Það er bara eitthvað alveg spes í loftinu þessa dagana. Það er trúlega tilkomið af harðindaástandinu. Mörgum líður svikið og þetta er óneitanlega erfitt. Burt séð frá því öllu þá hef ég fundið fyrir einhverri alveg nýrri tilfinningu. Mér líður eins og ég hafi verið frelsuð undan einhverju. Mig hefur gripið hamingja af einhverri sort. Ég þarf ekki að eyða einni mínútu í að velta fyrir mér hvað ég á að kaupa mér næst. Ég þarf ekkert að svekkja mig á því að vera svona á kannt við þá sem teljast vita betur því ég á ekki feita sjóði geymda í Svissneskum banka  eða eignir í fjórum heimsálfum. Ég hef misst löngunina til að kaupa mér nokkuð (ok finn að ég er pínu að ljúga núna) .. en samt það er einhver frelsistilfinning sem fylgir því að eiga ekki pening. Kann að hljóma fáránlega.

Og aðstæðurnar eru líka frekar spes. Við erum eins og aðrir námsmenn búin að vera í vandræðum með að fá vort fé hér yfir en þá sendi mAmma R peninga í umslagi með vinkonu sinni sem kom hér í Kaupmannahöfn í gær. Mér fannst að ég væri stödd í einhverri stríðsnjósnamynd. Ég fékk skilaboð frá Bóndanum um hvert ég ætti að fara til að hitta fólkið og það var á pínulitlu torgi í miðbænum, ekta gömul hús þar í kring og svona, einhver stemmning. Og ég leitaði að veitingahúsinu sem heitir Sporvagninn (það flottasta sem ég hef séð á ævi minni, gangurinn milli afgreiðsluborðs og sætanna er bara ein hurðarbreidd, á breidd og þetta er bara nákvæmlega eins og inní eldgömlum sporvagni, dásamlegt) og fór þangað inn og leitaði svo í andlitum gesta veitingahússins hvort við næðum “sambandi” og þau sátu aftast (reyndar vissi ég alveg að þau myndu sitja aftast, hehe, en hitt er skemmtilegri saga) og ég settist niður við næsta borð og tók við fé frá ókunnugum. Þetta hefði alveg eins getað verið pakki með einhverju ótrúlega leynilegu sem enginn í veröldinni mætti komast að hvað væri. Og ég fór út aftur og hjólaði niður að Strikinu og fór til að skipta einvherju af fénu í Evrur. Þar stóð síðan svo táknrænt á gjaldeyristöflunni Ísland -0, greinilega ekki hægt að skipta íslenskum krónum þar.

Þá fór ég að hugsa hvað fólk er samt ekkert að drepast. Það er ekki eins og það hafi riðið yfir heiminn einhver ógeðis bóla og hálfparturinn af mannkyninu hefur þurrkast út eða það er enginn Hitler eða svoleiðis rugludallar að störfum. Það kann að vera svart framundan en eins og er búið að skrifa í blöð hér í DK þá erum við Íslendingar öngvir eymingjar og erum vön að leita allra leiða til að hafa það sem best hverju sinni. Íslendingum hér í Kaupmannahöfn finnst það amk ef marka má viðtal við þá sem voru hjá Frikka Wæsappúl á miðvikudaginn að mig minnir, þar sagði liðið að þetta væri auðvitað hálf súrt og erfitt og margir eru í alvöru vandræðum en svo sögðu allir “þetta reddast”. Auðvitað gerist það, ekki þar með sagt að maður haldi að maður eigi að standa bara eða sitja og gera ekkert þar til allt reddast einhvern veginn, nei, fólk gerir bara það sem gera þarf og hana nú.

Strikið var fullt og þá meina ég fullt af fólki.

Og þar var verið að byggja líkan af borginni eða amk einhverri borg úr hvítum legókubbum á Ráðhústorginu. Frekar kúl.

Og það voru skemmtileg listaverk á Ráðhústorginu líka, þau eru til að vekja fólk til umhugsunar um að vera ekki að henda rusli útum allt.

Og krakkarnir eru við sama heygarðshornið.  Gummi er með hálsbólgu og er því hás. Hann gargaði (eins langt og það nær þegar maður er hás) hey mamma, heyrðu nýju röddina mína…er hún ekkki FLLLOOOoooott??

Í vikunni sem nú er liðin var vetrarfrí og því frí í skólanum. Þau voru hinsvegar á frítíðsheimilinu og þar var vikan notuð í ferðalög um borg og bý. Þau fóru eitthvað langt á miðvikudaginn, eitthvað nálægt Roskilde. Gummi kom heim með í poka, haus af önd og lappirnar afhenni líka… ég hef svosem ekkert meira að segja um það, þið getið bara rétt ímyndað ykkur…

Sindri er í aðlögun á leikskólanum. Hér eru börn til uþb 2 og 3/4 á vöggustofu og svo fara þau á leikskólann. Hann er rífandi montinn af því að hann fékk um daginn að fara með nesti á leikskólann og borða þar. Hann talar ekki um annað: Siddi spís bröðð i börnehaen…Siddi stoooaahh.. já litli danski.