Ég er eiginlega hálf móðguð að þið, æstir aðdáendur mínir, hafið ekki verið í bandi og lýst yfir forvitni ykkar yfir leyndarmálinu sem ég sagði ykkur frá að ég byggi yfir… hverskonar aðdáendur eruð þið eiginlega?

Mér er spurn!

Er þetta kannski útaf því að það er mígandi langt síðan ég sagðist eiga leyndarmál (var samt í þessu mánuði) og svo fóru allir að hugsa um hvað ætti að vera í kvöldmatinn og enginn man lengur eftir þessu bévítans leyndói?

Gæti verið.

En ég hef ákveðið að tala um þetta núna. Það urðu nefnilega breytingar á mínu lífi hér í endan ágúst, byrjun september.

Undirliggjandi ástæðan fyrir gerðum mínum

Það er erfitt skal ég ykkur segja að reka eigið fyrirtæki. Ég er ekki í búin að vera í vandræðum ennþá með að fá verkefni og flestum stundum er ég að kafna úr hve mikið er að gera. En að eiga við að fá ekki bara laun um hver mánaðarmót hefur verið déskoti erfitt. Allt gerist um mánaðarmót varðandi peninga. Ef þú átt þá ekki þá, þá ertu í vandræðum. En þegar þú færð ekki borgað reglulega, því verkefni taka mislangan tíma, þá er þetta prett much bara eins og að vera alltaf að setja á sig dömubindi þegar kona er ekki á túr, heldur allar hinar vikurnar.

Fer ekki útí fjárhagsvanda minn nánar hér, held að allir viti sem hvort sem er lesa að ég er og hef alltaf verið fjármálaólæs og hef enga stjórn á þeim.

En, eftir að botnlanginn var tekinn úr mér og ég hafði ekki borðað neitt (nó djók) í viku og hafði misst ekki bara nokkur kíló heldur allan mátt og eðlilega virkni í meltingarkerfinu mínu og ég var öll þreytt og tekin, guggin og grá, eða meira guggin og gul, þá leið mér eiginlega eins og að mig langaði ekkert rosalega mikið til að halda áfram að berjast áfram í fyrirtækinu mínu, bara ein.

Um leið og ég hafði sleppt þessari pælingu þá dúkkaði uppá tölvuskerminn hjá mér atvinnuauglýsing hjá fyrirtæki sem vantaði verslunarstjóra í netbúð sem seldi…hvað heldur þú… GARN!

Starfslýsingin var svona sirka: “elskar þú að prjóna, elskar þú garn, ertu vefhönnuður með reynslu og getur þú séð um vefbúð”. Ég sagði jahá! og sótti um.

Hið villta vestri umsóknarferlis fyrir verslunarstjóra í vefverslun, hér í Danmörku

Ég skrifaði umsókn og uppfærði ferilskrána mína sem var algjörlega rykfallin. Gott er að hafa í huga við lestur þennan að mín reynsla af því að sækja um vinnu er eitthvað í líkingu við þetta:

Dæmi 1

Á við um eiginlega allar vinnur sem ég hef sótt um. Þegar ég hugsa þetta þá hef ég aldrei lent í því að fá ekki vinnu sem ég sæki um, svo ég muni.

Ég: (geng inn í fyrirtæki) – Já góðan daginn, er yfirmaðurinn við?

Yfirmaðurinn: Já sæl (tekist í hendur, fast að sjálfsögðu).

Ég: Ég vil sækja um vinnu hér.

Yfirmaðurinn: Já.. líst vel á það. Hvað heitirðu?

Ég: Kristín

Yfirmaðurinn: Fínt Kristín, þú mætir á morgun.

Dæmi 2

Í þessu dæmi hef ég skrifað umsókn og borið í þær vinnur sem ég vil vinna í.

Yfirmaður: (hringir í mig í síma) Já, Kristín? Getum við hist?

Ég: (geng inn í fyrirtæki) – Já góðan daginn, er yfirmaðurinn við?

Yfirmaðurinn: Já sæl (tekist í hendur, fast að sjálfsögðu).

Ég: Ég vil sækja um vinnu hér.

Yfirmaðurinn: Já.. líst vel á það. Hvað heitirðu?

Ég: Kristín

Yfirmaðurinn: Fínt Kristín, þú mætir á morgun.

