Fyrst verð ég að segja að við erum lent og komin og búin að sofa fyrstu nóttina. Hún var góð enda er hér allt til alls, erum í íbúð á Freyjugötu þangað til við fáum okkar íbúð úti á okkar elskulega Amager í febrúar.

Það er akkúrat núll erfitt að ferðast með blessuð börnin. Þau þrjú eldri bara svo dugleg og frábær, heyrðist ekki í þeim píp. Vorum í vél þar sem var lítill skjár í hverju sæti þannig allir gátu bara valið sér eitthvað að horfa á, það styttir náttúrulega tímann.

Bjútíbína bara svo róleg líka, enda heppilegt meðan hún er ennþá á túttunni að skella henni bara á hana ef eitthvað var. Náði meira að segja að hekla tvær umferðir af teppi, ekki slæmt.

Og heldur ekkert mál með allan þennan farangur, held þetta hafi verið yfir 100kg af farangri og svo barnavagn og barnabílstóll sem við truntuðumst með heim (í leigubíl sko, strætó hefði verið helst til erfiðari kostur).

Furðulegasta við þetta allt saman er að það er ekkert skrítið að búa innan um annarra manna eigur. Hélt að þetta ætti eftir að vera mega óþægilegt kannski, en eigendurnir hljóta að hafa skilið eftir góða þanka. Og það er heldur ekkert furðulegt að koma hingað aftur. Alveg eins og við hefðum aldrei farið, hefðum bara verið í löngu fríi og værum að koma heim aftur.

Hverfið verður kannað í dag. Erum uppá Norðurbrú, hef afar lítið dólað þar um.