Ég hef verið að skoða sjálfa mig undanfarin ár. Það er, eins og aðrir sjálfsskoðarar (nei, ekki með spegli að skoða alla króka og kima skrokksins, skoða hugann, mynstrin, brestina og auðvitað allt þetta jákvæða) vita þá er þetta eins og að taka utan af lauk.

Eftir því sem ég best veit, þá er laukur þannig að hann hefur ysta lagið sem er eiginlega eins og þunnt, stökkt blað. Ekkert rosalega erfitt að plokka það af, en getur, ef aðferðin er röng, verið svona æi, þarft að plokka af í mörgum litlum ræmum. Það er alveg þannig þegar maður byrjar að skoða sjálfan sig. Það er ekkert mega erfitt, samt svolítið, en ekkert mál samt þú veist, og maður kemst á bragðið með að vera að stunda sjálfsskoðun yfir höfuð, getur séð árangur eiginlega strax án rosa erfiðisvinnu.

EN! Undir því blaði er ógisslega þykkt og einhvernveginn límkennt, en sammt þurrt, hálf teygjanlegt gúmmílegt blað sem hylur allan laukinn. Það er öllu erfiðara að komast þar í gegn. Oft rifna önnur undirlög lauksins með því blaði af, það er allt í lagi náttúrulega, en betra að gera þetta allt í réttri röð.

Þegar maður hefur rifið þetta gúmmíkennda, þétta, ógagnsæa lauklag af sér, þá er maður kominn að því að fletta af til skiptis, einu næfur þunnu lagi, sem varla sést og svo einu þykku lagi. Þessi næfurþunnu lög eru þessir hlutir sem maður, í sjálfsskoðuninni, tekur ekki eftir fyrr en löngu seinna að maður hefur kannski bætt úr eða breytt. Það er af hinu góða. Þykku lögin eru þessir hlutir sem maður ákveður að breyta.

Versta er við laukinn að það eru engin verðlaun þegar þú ert búin/nn að pilla allt af. Það er bara endalaus laukur og svo er hann búinn bara. Engin hneta í miðjunni, bara ekkert , verður bara fá þér annan og byrja að pilla af honum fyrsta lagið og svo næsta og svo koll af kolli.

Að því leiti er laukur svolítið hallærisleg samlíking því það eru jú alveg verðlaun, ég verð betri manneskja með því að vera vitni að eigin hegðun og breyta henni svo til hins betra, eða verða vitni af eigin hugsanamynstri og fá kannski MEGA sjokk eins og ég fékk í dag, þegar ég uppgötvaði eftirfarandi:

“Það er staðreynd að þegar ég á ekki peninga, finnst mér nákvæmlega ekkert um sjálfa mig. Eða það er ekki rétt, mér finnst ég vera lúser, sé ekki tilganginn í að vera til, finnst ég ljót, illa af guði gerð, ömurleg móðir, eiginkona, systir, dóttir og vinkona, mér finnst ég vera svo lítil og Ó! svo lítil og aumkunarverð mannsveskja að ég sé varla útúr augunum… (oft fyrir tárum, þannig að ég er grenjuskjóða líka)”

Þar höfum við það herrar mínir og dömur. Peningar stjórna því hvernig mér líður um sjálfa mig. Er það nú ekki merkilegt þar sem ég á ekkert af þeim? Eru aðrir svona? Ekki endilega með peninga, en kannski eitthvað annað?

Þetta var svolítið eins og að taka sjö lög utan af lauknum og ekki eins og að hafa fengið verðlaun. Ég er súrasta manneskjan.

Dæs.