Dæmi 3

Hefur komið fyrir nokkrum sinnum. Alltaf jafn ánægjulegt.

Yfirmaðurinn: Já Kristín? Við urðum var við frábæri þitt og viljum bjóða þér vinnu, ertu til?

Ég: Já. Sjáumst á morgun.

 

Dæmi 4, nýjasta afbrigðið – þrefalt atvinnuviðtal

Mín nýjasta reynsla í þessum efnum.

Partur A

Haft var samband við mig og mér boðið í viðtal á ráðningarskrifstofu nokkrum dögum eftir að ég sendi umsóknina inn. Ég vissi náttúrulega ekkert hvert ég ætlaði og byrjaði að gúgla eins og óð kona hvaða spurningum ég myndi eiga von á að þurfa að svara. Ég skrifaði svör við þeim öllum. Athugaðu að þetta fer allt fram á dönsku. Ég valdi allar algengustu spurningarnar sem gúgle stakk uppá og æfði svörin við þeim fyrir framan spegilinn.

Svo kom að því að fara í viðtalið og ég var í alvöru með hjartað í buxunum.

Rétt upp hend sem finnst ótrúlega kósý og næs að vera dæmdur í klessu í viðtali þar sem þú ert ekki bara beðinn um að fara úr fötunum og dansa um alsnakin.. nei djók, það gerðist ekki, heldur beðinn um að telja upp alla þína bestu kosti, afhverju ætti fyrirtækið að velja mig, hvaða kostum mun ég gæða fyrirtækið, heldur líka svara því hvað ég vildi fá í laun. Og allt á meðan borðið sem setið er við er svo lítið að hnén á öllum viðsetjendum snertast undir því.

Ég svitnaði svo mikið að ég er nokkuð vissum að ef það á einhverjum tímapunkti voru einhverjar leyfar einhverstaðar í mínum kroppi af því sem lak útum gatið á mínum fyrrverandi botnlanga, að því hafi ég svitnað út þarna.

Ekki bætti á að ég kom 5 mínútum of seint í viðtalið, villtist á leiðinni.

Þetta gekk samt vel, ég talaði við tvær konur, báðar að nafni Anette. Þær komu fyrirtækinu sem ég sótti um hjá, ekkert við heldur voru ráðnar af því til þess að ráða nýjan verslunarstjóra.

Partur B

Eftir ekki svo marga daga þá fékk ég tölvupóst um að ég hefði komist áfram í round 2. Mér leið pínulítið eins og ég væri í raunveruleikaþætti eins og x-factor og að hæfileikar mínir væru það skínandi að ég hefði komist áfram. Ég var beðin um að taka persónuleikapróf á netinu og senda það inn hið fyrsta, því það lægi eiginlega á að ráða í þessa stöðu. Ég hlýddi því með það sama að sjálfsögðu enda vön að gera það sem mér er sagt… eða kannski er ég ekkert vön því. Mig langaði bara svo í djobbið að ég flýtti mér með persónuleikaprófið og sendi inn.

Í viðtali tvö hitti ég svo aftur Anetturnar tvær og síðan hinn tilvonandi yfirmann, sem í þessu dæmi er reyndar yfirkona. Mín fyrsta skoðun á konunni, þú veist þetta sem flýgur í gegnum hausinn, alveg orginal hugsun sem ekki hefur verið lituð af einu né neinu (ég vil meina að þetta sé eðlisávísunin að tala) var “vá hvað hún er lítil og til baka og eins og hún ætli útúr sér, afturábak í gegnum stólbakið á stólnum sem hún situr í”.

Í viðtali 2 var farið yfir persónuleika minn, ss úrslitin úr persónuleikaprófinu sem ég tók. Allt í prófinu stóðst. Altsvo, ég er ekkert örðuvísi en mergðin, ég svaraði í allri hreinskilni og hefði alveg eins getað sagt þeim hvað stæði í prófinu. Ég er svo útreiknanleg sjáðu til.

Ég er týpan sem er hæglát og róleg en afkasta samt mjög miklu. Ég tala ekki nema hafa eitthvað að segja. Ég mun geta tekið við stýrinu en ég mun ekki keppast um það við neinn annan.. og þar frameftir götunum.

