Eftir meðgöngu og fæðingu er sá dagur sem maður kemst aftur í gallabuxurnar sínar alltaf velkominn. Þetta er ávísun á góðan dag.

Í gær var hinsvegar ekki svo góður húsmóðurdagur. Nei. Ég vaknaði kl. 11 (af því að ég er drottningin og sef þar til ég eða Bjútíbína vaknar). Þegar ég kom niður rak ég augun í að hundurinn hafði skitið á gólfið inni hjá sér. Bót í máli var að lyktin af því, einhverra hluta vegna, var ekki svo mikil.

Þreif það upp og sótti Bjútíbínu og lagði hana á teppi á gólfinu til þess að hún gæti notið þess að vera berrössuð. Hún gerði það og meðan ég siktaði út íbúðir til umsóknar í Kaupmannahöfn gerði hún líka númer 2 á gólfið. Jei. Ég gat þó hlegið að þessu uppátæki hennar því hún er svo sæt og mikill broskarl.

Svo leið ekki langur tími þar til öll börnin á bænum voru komin í kofann. Upphófst þá kór óánægjuradda sem gerir mig svo illskeytta að fólki er í alvöru nær að forða sér. Söngurinn hjómar svona:

Má ég fá: kex, nammi, kakó, sultu ?
Má ég fara í: tölvuna, símann, playstation, horfa á sjónvarpið?
Ég: geturðu farið út með hundinn? Geturðu stokkið í búðina eftir mjólk?
Svarið: NEI! .. örugglega útaf því að ég sagði nei við öllu ofantöldu sem þau báðu um.

Númm, þegar ekki mátti fá neitt þá urðu þau öll með tölu alveg pípandi fúl. Sumir reyndu að beygja mig undir vilja sinn með því að vera illt einhversstaðar, aðrir reyndu það með því að fá únglingaveikiskast, hinir fóru bara upp að leika sér.

Ekkert gekk nú lýðnum að hafa ofan af fyrir sér með óskum um sykurát og tölvuleikjaspil. Fannst ég alveg ógeðslega óþolandi. Byrjaði að kvarta og kveina yfir að eiga ekkert dót, eiga enga tölvuleiki og hafa það svo slæmt að það gæti alveg eins sótt um á hrukkudýraheimilinu í dag og flutt þangað á morgun.

Já, erfitt líf fjórmenninganna… aðallega samt tveim eldri af þeim. Þetta er náttúrulega ekki alltaf svona og kannski fæsta dagana, þannig, en hvernig tókst mér að ala upp úngmenni sem eru aldrei ánægð, aldrei fullnægð og aldrei sátt? Vilja alltaf meira og meira. Ég reyndar veit alveg útaf hverju. Það er af því að þau hafa aldrei liðið skort og eiga meira af t.d leikföngum en þau komast yfir að leika sér með. Þar fyrir utan þekkja þau krakka á sínum aldri sem hafa heldur aldrei liðið skort og eiga mikið meira og stærra og betra og og og.