarra) að hann hafi breyst en eitthvað hlýtur það að vera.

H&M nærurnar eru þannig að þær eru góðar í mittið en svo eins og pils í kringum kinnarnar. Það þýðir bara eitt. Það þýðir að heil brók er alltaf uppí borunni á mér. Ekkert lítil snúra eins og á g-streng heldur heil brók. Það gerir að verkum að ég er alltaf að veiða þær niður í tíma og ótíma. Þetta gerir líka að þeir sem hafa áhuga á því að horfa á mig aftanfrá, halda ábyggilega að ég sé í g-streng úr svona leikfimikaðal! Namm.