Það var þetta með sjálfsálitsmálið sem er fyrir dómi. Fyrst verð ég að segja að ég hef svo geðveikt gaman af eigin fyndni í þessari lífssögu minni sem ég skrifa um leið og hún gerist (rauntíma sjálfsævisaga), að mér dettur eiginlega ekki í hug að hætta.

Verra að það verður minna um myndir þessa dagana, þar sem ég, hin tilætlunarsama, bjóst við að batteríið myndi endast þar til ég myndi pakka búslóðinni minni úr gámnum. Datt bara ekki í hug að það væri svona mörgum vandkvæðum háð að fá hér húsnæði.

Og ástand sem þetta, húsnæðisvandamál og að byrja í nýrri vinnu, byrja nýtt líf í öðru landi.. sínu heimalandi, hefur tekið meira á en ég kæri mig um að viðurkenna, hvað þá bjóst við. Svo ég tali nú ekki um að hafa verið hrint af karluglunni þarna um daginn.

Ég er aðdáandi þess að skoða sjálfan sig og þekkja sjálfan sig. Ég hef þessvegna verið að fylgjast með mér þessar síðustu vikur og hef komist að því að það þarf ekki nema hálfT skref útfyrir þæginda/öryggishringinn að ég (langaði til að segja “manneskjan” í staðinn fyrir ég.. því ég vill ekki greina frá því að ég sé ekki fullkomin..haaaaahahaha) byrja að draga upp, með sjálfri mér, allt það sem er miður við mig sem líkama og mig sem manneskju.

Tökum dæmi:

  • Ég er með einhverjar fjandans bólur á enninu, ekki svona graftarbólur, heldur bara einhverjar hæðir og svo eina innverða bólu sem hefur verið þar síðan í Nam. En vill helst vera með skinn sem lítur út eins og ég hafi fengið það lánað af barnsrassi og saumað það fast við andlitið á mér.
  • Ég get tekið í vömbina á mér við nafla og teygt hana niður fyrir píkubein. Mér finnst (meðan ég er í þessu niðurrifsástandi) eðlilegra að ég, sem er búin að gjóta þremur og á “þessum aldri” eigi að vera með sléttan maga sem fær ekki fellingu þó ég sitji.
  • Ég fékk illt í meltingarfærin þegar ég var í of þröngum buxum í vinnunni um daginn. Ég engist í tilhugsunum um að aðrir séu í flottari fötum en ég.
  • Ég hef tekið upp gamla siði eins og að vera óstjórnlega pirruð og óþolinmóð. Sértu meira en sekúndu að gefa mér fullkomið svar eða framkvæma hvað sem frekjunni í mér datt í hug að biðja um, máttu eiga mig á fæti.
  • Ég klæði mig eins og ég sé á leiðinni í fjósið en ekki vinnuna. Það kemur út á einhvern mjög einhverfan máta löngun mín til að líta vel út.
  • Ég velti fyrir mér brjóstastækkunum og svuntu aðgerðum. Það er svo margt sem er að.
  • Ég velti fyrir mér að eyða fé í tannhvíttun. Það er því miður ekki í myndinni að hætta að éta allt nammið.. ekki í þessu ástandi.
  • Ég velti fyrir mér að setja á fjárhagsáætlun Félagsbúsins varanlega háreyðingu frá nefi og niður.
  • Ég hef ekki nennt að hirða um líkamshár frá bringubeini og niður, sem sagt bara lágmarks snyrting í gangi. Einnig mjög pervertaleg afbökun þess að langa til að líta vel út.
  • Þó ég hafi ekki þyngst og því er ég búin að fylgjast grannt með, þá hef ég samt túttnað út á einhvern óæskilegan máta. Hefur dottið í hug hvort ég sé í alvöru að breytast í það sem kallast “kona”.
  • Fjandans appelsínuhúðin nær núna frá samskeytum rass og læra og niður á hnésbót aftanverða. Ég veit ekki hvort hún espist kannski upp við að ég hafi vogað mér út fyrir þægindahringinn.. hún virkar minni þegar ég er í góðu skapi.
  • Ég borða nammi í akkorði. Eitthvað verð ég að gera til að aumingja mig yfir þetta tímabil. Aumingja: vorkenna (aumingja jég). Það er efni í heila bók öll rifrildin sem ég hef staðið í við sjálfa mig um hvort ég eigi að festa kaup á súkkulaðinu eður ei. Merkilega nokk, þá hef ég náð að sannfærast í hvert einasta skipti að súkkulaði sé hollt, hef ekkert annað að borða, hætti á morgun, kostar ekki svo mikið, hætti á morgun, fæ mér bara einn bita, hætti á morgun, gæti geymt það bara, hætta á morgun.. ..
  • Ég borða líka hnetur , möndlur og Corny í akkorði.
  • Ég læt úngpíku atriðið fara í taugarnar á mér. Hvað hef ég í únga píku sem lítur út fyrir að vera fullkomin.. reyndar veit ég það alveg (takk Katrín :) ).
  • Ég tel sjálfri mér trú um að ég sé hætt að borða nammi með að troða í mig öllum þessum hnetum.
  • Mér finnst allir í vinnunni meira kúl en ég. Ég veit minnst, er óflottust og allt sem ég segi er ófyndið og klaufalegt. Var ég að byrja í ástarsambandi og er 17 ára?.. Að þetta skuli  ennþá vera minn raunveruleiki frá einum tíma til annars..
  • Og svo var eitthvað fleira.

