Það er svo mismunandi lykt af fólki. Það er bæði góð og vond lykt af fólki. Það er t.d góð lykt af smábörnum, þegar þau eru smábörnin mín þ.e, af öðrum smábörnum finnst mér yfirleitt vera bara einhver kúkalykt. Það er líkagóð lykt af Eiginmanninum, en það er góð lykt af allt öðrum toga en af börnunum mínum. Lyktin getur verið sterk, eins og af manninum í Metró í gær sem var svo ótrúlega peð ölvaður að hann ætlaði alveg að sofna og ropaði svo ótrúlega mikið að ég neyddist til að fara úr lestinni og taka þá næstu. Ég veit..  en svona rúlla ég bara. Svo er líka mismunandi hvernig lykt er af fólki eftir því hvaða heimsálfu það kemur frá. En í vinnunni, þó ég sjái aldrei fólkið sem vinnur þar og það aldrei mig, þá finn ég samt lyktina af því. Á efri hæðinni sem ég hef verið að skúra er meira drasl og dótarí á borðum og ég geri þessvegna bara ráð fyrir að þar séu almennir starfsmenn sem sinna ýmsu. Get gefið mér að þar séu nokkrir sem vinna við að gera við tölvur, aðrir sem vinna við bókhaldið og svo einhverjir við að slá inn einhverjar staðreyndir. Eftir hvaða lykt er við hvert borð og hvaða dót er á borðum og hvernig borðið lítur út þegar ég kem til að þrífa það hef ég verið að ímynda mér hvort þarna sitji maður eða kona. Sumir eru miklir snyrtipinnar með skrifborðið en aðrir eru alltaf með bara pláss fyrir lyklaborð og mús.. og ekkert annað. Þarna uppi er oft sveitt og fitug mannalykt. Þannig að ég held að það séu fleiri menn en konur. Reyndar veit ég hvar nokkrar konur sitja. Hjá einni er engin lykt..! Ég er að leyfa mér að efast um að hún sé mennsk. Önnur skilur eftir sig lykt af ísbúð. Svo er ein þarna sem drekkur svo mikið te að skrifstofan angar ferlega. Á neðri hæðinni sem ég skúra sitja forstjórar fyrirtækisins. Sú hæð er alveg spikk og span. Þar er bara einn með drasl á borðinu sínu og hann situr lengst inní gangi útí horni. Reyndar er hæðin aðeins tvískipt. Í einum hlutanum þar sitja aðal menn og konur en í hinum aðeins minna aðal menn og konur. Hjá aðalmönnunum er á skrifstofunum svona fínni rakspíralykt. Þeir geyma líka hjá sér amk 3 pör af spariskóm. Ég myndi giska á að það væru sennilega hátt í 300 spariskópör á hæðinni. Klósettið hjá þeim lyktar líka betur en uppi. Þeir eru svo miklir aðalkarlar og konur líka að þeir kúka vellyktandi kúk. Ótrúlegt hvað mikil menntun, mikilvægt starf og mikið af peningum gerir fyrir fólk, bara kúkar blómum! Merkilegast af öllu er samt að það er aldrei nammibréf í ruslinu hjá neinum sem vinnur þarna. Tunnan, ef eitthvað matarkyns er í henni, er alltaf full af ávöxtum. Fyrir nokkrum árum, þegar ég var að skúra, þá horfði ég öfundaraugum á skrifborðin og óskaði þess að vera að vinna í fínum og þægilegum skrifborðsstól, við stórt og flott skrifborð sem ég gæti hækkað og lækkað að vild. Ég myndi koma í vinnuna og sitja og vera merkileg og vera mega góð í vinnunni minni. Mér myndi aldrei vera illt í baki eða stíf í kroppnum á að sitja þarna og myndi rúlla atvinnulegafullnægð útí eftirmiðdaginn til að huga að því hvað væri að gerast á götum úti. Ég fékk þessa ósk uppfyllta en eiginlega bara til þess að sjá að það hentar mér enganveginn að sitja svona fyrir framan tölvu, hvað þá að fara á fætur klukkan eitthvað ákveðið til að vera mætt eitthvað annað á öðrum ákveðnum tíma. Ekki svo að skilja að ég sé sofand fram á hádegi alla daga, síður en svo, ég er yfirleitt á fótum milli 7 og 8 þessa dagana. Ekki bara hentar mér hræðilega illa að vera þvinguð til að mæta klukkan eitthvað, þá finnst mér ég vera algjörlega fangelsuð og í spennitreyju ef ég á að sitja tjóðruð við borð í marga daga, mánuði og ár. Og eftir svoleiðis dag þá rúllar maður ekkert fullnægður útí daginn, maður truntast bara í búð með brjáluð börn og reynir að pota í körfuna einhverju gáfulegu. Kemur svo heim með illa tætt hárið og eldar mat meðan orgað er á börnin að gera heimaverkefni. Þá er borðað og gengið frá og svo eiginlega bara gargað á börn og svo í bólið. Ótrúlega steikt. Mikið er ég heppin og glöð og fegin að ég lifi ekki þannig lífi núna.