Ég er B manneskja. Ég neyðist bara til að viðurkenna það. Fyrst var ég nefnilega þeirrar skoðunar að fyrst A kemur á undan B hljóti það að vera betra en B og ég get jú ekki verið þekkt fyrir að vera ekki best. En ég gefst upp! Ég er aldrei meira vakandi heldur en eftir 10 á kvöldin og gæti vakað og verið að dunda eitthvað til 3, þessvegna lengur. Og útaf því að það verður oftast ofaná að ég geri það sem mig langar þegar mig langar þá finnst mér algert drep að þurfa þá á lappir fyrir klukkan 11 á morgana. Ég fór tildæmis í gærkveldi að sofa kl 2 og þurfti fram kl 9, því ég er búin að banna sjónvarpsgláp á virkum dögum hér í jólafríinu, harkan sex (hvaðan kemur eiginlega þetta málgrip? (enn eitt nýyrði mitt: orðatiltæki/orðtæki..eða hvernig það er)). Og útaf því að þau eru ekki dáleidd af sjónvarpinu þá get ég eiginlega ekki bara legið eins og skata í bólinu. Að allt öðru, og þetta verður alger langloka, náðu þér bara í kaffi og mömmukökur, kveiktu á kerti og hafðu það rómó hér yfir lestri óskapanna á Englandi.

Þegar ég fór í sveitina í Vig, að yoga, hugleiða og kyrrja, höfðu þau það veldig (verulega) godt (gott) hjemme (heima). Þessa mynd fékk ég senda í símann minn á laugardagskveldinu, allir steinrotaðir í rúmi voru. Ég spurði Bóndann hvort hann hefði ekki notað tækifærið (sem ég hefði pottþétt gert) … (oooooo, ég er að hlusta á Vigdísi Finnboga í útvarpinu og hún segist vera A-manneskja, ég er ekki forseta efni sem sagt, urg) .. bíííííbbb, ég spurði Bóndann  sem sagt hvort hann hefði ekki girpið gæsina þegar hún gafst og sofið í rúminu hennar Sprengju sem er eina almennilega rúmið hér á heimlinu. Nei, var svarið, hann svaf með þeim öllum í bólinu sem er ekki nema bara fyrir tvo fullorðna.

Og þau fóru líka út í snjóinn og veltu upp einum snjómanni.

Á meðan var ég þarna, í öllum þessum snjó. Þurftum að ýta bílnum sem við komum í upp brekkuna sem lá að bænum. Maðurlifandi hvað ég var fegin að vera að eðlisfari búri og búin að vera í snjóbuxum og úlpu, í bomsum, með vettlinga og húfu síðan fyrsta snjókornið rak hingað (ábyggilega óvart frá Noregi eða eitthvað), á meðan töffheit Kaupmannahafnar eru í töff skóm, í töff kápu og töff yfir höfuð, s.s í töff húfu.

Helgin í sveitinni var töfrum líkust. Ég er ennþá að safna þessari reynslu saman í hausnum svo ég geti sagt frá henni.

Erfingjarnir fengu galla frá ömmu L sem eru æðislegir.  Og samkvæmt tilmælum frá leikskólanum eru þau öll komin í lúffur. Hér finnst þeim óþægilegt að börn séu í ullarvettlingum. Ég skil ekkert í því enda alin upp á ullinni.

Númm, innandyra höfum við auðvitað verið að gera ýmislegt, verandi komin í jólafrí og svona. Eða erfingjarnir eru í jólafríi, við erum að vinna alveg villt og galið og erum nánast í engu jólafríi, en það er alveg sama. Þarna er ég með á eldavélinni grjónagraut og svo brætt að mig minnir síróp, sykur og smjör eða eitthvað álíka..

..og þá er einmitt viðeigandi og alls ekki óeðlilegt að baka glerkrukkur. Þær voru málaðar af natni og svo varð að festa litinn :)

Og aftur sest við eldhúsborðið og skorið út piparkökur.. það er nú bara verkefni útaf fyrir sig að hafa ofan af fyrir börnunum meðan þau eru í svona fríi. Meðan ég er búin að vera að skrifa hingað niður tildæmis, hafa drengirnir komið fram með 3 mismunandi flaugar úr legókubbum hver og sýnt mér allar mögulegar virknir þeirra, en þær eru um það bil hundrað á hverja vél.. og Sprengjan er líka eitthvað eirðarlaus og hefur komið hingað fram og bara starað á skjáinn hjá mér og farið svo bara aftur.

