Ég er búin að hugsa óhóflega mikið um mataræði síðustu mánuði. Hef lesið  allskonar matarsjálfshjálpar bækur og verið alveg jafn innblásin eftir hverja einustu bók (sem ég samt raðaði í mig súkkulaði meðan ég las) og staðráðin í að byrja strax á morgun.

Þá hef ég hlustað á skelfilega útvarpsþætti um E-númer. Farið á fyrirlestur (fyrir alveg að verða 10 árum síðan) þar sem hún Halldóra hjúkrunarfræðingur fór yfir mikilvægi þess að láta ekki hið svokallaða MSG oní sig. Og þá hef ég lesið hinar ýmsu greinar á netinu um margt allskonar misjafnt, til að mynda Aspartam.

Aspartam, E-númer og MSG. Sterkjur, sykur og litarefni. Etoxýlat-tvíglýseríð, Sellulósi, Xanthan-gúmmí, Kalsíumprópíónat og Ammóníumsúlfat… . Og allt síðan hvítt og unnið sem ekki er hollt.

Einkenni hins alræmda Aspartams eru meðal annars taugaskemmdir, krabbamein og raskað hormónajafnvægi. Höfuðverkir, hækkun blóðþrýstings, hjartsláttartruflanir, svimi, þreyta, svefntruflanir og skapgerðarbreytingar (pældu í því!!). Upptalningu er ekki lokið.

Krampar, flog, vöðva og liðamóta verkir, bólgur, magaverkir og krampar, upp og niður, sjóntruflanir, sjónbreytingar, sjónskerðing. Doði, misst bragðskyn heyrnaskerðing, eyrnasuð, kvíðaröskun, öndunarerfiðleikar, málerfiðleikar og útbrot. Og svo þyngdaraukning.

Ég get sagt að ég hafi haft 14 af þessum einkennum. Ekki öll í einu og kannski ekkert útaf því að ég hef sett Aspartam inn fyrir mínar varir.. en hvað veit maður!

Það er Aspartam í tyggjói. Tyggjói sem ég hef  notað eins og enginn væri morgundagurinn og gefið börnunum mínum “í staðinn fyrir nammi”. Afþví tyggjó er “hollara”. Og verið aldeilis góð með mig  með það. Og að þeim efnum.. nammi handa börnum. Mig langar að hætta að gefa þeim nammi. Mig langar að þau borði aldrei nammi. Og nú fara margir af stað, lyfta augabrúnum fyrir ofan hárrót ofan við enni og segja “hva.. smá nammi, það er alltí lagi” .. þetta er eins og þegar ég er búin að eyða “bara” 5000 kalli í föt á mig svona þúsundsinnum. Það er aldeilis orðið magn. Og alls ekkert í lagi.

Staðreyndin er að líkaminn ÞARF ekki nammi. Hann þarf venjulega næringu, ekki Etoxýlat-tvíglýseríð eða Ammóníumsúlfat.

Hvernig stendur á því að þegar ég hugsa um að hætta að gefa þeim nammi að þau eigi eftir að verða fyrir aðkasti í skólanum, því þau fá aldrei nammi. Afhverju finnst mér svona erfitt að þau séu ekki að gera eins og allir hinir og fá allt sem þau vilja (halló Samanburðargeðveiki). Afhverju held ég að ég muni ekki “nenna” að banna nammi á heimilinu? Ég veit ekki svarið.

Reyndar er ég eina á þessu heimili sem borðar of mikið nammi.

Ég er ekki til í að uppgötva eftir ár eða 30 ár að eitt barnanna minna er kominn með heilaskaða, taugaskemmdir eða krabbamein af því þau fengu nammi og tyggjó (plús allt hitt). Ég er heldur ekki til í að uppgötva það fyrir okkur eldri.

Besta bók sem ég hef komist í, er bók sem Bóndinn fann í einhverri búð. Hún er í brotinu A6. Kostaði 1.990kr. Er 155 síður (í A4 væru það ca 38 síður). Það aldrei tekin fram tegund af vöru sem á að borða fram yfir aðra tegund afvöru. Höfundurinn er blaðamaður sem rannsakaði efnið sér til gamans, þar af leiðandi er hann ekki að auglýsa neina vörutegund. Hann rekur ekki eldhús né framleiðir heilsuvörur. Hann er ekki næringarfræðingur, matarfræðingur, matarþerapisti eða neitt svoleiðis. Hann er áhugamaður um neyslumynstur nútímamannsins.

Í bókinni segir hann að við sem borðum unninn “vestrænan” mat eigum við margskonar sjúkdóma, króníska og ekki að stríða en við sem borðum ekki unninn mat og látum ekki oní okkur ógeðisefni þjáumst ekki af þessum sjúkdómum.

Hann segir að maður eigi ekki að borða neitt sem barn í 3. bekk getur ekki borið fram. Ekki það sem langamma kannast ekki við sem mat. Ekki mat með fleiri en 5 innihaldsefnum og ekkert sem engin venjuleg manneskja á í búrskápnum.

Bókin heitir Mataræði, Handbók um hollustu og er eftir Michael Pollan.

Ég hvet hér með sjálfa mig og alla  aðra til að byrja að borða venjulegan mat sem inniheldur ekkert af ofantöldum eiturefnum. Og að hætta að hugsa að maður “eigi skilið” að fá sér nammi því maður er búinn að vera svo duglegur. Að það verði ekki lengur kósý stund fjölskyldunnar með video og 3kg af nammi. Að laugardagar hætti að vera eiturefnadagar.

Mér finnst nefnilega ekki, þegar á málin er litið þannig, að neinn eigi það skilið, eftir að hafa verið duglegur að troða sig út af krabbameinsvaldandi efni.