Ég er viss um að ef maður er upplýstur tekur maður aðrar og gáfulegri ákvarðanir en ella. Ég hef nú ekki verið þekkt fyrir að kynna mér allt námsefni grunn og fjölbrautarskóla.. eða kunna mikið í legu landa á jarðkúlunni, en mér finnst eins og ég hafi fengið breytt viðhorf til þess að kynna mér hluti.

Ég er í heimsókn hjá Ömmu L og þar liggur á borðinu bók eftir Kolbrúnu grasalækni. Ég hef alveg heyrt um þessa bók, en hef ekki verið í stuði til að fá mér enn eina “sjálfshjálpar” bókina. Datt aldeilis oní bókina við eldhúsborðið hjá Ömmu L og dæmi bókina frábæra þó ég sé bara búin að lesa helminginn af henni.

Ekki vissi ég t.d að meltingarkerfið er munnur, rörið oní maga, maginn, smáþarmar og þarmar, nýru, bris og lifur.  Ég er svo einföld að ég hef aldrei hugsað útí það þannig að maturinn byrjar að meltast, eða vinnast strax í munninum. Ég er líka það einföld að ég hugsa um athöfnina að næra sig þannig að ég sting uppí mig einhverju, það lendir í vömbinni á mér og síðar kúka ég og pissa.

En reyndin er sú að maturinn fer í gegnum frekar mikið kerfi svo að allir partar líkamans fái það sem þeir þurfa. Við höfum hreinsunarstöð sem heitir lifur og þér að segja þá er annar helmingur þarmanna, man ekki hvort það var vinstri eða hægri, súrari en hinn. Það er margt sem maður veit ekki um starfssemi kroppsins.

Ég vissi ekki að það getur í alvörunni verið þannig að of stórar agnir af mat geta komist útí blóðið ef slímhúð þarmanna er ekki nógu góð og valdið þar miklum usla.  Svo er það þannig að ef líkamshúð manneskju er viðkvæm og eitthvað að henni, þá á mjög líklega það sama við um slímhúðina. Innri og ytri verndarlög. Ég þarf að fara að hugsa minn gang. Núna sit ég t.d í sófanum með júgursmyrsl.. já..! Júgursmyrsl í hársverðinum þar sem exem sem ég hef þar hefur gengið af göflunum. Fyrir ekki svo mörgum mánuðum síðan uppgötvaðist að ég get ekki notað sápu með ilm eða litarefnum í. Ég verð að nota sápur á kroppinn sem innihalda engin aukaefni, s.s Neutral og slíkar sápur. Bless, bless að nota vellyktandi og jafnvel örlítið sexý krem á kroppinn.

Ekki veit ég afhverju ég hélt að andlitshúð mín væri undanskilin og lenti í þvílíku ofnæmis atriði þegar ég skellti fína Bio-eitthvað kreminu á mig (ekkert í fyrstaskiptið) og varð öll eins og ódáðahraun í framan. Eldrauð og bara beinlínis hólótt. Þannig að good bye flott og rándýr andlitskrem sem eiga að gera mig eins og barnsrass í framan. Í staðinn nota ég krem frá Gamla Apótekinu sem innihalda ekkert.. nema bara kremið. Alveg jafn fáránlega og að andlitshúð mín væri ekki partur af minni kropshúð, þá kveikti ég ekki á því að hársvörðurinn er líklega einnig partur af þessum samfestingi sem ég er by default. Þannig að í morgun notaði ég ekki fallega sjampóið sem lyktar guðdómlega og gerir heysátuna viðráðanlega,  heldur Neautral og í stað þess að vera þokkafull með sítt, viðráðanlegt, fallegt liðað hár (sjá fyrir sér sjamóauglýsingu hér) þá er engu líkara en að ég hafi gert skipti veið hross og sé núna með tagl af hesti á kollinum. Tagl af hesti sem fór í misheppnaða aflitun og reyndi svo að fá sér permanent í óþokkabót. En júgursmyrslið er gott. Svo lengi sem enginn sér mig.

Og önnur staðreynd: meltingarkerfið er að minnstakosti 1/3 af ónæmiskerfis okkar. SJOKKERANDI staðreynd. Hafði ekki hugmynd. Þannig að líkurnar á sjúkdómum og allskins leiðinda kvillum eru 1/3 mögulegri sé ég að troða mig út af lélegri næringu heldur en ef ég myndi ákveða að elska líkama minn bæði með hjartanu og með gjörðum mínum. Það er hinsvegar efni í annan pistil hvað ég hef uppgötvað um þá staðreynd að það er jafn nauðsynlegt að elska líkama sinn og að veita ungabarni ást og næringu.