erÉg fór til Íslands. Þar var allt í snjó og vægast sagt tvísýnt veður á tímabili. Það var að vísu dásamlegt að lenda í því. Það er einhvernveginn kunnuglegra að vera í hávaðaroki og snjóbyl heldur en bara hávaðaroki eins og er hér þessa stundina.

Ég flaug á fimmtudaginn síðasta og hafði það svona líka blússandi gott í flugvélinni, var ein með 3 sæti. Svo lenti ég (líka á fimmtudaginn…) í Keflavík og minn einkabílstjóri Jóhannes var þegar mættur og við brunuðum til Hafnafjarðar. Þar fórum við í Kjarnavörur og náðum í bílinn sem er “merktur mér” en hann hafði ég fengið lánaðan. Þá fór ég og rúntaði um Reykjavík og endaði svo hjá mömmu í mat og svo með Bryndísi í sundi. Ég hef nú bara eitt að segja um sund og heita potta: ÉG ELSKA SUND OG HEITA POTTA.

Á föstudaginn fór ég í hárgreiðslu til Marion. Ég veit það ekki… ég ætlaði bara að fríska uppá minn annars faguríslenska músalit með því að biðja hana að setja skol yfir, svo ég fengi smá glans og mjúkt hár. Jú, hún átti eitthvað töframeðal til að uppfylla óskum mínum og ég hallaði mér bara aftur og lét fara vel um mig hjá henni, full af trausti til töframeðalsins og yfirmanns þess. Skemmst er frá því að segja að endarnir á hári mínu eru há appelsínugulir… það er bara töffffff…(úff)

Þá má heita að klukkan hafi verið orðin 12 eða um það bil á hádegi og var þörfin til að komast norður í land orðin yfirsterkari vorkunnsemi yfir hárinu mínu. Það var ekki útlit fyrir að komast en ég ákvað að prufa að keyra fyrst upp að Esso þarna á leiðini út úr Reykjavík. Það gekk nú bara vel og ég ákvað að prufa að keyra þá í Mosó, ég myndi þá bara heimsækja frænkur mínar þar ef ég kæmist ekki lengra. Það var heldur ekkert mál og ég keyrði til Kjalarness, þar var ekki vindurinn sem stóð á skiltinu, allavega ekki svo ég tæki eftir. Og til að gera langa sögu stutta fór ég alla leið í Borgarnes án vandræða, að vísu þurfti ég að keyra á 60 en það var bara betra. Og frá Borgarnesi keyrði ég uppá Bifröst. Það var heldur meiri ófærð á þeirri leið og var ég með hjartað í buxunum. Þegar ég kom þangað hitti ég Aldísi og Sveinbjörgu og fór með þeim yfir heiðina. Við vorum allar (að ég held örugglega, ég svo sem gáði ekkert í þeirra brækur) með hjartað í buxunum. En heim komumst við. Ég er svo fjölheimiluð, ég á “heim” til Hvammstanga, Reykjavíku, Íslands og Danmerkur. Og þetta tók ekki nema frá hádegi og fram að kaffi. Það var eins gott því það var búið að bóka mig í badminton um kvöldið. Ég og þrjár aðrar píkur spiluðum babbín eins og við hefðum aldrei gert annað. Ég er að vísu ennþá að drepast í fótunum og öxlinni en það hlítur að stafa af því hversu oft ég æfi babbín, en ekki að ég hafi ekki spilað síðan áður en ég fitnaði árið 2005 og gaut síðan barni alltí einu árið 2006. Eftir það fórum við Ella í pottinn og það er það var frábært, ég fór líka í ljós þarna, allt til að fá hita í kroppinn. Og svo fórum við heim í sjónvarpsgláp.

Laugardagur. Ég vaknaði eftir ansi góðan nætursvefn heima hjá Mömmu Lóu um kl 9. Þá fórum við Aldís í ljósmyndaleiðangur og svo í flautusamspil í Tónlistaskólanum. Það var frábært. Þá fórum við í leynileiðangur útað Grænahvammi og tókum á því í torfærum. Eftir það borðuðum við og eftir það spiluðum við og eftir það drukkum við og eftir það komu gestir og eftir það borðuðum við nammi og eftir það heimsóttum við Síróp og eftir það Dóra og eftir það fór ég að sofa.

Sunnudagur. Ég gerði ekkert, enda of hress eftir athafnir laugardagsins, ég sá mér bara ekki annað fært en að liggja í sófanum yfir sjónvarpinu allan daginn. Það var líka skítaveður.

Mánudagur. Ég fór suður í Bifröst með bílstjóra mínum og keyrði svo alla leið í Reykjavík og leit við í nokkrum búðum og svo hjá Mömmu Rögnu og fékk bækur þar og svo var mér boðið í mat af Yfirpabba, á Múlakaffi, ég verð að segja að það kom á óvart hvað það er snyrtilegt og góður matur, mig minnti endilega að einusinni hefði verið svo sjöbbí þarna inni.

Nú, þá er helst kannski að nefna flugferðina heim. Ég bað um að fá að vera ein í röð ef flaugin væri ekki full. Það fékk ég ekki náttúrulega og var settur við hliðina á mér maður sem var vond lykt af…ojoj, ekki alveg eins góð flugferð og hin.

Hér með líkur ferðasögunni.