Ég er búin að vera með titilinn á þessum pósti tilbúinn síðan fyrir nokkuð mörgum vikum. Hefur verið mér ofarlega í huga í hverskonar ofgnóttarsamfélagi við lifum. Hluta-ofgnóttarsamfélagi.

Börnin sem fengu of mikið hefur aldrei skort nokkurn hlut. Þau vita ekki, reynsluleysis vegna, hvað það er að vera svangur. Þau vita ekki hvað það er að reyna á sig og þau vita ekki hvað það er að vinna fyrir peningum. Þau vita ekki hvað það er að standa frammi fyrir mótlæti nema í því formi að þau fá ekki prontó hvað þau báðu um fyrir hálfri sekúndu.

Í fersku minni eru öll jólin þar sem pakkarnir drekktu jólatrénu. Jólatréð sást ekki og enginn gat dáðst að því hversu vel það var skreytt því það sást ekki. Enginn gat notið þess að skreyta það þar sem það lá svo á að raða öllum pökkunum undir það, yfir og allt um kring og upp fyrir topp.

Afmælin og allir afmælisgjafa óskalistarnir. Þeir samanstanda af óraunhæfum gjafa óskum, enda eru þau börn. Listi uppá tölvu, sjónvarp, stærsta dúkkuhús í heimi, síma, útlandaferðir og fleira í áttina að fermingargjafa óskalistanum (þegar maður er bara að verða 9) gera afmælisdaginn ómögulegan. Væntingarnar langt yfir því sem gestunum langaði að gefa. Barnið hélt mögulega að óskalistinn væri það sem ætti að gefa því, en ekki einfaldur listi yfir hvað það langaði í. Frekjan og yfirgangurinn gerði hinum ómögulegt að finna hjá sér hvað hann  langaði til að gefa barninu.

Það hefur lengi verið barningur milli okkar og barnanna sem fengu of mikið, svona til hversdags, hvort eigi að kaupa eitthvað eður ei. Oftast erum við að segja nei. Eiginlega erum við beðin um svo margt á hverjum degi að við erum með nei á autopilot. Við fáum aldrei tækifæri til þess að bjóða þeim neitt, það er alltaf búið að biðja um það, væla um það. Eiginlega finnst okkur við vera beðin svo oft um að gera eitthvað, hvort megi fá eitthvað eða fara eitthvað að við, eða að minnsta kosti mér, finnst ég bara vera grafin undir öllum nei-unum og þegar dagurinn er búinn sit ég bara eins og klessa í sófanum, gráti næst, og kem ekki öðrum hugusnum við en þeim hve ömurlegt foreldri ég er að geta aldrei veitt börnunum sem fengu of mikið, nokkurn skapaðan hlut. Ekki útlandaferðir, tölvur, sjónvörp og skemmtiferðir á hverjum degi. Ís, nammi og kökur. Kósýstund með snakki vídjó og flótta frá raunveruleikanum.

Eftir að börnin höfðu verið til í nokkur ár kom nefnilega í ljós að þau eiga í stökustu erfiðleikum með að vera sátt. Geta ekki unað við sitt. Kunna ekki að meta það sem gert er fyrir þau og hafa ekki fundið til þakklætis í hjartanu. Finnst allt vera ekkert.

Dæmigerður ferill er að það dúkkar upp hugmynd, gjarnan úr auglýsingum eða af öfund útí vinina sem virðast eiga og mega allt og allt, um að þeim langi í eitthvað ákveðið. Ég er ekki að meina að það sé ekki eðlilegt að langa í eitthvað, haha, mig langar alltaf í eitthvað. Og þeim langar líka. Langar svo mikið að fyrir einhverja töfra þá er það sem þeim langaði í oft komið í hendur þeirra innan skamms.

Nærtækast þykir mér að taka dæmi af því þegar ónefnt barn fékk ónefndan rándýran hlut sem við höfðum svo sannarlega ekki ætlað okkur að kaupa þó svo að þessi ónefndi hlutur sé næstum talinn staðalbúnaður á hverju heimili. Þegar rándýri og flotti hluturinn hafði verið keyptur, keyptur fyrir peninga sem hið ónefnda barn hafði sogað að sér frá ættingjunum sem barnið gerði sér enga grein fyrir að hefðu unnið hörðum höndum fyrir, átti að fara að eiga við hlutinn og tengja og græja og gera. Upp kom vandamál við tengingu. Tæknihamlaði Eiginmaðurinn var einn heima með bændur og búalið, klukkan kvöldmatur og smábarnið á orginu. Ég í vinnu en var væntanleg eftir klukkutíma. Þar sem ónefnda barnið hafði engan skilning á því að það væri eitthvað annað að gerast í heiminum en að það væri að tengja hér hlut, þá, eftir nokkurra mínútna móðursýkiskast og algera geðshræringu yfir því að tengingin virkaði ekki lá barnið, sem hafði fengið of mikið, í gólfinu, vitstola. Alveg búið að missa það.

Allt þykir sjálfsagt. Maturinn á kvöldmatarborðinu þykir sjálfsagður og vondur. Svo vondur að það jaðrar við að eldabuskan verði dregin fyrir dóm fyrir að hafa með vondum mat með lauk í verið með hótanir og persónulegar árásir  á étendur.

Kannski finnst mér ekkert skrítið lengur að það sé erfitt að ákveða hvað eigi að vera í matinn þegar það skiptir ekki máli hvað sé eldað, það mun alltaf einhver setja upp svakalegan fýlusvip og vanþakklætið lekur oní matinn. Þú veist, það er bara þannig að það er lýjandi að standa í því að elda, oft takmarkað fé til að kaupa mat fyrir, en það er önnur saga og gömul tugga, og allir sem fá að borða eru svo hundóánægðir og eru ekki að spara orðin um hvað þeim finnst um matinn, sem er engu líkara en hafi verið sóttur neðst í ruslatunnuna sem hafði ekki verið tæmd í meira en viku.

Meðferð hluta er líka ótrúleg. Símum, ég er að tala um dýra (ekki rándýra) síma, þeim er hent í gólfið. Téður rándýr hlutur liggur á gólfinu í þessum töluðu orðum.  Fötin liggja upp um allt og útum allt. Viðhorfið “kaupum bara nýtt” er ríkjandi. Leikföng útum allt, ófrágengin þrátt fyrir að þau hafi verið beðin að ganga frá fötum, skóm, töskum og hlutum um það bil 5 sinnum á mann á hverjum degi síðustu kannski 10 árin.

Kannski held ég áfram með þessa sögu síðar. Mér finnst ekki eins og ég hafi náð að setja þetta frá mér almennilega. Ég veit t.d ekki hvernig á að kenna þeim þakklæti eða að meta það sem þau fá. Er ég of lint foreldri? Verð ég að halda uppi röð og reglu með harðri hendi meðan börnin væla udnan því að allir hinir foreldrarnir séu betri og skemmtilegri? Yrði ég þá bara að halda í vonina að þau myndu skilja aðgerðirnar seinna, bara þegar þau eru sjálf komin með börn til að ala upp? Er þetta allt mér að kenna? Ef ekki, hverjum þá? Afhverju, afhverju, afhverju?