Ég var nefnilega búin að vera að spekúlera í því hvað í ósköpunum það á að þýða að láta okkur vera án eigin húsnæðis svona lengi, margar stöður komnar upp sem okkur fannst mjög ákjósanlegar en ekki gengið upp. Mér fannst í þetta skiptið ekki að ég hefði “gert” eitthvað til að “verðskulda” þetta atriði hér. Ég skil ekki skilaboðin að ofan um hvað þetta á að fyrirstilla. En fyrst ég tók svona rækilega eftir því að ég hef hafið eigið niðurrif, þá mun ég taka þessu þannig að ég þurfi að læra að vera sátt við sjálfa mig þó ég sé í óþægilegum aðstæðum.

Og það er bara hægara sagt en gert skal ég þér segja. Þú getur kannski alveg sagt “hva.. bara hugsa jákvætt”, “hva, það er ekkert að þér”, “hva.. ertu ekki heilsuhraust og börnin þín líka?”.. ..ég hyggst safna svona tilvitnunum saman í lítinn þykkan doðrant og senda þér þegar þér líður eins og mér og leyfa þér að lesa hvað það er hughreystandi að heyra svona glósur, NOT.

Ég var búin að segja að ég er að fullu þakklát fyrir allt sem ég hef og fyrir mig hefur verið gert.

Nei, það er víst síðan líka bara ég sem get lagað þetta. Reyndar, bara við að vita að ég er svona, þá hefur vömbin minnkað um helming og ég er hætt að hugsa um úngpíkuatriðið. Ég fór í þröngum buxum í vinnuna í dag og beið ekki varanlegan innyfla-skaða af.

Var að spekúlera í að leita uppi karlskaufann sem hrinti mér um daginn og espa hann í að hrinda mér aftur til þess að fá vorkennisathygli ættingja og vina, en í staðinn er ég skyndilega bara glöð. Enda svo glæsilega gott veður. Reykjavík úr gulli og ekki bærist hár á höfði. Krakkarnir úti eftir kvöldmat í leik. Þetta allt saman verður að hjákátlegu muldri sem ég hætti að heyra þegar ég sé að þau eru ánægð. Og Bóndinn, ég held að hann sé hrifinn af mér þó ég geti teygt vömbina niður á hné.

Niðurstaða kviðdóms í Sjálfsálitsmálinu er að hin ákærða er haldin Samanburðargeðveiki tímabundinni.