Ég ætla auðvitað, lesendum mínum sem bíða þess í ofvæni til sefunar, að skrifa um allt það gleðilega sem hefur komið uppá í mínu lífi undanfarna viku.

Ég er hinsvegar bara svo miður mín yfir því sem er að gerast í Veröldinni þessa dagana að ég get það ekki. Hungursneyð þar sem litlir barnslíkamar gefast upp og eru étnir af hýenum, ungmenni í skemmtiferð myrt af, með öllu, siðblindum manni og fréttir af bombum í “austantjaldslöndum” sem farga fjölda manns og kosta eftirlifandi líf fullt af ótta, eru ekki lengur fréttir sem maður kippir sér upp við.

Ég gaf skitinn 3000 kall í söfnun Unicef sem safnar núna til þess að getað hjálpað í hungursneyðinni.

Þetta þarf ekki að vera svona, þetta er EKKI náttúrulegur gangur og við GETUM gert eitthvað. Það felst í því að vera sameinuð. Allir, óháð ÖLLUM skilgreiningum, sameinaðir. Það er sundrung sem leiðir til þess fáránleika sem allt þetta er.

Mind you, hungursneyð er ekki bara því að kenna að það er ekki búið að rigna á svæðinu, því það er nóg til á jörðinni fyrir alla sem á henni búa. Vonandi, næst, verður hlustað á það þegar merki um hungursneyð gera vart við sig og þá taki allir, sem einn,  við sér og hjálpi áður en það er orðið um seinan.

Manni getur fundist maður vera svo hjálparlaus. Það er bara ekkert að gera nema biðja fyrir því að mannverurnar í Umheiminum fari að ná einhverskonar balans og sameiningu.

Ég vildi að þetta væri ekki svona.