Nújæja krakkar mínir. Bjútíbína var eiginlega búin að hafa það mega skítt, þá í kringum tímann þar sem við fórum uppá sjúkrahús til að láta athuga með dömuna. Fór það svo þannig að þó það hefði átt að hringja í okkur á föstudegi með niðurstöður úr prufum, og ef ekki yrði hringt þá væri allt í kei og ekkert fyrir okkur að gera, sem varð síðan raunin… þ.e það var ekki hringt á föstudeginum, þá var samt hringt á mánudeginum og okkur sagt að hún væri með blöðrubólgu. Eins og okkur grunaði.

Skutluðum í hana meðali við því að sjálfsögðu og það var eins og við manninn mælt. Allt annað barn. Mikið betur sofnir foreldrar. Glöð á ný! Mikið er ég fegin. Fjúkk.

2015-11-19 17.10.16

Ég er að reyna að það sé ekki alltaf allt undirlagt í tölvunotkun hér. Vá hvað það er yfirgripsmikil aðgerð að beina lýðnum frá skjánum. En ég náði að lokka Fagra til að búa til kerti úr vaxi sem ég hafði keypt til þess arna fyrir löngu síðan en hafði nýverið munað eftir að fjárfesta í kertaþræði.

2015-11-19 17.10.20

Við bræddum í potti og helltum svo í nokkrar skálar. Setti ilmi og ilmkjarnaolíur ofaní. Einhvernveginn gleymdi ég að taka mynd af kertunum tilbúnum. Gæti kannski gert það við tækifæri. En þetta er gaman, það er bara alltaf meira gaman að gera sjálfur og nota það svo.

2015-11-21 11.38.22

Nú. Talandi um tölvur. Það sem tíðkast í vinahóp Únglíngsins er að halda svokölluð LAN kvöld. LAN kvöld? kannt þú að spyrja og já, ég spurði líka. Þó svo að ég þekki marga fullorðna menn sem btw eru mjög klárir menn þó þeir (eða jafnvel útaf því að) spili mikið af tölvuleikjum þá vissi ég ekki hvað LAN var. Nei, ég bara þekki enga konu sem spilar svona mikið af tölvuleikjum. Sorry, ég er ekki að reyna að vera karlisti (feministi.. karlisti), ég bara þekki enga konu sem spilar svona mikið.

Anywho: LAN kvöld skulu það vera og það þýðir að hér gista 4-5 únglíngspiltar. Allir inní herberginu hans Únglíngs. Þeir eru vakandi alla nóttina, amk einusinn var það þannig. Ég setti þá reglu eftir það að ef svona skyldi haldið aftur þá yrðu þeir að fara að sofa ekki seinna en 4. Já, 4.

Mér finnst í raun og veru gott að þeir velji frekar að vera heima hjá okkur eða hinum félögunum heldur en allt þetta með að vera úti á kvöldin og svoleiðis. Allavegana enn sem komið er.

Og hvernig tengist það myndinni hér að ofan? Jú. Það voru einmitt 4 únglíngspiltar hér í gistingu. Ég var búin að segja þér að við erum flutt í stofuna, er það ekki? Jú. Rúmið okkar, þar sem almennt við sofum ekki í neitt svakalega mikið af fötum, er í stofunni.

Hvað ef, einhverntíma um nóttina einn únglíngspilturinn kæmi fram til að fá sér að drekka eða fara á klósettið, að ég myndi bara vera geggjað mega sofandi, úfin og svo hefði mér orðið ógisslega heitt þannig að ég hefði vöðlað sænginni svona á milli fótanna og undir mig einhvernveginn svo að rassinn á mér stæði bara út og sæist alla leið til Reykjavíkur. Ekki nóg með það heldur væru nærurnar uppí skorunni, eins og títt vill vera.

Það hefur enginn únglíngspiltur gott af því að bera þanniglagað augum. Sem örþrifaráð þreif ég úr skápnum gardínur sem ég hafði ætlað að hengja fyrir stofugluggann og límdi þær með límbandi uppí loft. Það var bara svo fjandi kósý að við Bjútíbína þrumuðum starx morguninn eftir uppí IKEA til að kaupa svona járnsnúru sem gerð er fyrir aðhafa gardínur á svo við getum hengt þær fyrir rúmið. Höfum gert svona áður, erum ógisslega vön að búa í litlu.. eða litlu miðað við fjölda íbúa. Þannig að nú erum við með herbergi ég og Eiginmaður. Nú er loksins hætta á að komi 5 barnið undir. Það hefur ekki verið hætta á því síðan bína fæddist fyrir 2,4 árum síðan. Bölvað vesen alla daga.