Það var lögð mikil áhersla á að ég væri fær um að leggja frá mér þau verkefni sem ég væri að vinna ef Yfirkonan kæmi nú svífandi inn á sama ógnarhraða og hún apparentlí fær hugmyndir. Hún, ef ég á að taka mark á því sem mér var sagt, var svakalega hugmyndarík og svakalega klár og svakalega kvikk og svakalega frábær. Mín upphaflega hugmynd um hana breyttist á svipstundu.

Ég fékk smá móral yfir því að það er ekki að sjóða uppúr hausnum á mér því það er svo mikið af hugmyndum í honum. Ég virka bara ekki þannig. Ég er líka intróvert. Intróvert sem í allri hreinskilni sagt er lengi að hugsa, fær sjaldan góðar hugmyndir og þær koma alls ekki hratt til mín.

Ég svitnaði álíka mikið í þessu viðtali. En hafði samt einhvernveginn á tilfinningunni að þetta hefði gengið vel.

Partur C

Já, ertu að átta þig.. partur C. Þrefalt atvinnuviðtal. Atvinnuviðtal í þremur þáttum..

Eftir tvo daga fékk ég aftur tölvupóst þar sem mér var tjáð að ég og einn annar umsækjandi hefðum verið valin úr fjöldanum (ca 80 manns) til að koma í þriðja viðtalið og að viðtalið ætti að fara fram í fundarherbergi fyritækisins.

Ég var yfirmig ánægð með sjálfa mig. Ég sem ekkert kann og er meðalgunna í öllu (hausinn á mér að tala).

Ég var, ásamt því að vera beðin að mæta á fund í fyrirtækinu sjálfu, beðin um að leysa verkefni. Verkefnið var tvíþætt og sneri að því að hvernig mætti uppfæra núverandi vefverslun þannig að hún myndi selja meira og telja upp langan lista af atriðum um hvernig ég myndi hafa nýja vefinn sem verið var að byrja að vinna.

Ég eyddi 3 dýrmætum vinnudögum í þetta og hellings tíma inná baði að æfa mig.

Ég mætti í viðtalið. Var beðin um að kynna mig, sem ég og gerði með léttum leik því ég var orðin svo vön eftir öll hin tvö viðtölin. Ég var aðallega að kynna mig fyrir manni sem þarna var sestur. Þá var ég beðin um að kynna lausn verkefnisins. Það gekk vel. Á fundinum sátu tvær Anette, Yfirkonan og svo fyrrnefndur maður sem tengist fyrirtækinu á fjárhagslegan hátt. Ég man ekki hvaða hlutverki nákvæmlega hann gegndi.

Eftir sjálfskynninguna og verkefnislausnina var opnað fyrir spurningar til mín og frá mér til þeirra. Ég var svo sveitt á milli rasskinnanna og þurr í hálsi að ég gat eiginlega ekki spurt um neitt.

Konurnar, sem á þessum tímapunkti höfðu allar talað við mig áður spurðu mig um hitt og þetta eins og launin og hvort ég væri ekki stolt af gengi danska handboltaliðsins á Ólympíuleikunum, því það væri Íslendingur að þjálfa það.

Karlinn.. og hversu ógeðslega týpískt er þetta, hélt á persónuleika prófinu mínu og sagði “den siger at du er en doven hund” sem leggt út sirka svona “prófið segir að þú sért þumbi”.

Ef ég hefði verið 10 árum yngri, já eða 5 árum yngri hefði ég horfið inní mig og viljað hverfa út úr aðstæðunum í gegnum stólbakið og einungis getað fundið uppá einhverju að segja daginn eftir þegar ég væri búin að ná andlitinu aftur í eðlilegt litróf.

Ég spurði hann nú bara hvað hann ætti við og nei, að ég væri ekki dofinn hundur. Hann reyndi að malda í móinn og sagði að persónuleikaprófið benti til þess að ég væri löt og aðgerðarlítil.

Eins og ég lifi og anda! Hefur einhver vitað til þess að ég sé löt eða aðgerðalítil, hvorttveggja í senn eða í sínhvoru lagi? Ég hef ekki vitað til þess. Þið verðið að vekja mig ef ég lifi í lygi um sjálfa mig og minn eigin dugnað.

