Lord ó mægtí. Enginn hefur orðið pirraðari en ég er akkúrat í dag og í gær (viss um að Eiginmaðurinn myndi segja og tvær síðustu vikur). Þetta er mest óútskýrði pirringur sem ég hef upplifað, hormóns? Kannski.

Fór í mæðraskoðun í morgun þar sem ég fékk að heyra þennan líka fína hjartslátt. Þó svo að ég finni spörk eða meira tilviljanakennt bank af og til, heyrði hjartslátt, hef séð tilvonandi erfingja númer 4 með eigin augum á sónartæki og svo sparkaði dúddi í hlerunartækið (þið á fræðimáli mynduð segja doppler) þegar hlustað var eftir hjartslætti, þá er ég samt ekki almennilega að átta mig á þessu. Því síður Eiginmaðurinn ímynda ég mér.

Við ætlum að vita hvors kyns er eins og með hina krógana. Í dag er ég alveg handviss um að þetta sé strákur. Hvort ég mun þurfa að éta hattinn minn 20.febrúar kemur í ljós.

AÐ allt öðru. Matarplanið sem ég gerði er að virka svona líka skemmtilega fyrstu 3 dagana. Ég er búin að vera of súr í sinni til að taka myndir svo eina myndin sem verur af brjálæðislega góða lasagnanu sem ég gerði í gær, brilliant fiskinum sem ég sauð áðan og báðum brauðunum sem ég er búin að baka verður þessi mynd af eldhúsvaskinum þegar búið er að vaska næstum allt upp.
image

Þá er ég búin að monta mig af duglegi (duglegi.. það er rétt, ég er með mjög duglegt leg) mínu í eldhúsinu og hef þar með stimplað mig inn í hóp kvenna (hef ekki enn séð mann gera svona) sem halda úti matarbloggi. Reyndar hefur mig langað það lengi og var meira að segja búin að búa mér til lógó fyrir Hitt Matargatið, en það fannst mér alveg pípandi fyndið nafn á uppskriftasíðu.