Það er satt. Bækurnar í bókahillunni voru sannarlega loðnar hér fyrr í kvöld. Við erum í því að undirbúa jólin. Þó að við séum verulega slök með að hreingera og svona óþarfa rulg fyrir jólin þá er nú allt í lagi að hafa svona sæmilega hreint. Svo ég stökk á hillurnar áðan eftir vinnu.

Rykið þar var ótrúlegt, alveg steingrátt og þykkt. Það er reyndar fáránlegt hvernig þessir dagar eru. Ég er alla daga í vinnunni og Bóndinn heima. Það er ekki ýkja mikið hægt að gera þannig almennilega þegar allur skarinn er heimavið. Ég er ekki í fríi næst fyrr en á 27.des.

Já, alla jóladaga í vinnu frá 9-16. ÉG er ekki viss um að mér finnist þetta neitt sérstaklega sniðugt sko. Á morgun mæti ég klukkan 7, ég er skítug upp fyrir haus, með glimmer útum allt, komandi sinaskeiðabólgu, bakverki ómögulega og með táfýlu fjandans.

Þannig er að það eru alltaf 18 gráður í búðinni. Það er kalt skal ég segja ykkur. Það er svo kalt að ég er alltaf í tveimur sokkum, gammósíum, buxum náttúrulega og tveimur peysum, langermabol innan undir því og svo stundum í flíspeysu.

Í dag var 0 gráðu hiti úti og ég þurfti að vera í snjóbuxum í vinnunni…í blómabúð, hver hefði haldið?? Það er sko engin pikknikk að vinna í blómabúð heldur, þetta er bara bölvað hark. En ég elskaða.

Ég var spurð um daginn hvort ég héldi að ég yrði hamingjusöm með að vinna alltaf í blómabúð, ég hef uppi áætlanir um að læra til blómsterdekoratör hér í Köben. Og ég fór að hugsa, það rúlluðu allar hinar hugmyndirnar um hvað ég gæti hugsað mér að læra og ég hef skipt um skoðun fáránlega oft, þá varðandi hvað ég ætla að gera við mitt líf.

Og ég hugsaði meira að segja um hvort ég væri þá nokkuð á réttri braut, hvort ég vildi ekki reyna við eitthvað stærra og meira en bara blómsterdekoratörinn… ég komst að niðurstöðu sem ég held að gæti verið þokkalega eðlileg niðurstaða. Ég get ekki hugsað mér að vinna við nokkuð annað. Ég hef alltaf leitað í svona vinnu þar sem hana er að fá og finnst þetta mjög skemmtilegt.

Það er svona þegar árið er að verða búið, þá fer ég að hugsa um hvað hefur gerst og hvað hefur ekki gerst. En svo getur allt breyst á morgun hvað mér finnst um þetta allt saman, en ég held samt að niðurstaðan sem ég fékk í þessar ponderingar um framtíðina hafi verið hin ágætasta. Nú er klukkan of margt og ég nenni ekki í sturtu. Megn táfýlan verður bara falin með einhverju ilmvatni, það verður bara að duga.
Skötukveðjur ágætar til ykkar mín kæru :)