Ég er ekki viss um að mér finnist það sanngjarnt að ég sitji hér uppi með heimilis(á)stand uppá 4 stráka og bara tvær stelpur. Ekki svo að skilja að mér finnist við stelpurnar eitthvað eiga erfitt uppdráttar, eiginlega þvert á móti. Við erum báðar þannig að við jöfnumst á við fleiri kvenmenn en við lítum út fyrir að gera.

Nei, það snýr eiginlega helst að almennum umgangi klósettskálarinnar sem mér finnst við píkur vera eitthvað til hliðar settar. Nú hef ég skotist yfir klósettið á nánast hverjum degi síðan 1.ágúst (a.k.a dagsetningin þegar Bóndinn kom heim). Það er alltaf strax orðið útí hlandi og kúk. Já, þetta er eiginlega eins og versti útikamar.

Ég var að reyna að ræða það við eiginmennina tvo í gær að annað yngra typpið hlyti að míga alltaf beinustu leið til vinstri og þar af leiðandi alltaf uppá skálina og útá vegg og niðrá gólf. Ég talaði fyrir daufum eyrum svo ég er helst farin að hallast á að annar þeirra sé alltaf að leika sér með að gera hringi í skálina með bununni. Spurning um að kenna þeim öllum að halda í typpið þegar þeir pissa..

Og talandi um hlandbunur. Sindri kom inn af svölunum askvaðandi og uppveðraður í gær um kvöldmatarleytið. ” Ég pissa, ég pissa mikið” gólaði barnið. Við litum niður og þar stóð húsvörðurinn (sem annars er ágætis maður) og skildi ekkert í þessari skyndi rigningu sem dunið hafði á þarna rétt bara yfir þar sem hann stóð. Ég var ekki lengi að beygja mig niður, enda óþarfi að hann haldi að ég hafi skvett hinum óæðri yfir handriðið og látið það bara gossa.