Mér finnst margt alveg óheyrilega merkilegt. Tildæmis kemur það mér alltaf á óvart hvað mér getur liðið stórkostlega vel og hvað mér getur liði dæmalaust óvel.

Stundum er ég með sorg í hjartanu og get hreift hvorki legg né lið. Heimilið verður að einhverri klessu (gerist svosum líka yfir verkefnaskil..) og það er líkt og það sé krumla inni í mér sem heldur þéttings fast um hjartað og kreistir duglega… þá vakna ég í keng og get ómögulega slakað á, bara alls ekki. Er öll afar spennt.. ekki yfir neinu heldur bara kreppt.

Þá get ég líka verið mega eiginlega reið eða eitthvað í þá áttina. Þá er ég alls ekki lömuð heldur ofvirk. Ekki veit ég á hverju ég keyri þá, en þá borðast ekki neitt, en get samt verið vakandi endalaust, farið í ræktina og djöbblast þar og unnið eins og geðsjúklingur.

Og stundum hugsa ég svo mikið að ég sit kannski fyrir framan tölvuna og rembist eins og rjúpan við staurinn að gera eitthvað af viti en ekkert hefst nema að rífressja facebook og athuga hvort ég hafi fengið tölvupóst.

En svo eru það líka frábæru dagarnir þegar allt virðist vera bara í himnalagi og ég lít út fyrir að ráða við dæmið, lífið. Og sú tilfinning er engu lík!!! (ég nota ekki upphrópunarmerki að gamni mínu..). Tilfinningin er dásamleg, yndisleg og frábær. Vömbin er slök, hausinn er slakur og ég geri það sem mér sýnist. Fyrir þessa daga er ég Skrítin Guðmundsdóttir þakklát. Það er eitthvað svo fallegt við þá, þeir virðast bjartari en hinir, þarf varla að segja auðveldari og krafturinn sem streymir í gegnum mig þá er ólýsanlegur… já.. sveimér þá, ólýsanlegur, held hann sé ólýsanlegur því það sé hreinlega ljós sem flýgur í gegn.. ekki lýsir maður ljós, varla.

Það er líka fleira sem mér þykir merkilegt, tildæmis hvernig það getur passað að vera þyrst en þurfa samt að pissa..