Yfirbakarinn.

Maður lifandi hvað við bökuðum mikið. Þetta fyllti alveg eldhúsið.

Svo í fyrra, þegar ég hafði ekki andann í að baka, var mér gefið svo skemmtilegt kökuáprentunartæki. En það sker út kökur og stimplar á þær snjókorn, jólatré og snjókarl! NÆS.

Talandi um  eirðarleysi. Hér hafði ég verið að einhverju öðru, kannski sat ég við tölvuna og var ekkert að fylgjast með hvað var að gerat á öðrum vígstöðvum þessa Félagsbús. Og endaði það svona. Innkaupin allstaðar, fötin allstaðar og búið að binda band á milli allra hurðanna innst í íbúðinni.. svo tættist ég uppúr sæti mínu og ætlaði að dúndrast í að taka til, en þá þurfti ég einmitt að stunda limbó til að geta grýtt óhreina fjallinu inná þvottabað. Sem betur fer er þetta komið í lag núna.

Á milli stríða við tiltektina ætlaði ég að gleypa í mig glimrandi girnilega mandarínu. Mér brá pínu þegar ég tók eftir að það vall eitthvað hvítt útur öðrum endanum á henni.. hvaða..!?!?! Ég spurði Frumburðinn hvort hann vissi hvaða ósköp þetta væru eiginlega, já sagði hann. ” Við vorum í spæÓn læ (spæjara leik)” Og þetta er skýringin á því afhverju það er lím inní mandarínunni og önnur eins hefur fengið tannstöngul beint uppí rassgatið…og lím.

Og eymingja póstmennirnir hafa verið að bögglast upp stigann með allar jólagjafirnar. Haha, orðið “að bögglast”  hlýtur að vera komið af því að fólk býr hátt uppi án lyftu og póstmenn þurfa upp með jólaböggla til útlendinga eins og ég er í þessu landi. Allavega var þessi konfektkassi (sem er búinn, bara svo þið farið ekki að ryðjast hingað í heimsókn og heimta nammi) í einum kassanna og það fyrsta sem ég hugsaði var Hróarsholt þegar ég sá hann. Ég hef reyndar bara einusinn, svo ég man, komið að Hróarsholti og ég man ekki hvort stærri bærinn við hliðina á því var ennþá þarna eða hvað og eiginlega get ég ekki sagt að ég muni efitr því en þetta minnti mig samt á það. Þetta er málverk eftir hana konu sem heitir Gunnella.

Hófst þá snjókoma aftur. Allur snjórinn hafði farið og vinna mín og ferðir þangað voru mun léttari. S.s ekki allt vaðandi í saltkornum á stærð við fótbolta og svona bleytubletti sem er vonlaust að skúra upp með léttum leik. Jólaleg mynd samt.

Maður verður líka að skafa af hjólinu.

Og leiðin er ekki beinlínis greið.

Upp Löngubrú. Og við vorum bara tvö að hjóla í Kaupmannahöfn, ég og þessi sem er eiginlega kominn uppá brúna.

Og því ég var að vanda mig svo svakalega við að hjóla þá hafði ég bara ekki tekið eftir því að það var reyndar alveg dásamlegt veður úti. Alveg logn og ekki kuldi svo ég fann fyrir því. Og svo góð lykt. Þessvegna meitlaði ég með fótunum hjarta í snjóinn. Því ég elska.

Júlemanden (jólasveinninn) hefur komið hér eins og lög gera ráð fyrir og í einni ferðinni skutlaði hann tafli í skó Frumburðar, sem reyndar er hættur að trúa á jólasveininn. Ég var að slökkva á jólaseríum, sem við gerum um miðnætti séum við ennþá vakandi, sem ég er alltaf, til að spara rafmagnið, og óð inní herbergi Sprengjunnar, þar sem þau sofa bæði, og hann alveg.. “hvað ertu að fara að gera????” hélt að ég væri að fara að setja í skóinn, haha.