Ég er alveg hrifin af því sem er hægt að kaupa í IKEA, ekki það að ég elski að vera þar inni, síður en svo. Vei of stór búð og allof heitt og margmennt þar inni.. einhvernveginn alltaf.

En ég kom auga á þessar fínu, pínulitlu þvottagrindur. Ákvað að kippa þeim með. Ég elska þegar hlutirnir passa eins og flís við rass. Þessar grindur gat ég farið með heim á vagninum því þær pössuðu akkúrat á hliðina á vagninum án þess að detta.

Þær passa líka báðar akkúrat inní sturtuklefann þar sem ég hef í hyggju að þurrka þvottinn okkar, en hann ætti þá að þorna mikið hraðar í hitanum og loftræstingunni inná baði heldur en frammi í íbúð.. svo er betra að vera ekki að bæta á rakann frammi. Ég gat hengt úr tveimur þvottavélum á þær, þó smáar væru. LOVE IT. LIKE A GLOVE!

2015-11-21 12.59.07

Hmm.. Ég veit ekki alveg hvað þetta hálfa greip er að pæla þarna inní ísskáp…

2015-11-21 15.01.47

Í annarri tilraun til að fá lýðinn til að gera eitthvað annað en að stara á tölvuna var að kaupa hvítar perlur og bjóða þeim að perla snjókorn. Það hófst að perla eitt korn en ég hef í hyggju að perla fleiri og hengja upp sem vetrar/jólaskraut.

Bjútíbínu fannst ekki nauðsynlegt að allt sem fór á hennar perluplötu væru endilega perlur.
2015-11-21 15.02.00

Fagri gerir snjókornið.

2015-11-21 15.22.11

Og svo í miðju perl-kafi þá rauk hann upp. Hafði munað eitthvað sem hann hafði séð. Rauk til og sótti plastflöskku, klippti hana í sundur og setti tusku ofaní og teygju utanum. Húrraði svo ofaní, eða einhversstaðar sápu, sá ekki almennilega hvað hann gerði og hóf svo blástur mikinn. Hehehe, fékk alveg svima og allt. Vaskurinn var amk hreinn.

2015-11-22 15.05.38

Únglíngurinn og nakti aðstoðarbakarinn… Þriðji í tölvufráflæmingu og fyrsti í jólakökubakstri. Kökurnar eru að sjálfsögðu löngu búnar, eða degi eftir að þær voru bakaðar. Bless 250gr. púðursykur og svipað magn af hveiti. Oj. Verst er að ég borðaði meirihlutann af þeim sjálf.

2015-11-23 20.10.41

Númm. Á mánudagskvöldið síðasta var ég á leiðinni af æfingu (blæser). Mánudagar eru uppáhalds dagarnir mínir. Þá fæ ég að hjóla allar götur uppá Frederiksberg og fara þar í músíkskólann minn heittelskaða þeyta þar silfurrörið í félagi við aðra blásara og hjóla svo til baka. Mér til gamans og yndisauka fer ég lengri leiðina. Bara því mér finnst fallegt umhverfið.

Var send í búð og það var þá sem ég tók eftir nefinu á músinni. Það er orðið ferlega kalt alltí einu og ég brá á það ráð að setja hnakkhlífina sem ég fékk gefins í fyrra á hjólið. Heldur þú, lesandi góður, að það sé tilviljun að nefið á músinni er akkúrat þarna? Ég held ekki. Ég held að framleiðandinn viti að svona hlíf brúkist ekki af körlum heldur konum. Mér finnst hann frekar tillitssamur.

2015-11-26-20.37.31

Var að læra þetta orð. Þýðir “ég er þakklát/ur”, Sona Grata á ítölsku.

Ég er búin að vera hugsa mikið um þakklæti og hvernig kona æfir sig í því OG hvernig kona kennir börnum sínum listina að vera þakklát. Fróðari konur en ég segja að þakklæti og gleði séu óaðskiljanlegar tilfinningar. Ég get alveg séð að það sé satt.