Stutt saga löng

Ég fékk vinnuna krakkar og launin sem ég bað um voru samþykkt. Ég var yfir mig ánægð með sjálfa mig. Ég byrjaði að vinna þarna 6.september og ég gat ekki beðið eftir að fá laun á hverjum mánuði fyrir að gera eitthvað sem ég elskaði.

Í þessa rétt rúmlega viku sem ég var þarna vann ég allan daginn þar og síðan langt fram á kvöld í mínu eigins fyrirtæki. Það voru langir dagar.

Mánudaginn 19.september kom hinsvegar eigandi fyrirtækisins inn, sem ég hafði hitt í vikunni áður og heilsað með handabandi, hvar hann tjáði mér að hann væri ánægður með að ég væri komin, mjög ánægður, og tjáði okkur það að fyrirtækið gengi mjög illa og að allir starfsmenn nema tveir væru reknir.

Já krakkar mínir. Ég var rekin eftir rétt rúmlega viku í starfi. Fyrirtækið á leiðinni á hausinn.

Ég varð vitaskuld mjög leið yfir þessu og líður óþægilega yfir því að vera ekki að fá laun á mánuði. Núna, samt, þegar liðnir eru nokkrir dagar þá hef ég áttað mig á að ég er ekki skör (klikkuð á dönsku) og að ég hef príðisgóða eðlisávísun. Það segi ég því:

A) Mér fannst aldrei eðlilegt hve mikið var hvíslað og pískrað og haldnir margir “fundir” með fáum í einu og ég var aldrei boðin.

B) Mér fannst aldrei eðlilegt hve Yfirkonan var baktöluð mikið.

C) Mér fannst aldrei eðlilegt hvernig enginn vissi neitt um neitt sem var að gerast.

D) Mér fannst aldrei eðlilegt að Yfirkonan talaði bara útum rassinn á sér. Fólkið sem var að vinna þarna vissi t.d ekkert til hvers ég væri komin, altsvo, hvaða starfi ég átti að gegna.

E) Og fullt af fleiri atriðum sem ég kvartaði um við mína vinkonu, en ég man ekki hver voru.

Í vikunni eftir að ég byrjaði þá fékk ég á tilfinninguna að ég væri kannski ófær um að vinna á vinnustað með öðrum en bara sjálfri mér. Mér datt í hug að ég væri félagslega heft að þessu leiti.. því mig langaði svo oft yfir daginn bara að fara heim og vera þar, í þögninni (intróvertinn alveg að fá nóg þarna).

Ég gat ekki réttlætt það í hausnum á mér að ég væri það næm að ég finndi fyrir að það væri hreinlega ekki allt með felldu þarna. Afhverju var auðveldara fyrir mig að efast um það sem ég vissi og skella skuldinni á að ég væri frekar það félagslega óþægileg að ég kynni ekki að vinna með örðu fólki á vinnustað… dsjíss.

Yfirkonan var ekki í vinnunni nema bara 2 daga af þeim dögum sem ég var að vinna þarna. Báða dagana var hún með óraunhæfar kröfur, eða ölluheldur engar kröfur. Hún var því miður of flækt í sjálfri sér til að geta fúngerað sem yfirkona, eða nokkuð annað, upplifði ég. Hún hafði t.d ekki sagt eiganda fyrirtækisins að hún hefði ráðið mig inn..

Þetta stendur eftir

Ég er mest leið yfir að vera ekki að fá borgað á hverju mánuði svo ég geti sagt skilið við að geta ekki í sama mánuði átt fyrir mat og öllum fötum og öllum reikningum sem þarf til.

Þetta er ég þó glöð yfir að hafa uppúr krafsinu:

  • Ég fæ allavegana ein mánaðarlaun greidd, það er betra en ekkert.
  • Ég læt ekki lengur karla sem eru eldri en ég segja mér að ég sé dofinn hundur þegar ég er það ekki
  • Ég hef núna lært að ég get 100% treyst á mína eigin eðlisávísun, ég var ekki með það á hreinu fyrir 19.september
  • Ég er prýðisgóður mannþekkjari
  • Ég fer greinilega af 100% mætti eftir því sem mig langar
  • Ég get haldið mér fyrir utan deilur manna á milli, á vinnustað
  • Ég dróst ekki inní dramatíkina, því ég tók meðvitaða ákvörðun um að gera það ekki

Só. Þannig var það nú.