Þarna tefla þeir bræður eftir bestu getu. Hvorugur þeirra kann mannganginn almennilega en það skipti ekki máli, ekki svo lengi sem Frumburðurinn vinnur spilið. Hann á bágt með að tapa, enda stefnir hann stöðugt hærra og lengra en nef hans nær.

Krumpi.

Það eru tvær vikur síðan ég keypti þrjár jólahúfur. Sprengja hefur verið með sína síðan. Svoleiðis er það nú.

Það verður líka að sækja jólatré. Eldri fóru í fýlu af því þau nenntu ekki að klæða sig í einusinni enn í kuldagallann, svo Bóndinn og Örverpið hittu mig, sem var á leið frá vinnu, í Kvickly og fjárfestum við í þessu fallega jólatré. Kom því miður í ljós að jólatrésfóturinn hefur týnst í umbreytingum og flutningum á þessari fjölskyldu á síðastliðnu eina og hálfa ári eða svo, þannig við þurftum að kaupa nýjan. Það var bömmer. En gott að það var ekki fleira, amk sem ég veit af, sem hefur týnst eða eyðilagst. Alltaf þegar ég lendi í flutningum, sem er nú orðið þónokkuð oft, þá man ég eftir þegar við Bóndi fyrir um 12 árum síðan fluttum frá götu einni í Reykjavík yfir í búslóðageymslu tímabundið, að þegar ná átti í dótið aftur kom í ljós að öll hnífapörin voru horfin og sömuleiðis 4 mjög dýrmæt myndaalbúm. Það var líka bömmer.

Nú eru fjórðu jólin sem við höldum hér í Danmörku. Það var ekkert ætlunin að gera það þetta árið en svo fór sem fór. Við erum þessvegna búin að smitast svolítið af dananum sem hendir upp jólatré bara í byrjun des og hefur það skreytt alveg þangað til.. bíddu.. bíddu… 26.des…haha. Fyndið þegar við sem íslendingar fyrstu jólin settum stolt upp tré 23.des eins og okkar er von og vísa, en lásum svo skilaboð frá húsverðinum sem vildi fá trén út í rusl síðasta lagi 26.des. Við eru þessvegna búin að skreyta tréð og það er fallegt. Bóndinn vill bæta við bláu, en mér finnst það fullkomið. Hvað verður ofaná??.. Þú mátt giska.

Og því ég var rekin á fætur, reyndar af sjálfri mér, svona snemma þá erum við búin að gera ýmislegt. Tildæmis að setja blessað smjörkremið á mömmukökurnar gómsætu. Ég smurði kreminu á og Örverpið lokaði þeim og setti fyrst í kökudunk og svo í skál.

Byrjaði síðan að vera rosalega lengi að klína efra kexinu á neðra kexið. Og svo leit ég upp og þá var hann að sleikja smjörkremið, með sko bestu lyst sem held ég er til í heiminum. NAMM.

Svona undir það síðasta. Þetta blasti við mér á Frístundaheimilinu þegar ég sótti þau núna töluvert snemma í desember. Þetta er njálgur að brjótast út úr.. jáhhh, ég veit  hverju en vill ekki segja rassgat tvisvar í einum pósti. Hverskonar plaggat er þetta eiginlega.. kræst.

Og svo vill ég hneykslast ennþá meira, meira heldur en á plaggatinu sem sýnir opið gat afturendans og orm að koma hressan og glaðan og ánægðan með sína tilveru út úr því, og spurningin er : HVERJUM DATT Í HUG AÐ FÓÐRA DÚFUR VIÐ METRÓSTÖÐINA? ..í alvöru? Hélt viðkomandi að dúfur hér í Kaupmannahöfn væru í hættu því þær fengju ekkert að borða? Ég er viss um að það hefur verið einhver rugludallur. Sönnunargögnin að það var rugludallur eru að það voru líka yfirgefnir inniskór þarna.

Ég hefði eiginlega átt að taka inniskóna, þefa uppi eigandann og krefja hann svara og taka það uppá kasettu, mér til stuðnings þegar ég færi með þetta mál fyrir dómara, já, ég myndi fara með það fyrir dómara einmitt hér í Kóngsins Köben. Refsingin væri að fulgafóðursdreifandinn myndi þurfa að hafa njálg. MÚÚÚÚhahahahahaha.