Ég er svo fylgin mér að ég hefði getað sagt þér það fyrr að ég myndi aldrei gera meira en tvo matseðla. Lengi vel hef ég samt haldið því fram að ég sé ekki manneskjan sem getur framfylgt einhverju svona, eins og að gera matseðil í hverri viku, því  ég sé léleg húsmóðir og eiginkona, löt, óeinbeitt og bara léleg yfir höfuð.

Þá hef ég komist að, nú, þúsund árum og milljón tilraunum síðar, að er ekki raunin. Ég er aldrei löt, nema á þessari fjórðu og síðustu meðgöngu minni, en það var útaf því að ég er upptekin við að búa til nýja manneskju og er orðin of gömul til að finnast það ekkert mál. Ég er góð húsmóðir, hér eru börn temmilega vel upp alin, sjálfbjarga, í hreinum fötum, eru dugleg og kunna mannasiði. Ég er líka góð eiginkona, en það sést á ástandi mínu í dag að ég er alveg að standa mig í þeim efnum. Óeinbeitt kann að vera en það kemur matseðlagerð ekkert við.

Ástæðan er einföld og hún er þessi: ég á ekki peninga til að gera matseðla fyrir nema tvær vikur í mánuði. Ástandið!

Þá hef ég ákveðið að snúa dæminu við og gera matseðil eftir á úr því sem er til. Þessi vika er hingað til búin að vera sirka svona:

Mánudagur: Lasagne úr pakka, við vorum sein fyrir, mikið að gera, gott að henda stundum í pakkamat, sem annars nær aldrei gerist.

Þriðjudagur: Sigur! Fundum fisk í frystinum og elduðum úr honum ofnbakaðan fisk í raspi. Með honum vippaði bóndinn fram túnfisksalati, ávaxtahlaðborði og svona smábrauðum sem einnig fundust í frystinum.

Í kvöld ætlum við að borða grjónagraut (ég á alltaf grjónagrautargrjón) og heimabakað brauð. Brauðið er speltbrauð, en það er bara útaf því að ég átti speltið til og er að nota það áður en það skemmist. Finnst eiginlega hálf fáránlegt að kaupa tvo 1kg pakka af spelti fyrir pening sem ég get keypt um það bil 6kg af venjulegu hveiti fyrir. Nú kunna margir að fá sjokk og hringja í barnaverndarnefnd og kæra mig fyrir misnotkun vegna þess að við ætlum ekki að kaupa meira spelti. Mér finnst það fáránlegt, þetta er alveg jafn unnin vara og hveiti og næringargildið er nákvæmlega það sama.. ekki neitt.
image

Uppskriftin af þessu fína heimabakaða brauði er þessi:

  • 2dl fínmalað spelt
  • 2dl grófmalað spelt
  • 1dl sigtimjöl
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft (líka rándýr munaðarvara sem er gerð úr nákvæmlega því sama og hið venjulega lyftiduft, kaupi það heldur aldrei aftur, eintómar sölubrellur)
  • ég gussaði smá, kannski sirka teskeið af hrásykri sem ég á svo lítið af að passar ekki í neitt, líka til að eyða honum. Vissir þú að sumur hrásykur er sykur, nema litaður! Þetta lærði ég í skólanum fyrir ekki svo löngu.
  • 1dl haframjöl
  • 1dl sesamfræ
  • 1 1/2 heitt vatn
  • 1 1/2 ab mjólk
  • smá gluð af olíu, ég setti ólífuolíu.

Þurr fyrst, hræra vel, blaut svo, hræra illa, en það er útaf því að það stendur í öllum speltuppskriftum að hræra lítið, bara velta deiginu saman. Ég er ekki klár á útaf hverju. Smyrja mót að innan, enginn deyr þó það sé gert með smjörlíki. Ég nota það eða ólífuolíu, eða bara einhverja olíu.

Baka á u.þ.b 180 í ca 30 mín.

Þá er ég hætt að nota blástur í ofnum. Það er ofmetin nútímaþvæla að nota blástur á allan andskotann.