Ég er alltaf að troða mér þar sem ég kemst ekki fyrir.

Minn helsti brestur hingað til er hve ég tolli illa. Mér fer að leiðast á núll einni og hef óbilandi þörf fyrir að vera að einhverju öðru eða læra eitthvað nýtt. Finnst ég aldrei vera á “réttum stað” eða að gera “það sem mig langar” við eða í lífi mínu.

Ég hef skánað mikið undanfarin ár. Það sést á því að ég er ekki ennþá flutt frá Keflavík þó svo að mér hafi dottið það svona þrjúhundruð sinnum í hug. Og mind you, það eru bara (sirka uppá dag alveg) 6 mánuðir síðan ég flutti hingað.

Kannski það tilkomið að mig langar svo að forða mér er að ég er alveg gasalega innilokuð, sko finnst mér. Eins og þegar ég bjó í Vestmannaeyjum, þar sem fólk kemst ekki frá eyjunni nema í sérstöku veðri… á Íslandi getur það orðið bara frekar erfitt sko.

Nei, ég upplifi innilokun því ég er ekki á bíl (það er amk kenningin akkúrat núna). Ó þvílík vandræði. En staðreynd engu að síður. Ég kemst aldrei neitt. Ég kæmist 4 daga í mánuði, þegar það er fríhelgi hjá Eiginmanninum. Mér finnst þetta eitthvað minna gaman. Ef (ég segi ef mun meira en mig langar) ég myndi búa á stað þar sem ég þekkti fólk og hefði jafnvel gert lengi og jafnvel verið partur af samfélaginu í einhvern tíma þá væri kannski ekki svo slæmt að geta bara farið eitthvað 4 sinnum í mánuði, kannski finndist mér ég heldur ekki þurfa að vera að fara neitt þá.

Sumir kunna að kalla svona flutningshegðun rótleysi, slæmt fyrir börnin (að mörguleiti sammála þarna) og svona “getur ekki klárað neitt” syndróm. Getur ekki verið kjur. Alltaf eins og þríhyrningur innanum hringina.

Mig vantar eitthvað svona “heim”. Ég veit alveg hvar húsið sem ég á heima í er, ég er ekki að tala um sjálft húsið. Ég er að tala um svona samfélagslegt “heim”. Kannski langaði mig svona rosalega mikið til að flytja í Vesturbæinn útaf því að ég ólst þar upp. Kannski er ég með skyndiflugu í kollinum í dag að mig langi að flytja norður (á Hvammstanga þ.e) vegna þess að ég ólst líka að einhverju leiti upp þar.

Ég er með heimþrá. Það er nú bara þannig, samt er ég heimahjá mér. Eins og þegar maður er einmanna en samt umkringdur fólki, já ekki auðvelt að skilja það.