Nú er til umræðu grein frá AK-72, þar sem bloggari fer yfir það hve fáránlegt það er af formanni Fjölskylduhjálpar Íslands að segja að það væri til skammar að Íslendingar væru að veita meira fé til þróunaraðstoðar á meðan Ísland væri svo illa statt.

Ég er að sjálfsögðu sammála bloggaranum á AK-72 að auðvitað höfum við á Íslandi það ekki svo slæmt að við getum ekki hjálpað náunganum.. enda höfum við stundum og ekki fyrir svo löngu, verið náunginn og þurft á að halda og fengið hjálp.

Konugreyið hjá Fjölskylduhjálp hefði átt að taka eitthvað annað dæmi, eins og að eyða peningum landans í óþarfa eins og himinhá laun ráðherra, virkjanir af ýmsu tagi (því ég er almennt á móti átroðslu okkar á móður jörð ) og fleira dótarí sem ég man ekki, en ekki að agnúast útí að við notuðum peninga til að hjálpa deyjandi fólki og afar bágstöddu í Malaví.

Hún hefur samt rétt fyrir sér, konan. Það eru alveg hellingur af fjölskyldum  og fólki almennt sem á ekki nógu marga peninga til að sjá fyrir sér og sínum. Fólk sem er líklega í frekar svipaðri stöðu og ég. Að parti hefði ég getað farið betur með peningana mína og að parti er kaupmátturinn lítill og útgjöld heimilis með börn er súrpræsinglí há. Leyfi mér samt að halda, þó ég viti ekkert um það, að við sem höfum það svona, séum faktísk í minnihluta, ekki meirihluta. Við höfum það blessunarlega ekki svo slæmt að þurfa að þyggja hjálp frá Fjölskylduhjálp, sem betur fer. Á Íslandi ER samt hellingur af fólki sem á fullt af peningum og getur þessvegna gert allt af neðantöldu. Við hin, við erum bara heima held ég, að éta afganga yfir dagskránni á Rúv og kannski fyrir vikið eigum við samveru stundir með familíunni sem innihalda ekki græðgisbrjálæði.

(Spurningar úr grein bloggarans:)

Hin hliðin á peningnum er í bóld.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar skotið flugeldum upp fyrir hundrað milljónir einu sinni á ári? Jahh, nú veit ég ekki. Persónulega finnst mér það fáránleg hefð og undarlegasta typpakeppni sem ég hef orðið vitni af. Sjálf eyði ég ekki fé í flugelda og fer ófögrum orðum um ándskotans  hávaðann á hverjum áramótum, frumburði finnst ég hallærisleg.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar eytt mörgum milljónum í áfengi, vistir og ferðalög fyrir eina ferðahelgi í ágúst sem kostar sitt til viðbótar?  Ekki veit ég hvar allir fengu féð til að kaupa allt áfengið og matinn til að taka með í ferðalagið.. enda fer ég aldrei sjálf… ég veit, frumburði finnst ég líka hálf leiðinleg.

“Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar haft efni á því að ferðast um páska, hvítasunnu og aðrar helgar einnig? Jebb.. heima hjá mér enn eina páskana, reikna ekki með að fara neitt um hvítasunnu eða aðrar helgar á þessu ári. Frumburðurinn mun sennilega drepast úr leiðindum og útþrá svo ég tali nú ekki um hin börnin.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar flykkst út í sólarlandaferðir í þúsundatali á hverju ári? Ég veit það ekki heldur, hef ekki farið annað en á milli DK og ÍS, meðan við bjuggum þar, með fjölskylduna. Við höfum rætt að fara kannski þegar tvö elstu eru á fermingarárinu.. best að byrja að leggja fyrir, Frumurðurinn er byrjaður.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar keypt snjallsíma og spjaldtölvur í þúsundatali? Á visa-rað! Haha. Á að vísu ekki spjaldtölvu en ég á snjallsíma og Eiginmaðurinn líka. En þar höfum við sett mörkin. Mér finnst þessi tæki vera fullorðinstæki og hef neitað Frumburðinum um. Hann er eini í bekknum sem á ekki rándýrasta snjallsímann á landinu. Hann grætur söltum tárum.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar keyrt um á flottum jeppum og dýru bensíni? Vor bifreið er jafngömul umræddum frumburði og er ekki jeppi. Dýru bensíni..? Mér sýnist ekki að ég hafi neitt að segja um það hvar ég kaupi bensín, það kostar allstaðar ógisslega mikið. Nei, ég get í augnablikinu ekki verið bíllaus. Eftir mikið bíla vesen og bílleysi undanfarin 2 ár þá hefur Frumburður munninn bara lokaðan og er glaður að fá stundum far heim af æfingu.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar haft efni á því að kaupa sjónvörp, húsgögn og fleira án þess að gamla dótið sé úr sér gengið? Keypti sjónvarp árið 2008 að mig minnir og hlakka til þegar það gefur upp öndina, mun ekki kaupa annað. Húsgögn?.. þau fæ ég í Góða hirðinum og á hinu alræmda Bland.is. Þannig að mér er alveg sama þó hinir í landinu séu með húsganga kaupæði, þýðir að það er meira fyrir mig. Frumburðinum hefði líklegast liðið betur í eigin skinni ef árið 2007 hefði verið endalaust. Hann væri sennilega búinn að betrekkja herbergisveggi sína með sjónvörpum, tölvum og allskyns græjum, læst herberginu og gleypt lykilinn. Ég sé fyrir að ég mætti gjöra svo vel að hala kvöldmatinn hans upp á efri hæðina í gegnum herbergisgluggan hans, í skúringafötunni.

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar tekið þátt í Eurovision með pompi og prakt? Haha.. er þátttaka okkar með pompi og prakt? 

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar framleitt 200 tonn af páskaeggjum? Það er ógeðslegt, en dúd, gerist einusinni á ári og það er ýmislegt annað sem mætti missa sín frekar en þessi bansettu páskaegg. Ég hef meiri áhuga á að vita hvaðan allt þetta súkkulaði kom. Míní-manneskjur heimilisins lentu í typpakeppni í skólanum um hver fengi stærsta páksaeggið. Hvaðan hafa þau þetta?

Hvernig getur jafnilla stödd þjóð eins og Íslendingar haft efni á að henda mat fyrir þrjátíu milljarða árlega?   Já, ferlegt ef rétt staðreynd. Margir hafa ekki lært að fara með afganga kannski. Meiri endurvinnsla og fleira í þeim dúr er lausnin. Við endurvinnum það sem hægt er með græna tunnu. Leiðinlegt að þurfa að greiða fyrir tunnuna, þó það sé ekki mikið, finnst bara að hvert sveitarfélagi eigi að skaffa þeim sem vilja endurvinna tunnu og tæmingu endurgjaldslaust. Næsta skref er að búa til moltu úr matarafgöngum til að nota í grænmetisgarðinum eða frekar gefa tilvonandi hænum matinn og láta þær sjá um að búa til áburðinn í garðinn.

Og hvernig í ósköpunum getur jafn illa stödd þjóð eins og Íslendingar haft efni á öllum þessum Internettengingum þar sem legið er í athugasemdadálkum og kvartað undan því hvað við eigum svo bágt að við getum ekki veitt fátækustu þjóðum heims aðstoð og setjum samansemmerki á milli velmegunarkreppu og hörmunganna á Haiti?  Stupid is as stupid does.

Mér finnst fullyrðingar um að Íslendingurinn sé svona og svona leiðinlegar. Íslendingurinn er ótrúlega fjölbreyttur og eina stéttin sem ég get með réttu ráði sagt að mér finnist t.d leiðinlegt fólk eru þau sem starfa í stjórnmálaflokkum, en ég held að þau séu bara leiðinleg í vinnunni.

Það er ekki allt farið til helvítis á Íslandi og Íslendingurinn er almennt ekki horkafullur græðgisfáviti, nema nokkrir, verst er að þeir eru tryllt hávaðasamir, enda sennilega allir með minnimáttarkennd yfir litlu typpi.