Þakklæti og kærleikur.Hvar á ég að byrja.. ég hef eitthvað rosalegt að segja hér!

Ég er búin að vera að hugsa um Íslendinga og Ísland. Reyndar hugsa ég oft um mitt fólk og mitt heimaland. Ég er að spekúlera hvað sé hægt að gera í stöðunni  á Íslandi í dag. Hvað er hægt að gera til þess að það komi ekki einusinni upp fréttir eins og “það á að loka einu umönnun langveikra barna á höfuðborgarsvæðinu” , eða ” það er búið að afskrifa allar skuldir efnaðasta fólksins í landinu, þó það hafi möguleika á að borga þær” og fleira í þeim dúr.

Ég er búin að þusa um hvað mér finnst í raun og veru hallærislegt að heyra íslending tala um Íslendinga eins og það sé í alvörunni þannig að Íslendingurinn sem talar sé ekki partur af heildinni og geti þar af leiðandi sagt ” já, kræssSSSTT mar, þessir djö**** íslendingar eru svo geðððveikt ömurlegir” og fleira afskaplega neikvætt og alveg með eindæmum bara leiðinlegt, svo leiðinlegt að ef viðkomandi væri bíómynd þá hefðu allir sem borguðu sig inn, hlaupið út vælandi og heimtað tvöfalt endurgreitt vegna leiðinda.

Ég er búin að pondera stöðuna lengi og er  búin að vera að hugsa hvað er hægt að gera? Þetta virðist vera rosalega mikið vandamál, þetta með kreppuna og hvernig Íslendingurinn hefur alið manninn síðustu ártugi. Það virðist vera svo mikið vandamál að það er, að mér óbreyttri kind í almenningi finnst, engu lagi líkast en að þeir sem eru við stjórnvölinn og þeir sem eru kosnir af okkur hinum, hafi hreinlega ekki komið auga á lausnina og séu bara að prufa eitt og annað, bara til að gera eitthvað. En ég veit hver hún er.

Þetta er auðvitað rosalega langt mál, en ég ætla bara að segja það hér og nú. Lausnin er kærleikur og þakklæti. Já góðir hálsar, nú megiði ekki halda að ég hafi gengið í einhvern sértrúarsöfnuðinn og hafi jafnvel byrjað að stunda íkveikju pípu með “róandi” efnum í. Þetta er bara svona. Gríptu niður í HVAÐA BÓK sem er sem fjallar um það hvernig hugur manneskjunnar virkar og andleg málefni og lestu að þetta er lausnin.  Og ekki halda í sekúndu í viðbót að andleg málefni séu aðskilin hversdagsleikanum, þínum hversdagsleika, þínu lífi. Þetta hangir allt saman, þú veist það alveg, hugur, líkami og sál.

Þannig að nr.1:  í staðinn fyrir að bölva öllum sem þá sitja við stjórnvölinn og kalla þá hálfvita, asna, drulluhala og  himpingimpa sem ekkert vita, þá munum við tala alveg súper fallega um þetta fólk. Það er enginn að segja að við þurfum að segja “jiiii, hvað hann Svenni Kindamálaráðherra er æðislega duglegur að leggja fjárhag þjóðarinnar í rúst”, nei ég er bara að tala um að við segjum Svenna Kindamálaráðherra að við séum þakklát fyrir að hann nennti að fara á fætur, klæða sig í hvítu nærbuxurnar, hvítu skyrtuna og jakkafötin til þess að líta vel út þegar við sjáum hann í sjónvarpinu. Eða að við segjum Gunnríði Gönguframkvæmdastjóra að við erum þakklát fyrir að hún hefur, fyrir okkkur, ákveðið að vera minna með sínum eigin börnum til að reyna að gera eitthvað fyrir þjóðina.

Og nr. 2: Allt er kærleikur. Frá stærstu, hæðstu, mestu til minnstu, aumingjalegustu og smágerðustu. Allt er kærleikur. Everything is Love!! Á ég að segja það aftur?.. Allt er kærleikur. Ekki hugsa eina hugsun í viðbót án þess að vita að þetta er svona.

Númer þrjú: Held ekki að ég sé eina manneskjan sem hefur fengið þessa hugmynd um hvernig mætti endurbyggja Ísland. En það er einmitt að starta sjálfbæru samfélagi. Mín sýn á það mál er í stuttumáli svona:

Í Sjálfbæ rækta ég gúrkur og þú tómata (til þín sem byrjaðir að hugsa.. mö, það er ekki nógu hlýtt á Íslandi, það geta ekki allir búið í Hveragerði, það er geggjað erfitt  og.. hva..bara gúrkur?? – allt er kærleikur) og svo skiptum við. Ég sé um kaupfélagið og þú um leikskólann. Ég annast bókhaldið og þú garðyrkjuna. Ég sé um apótekið og þú hjúkrar veika fólkinu. Ég kenni lestur og þú hreinsar sundlaugina. Ég þríf skólann og þú skutlar fólki frá A til B.

Allir í Sjálfbæ eru yfir sig hamingjusamir að fá tækifæri til að tjá þakklæti og kærleika. Það er enginn “yfir” í Sjálfbæ, við þurfum það ekki. Á morgnana koma allir saman og hugleiða og dansa gleðidansa í þakklætisrússi. Á kvöldin koma allir saman til þess að hugleiða og vera meðvituð um lífið sjálft. Við hugleiðum öll um að senda út í Alheiminn þakklæti og kærleika. Okkur finnst það sjálfsagt og það er ekki bannað og engum finnst það skrítið, eða er feiminn við það.  Við gerum það því við vitum að við erum öll eitt, við viljum öll það besta fyrir alla, enginn undanskilinn, ekki heldur við sjálf.

Allir eru þakklátir fyrir að í Sjálfbæ hafa allir jafnt tækifæri. Enginn liggur bara í skurði í Sjálfbæ og fær ekkert að borða, nei, við í Sjálfbæ höfum hlutina þannig að allir fá nauðsynjar og allir hafa jafnt tækifæri. Jafnt tækifæri. Jafnt tækifæri.

Ég er farin miklu lengra í hausnum með Sjálfbæ heldur en þetta en jafnan reiknast svona : kærleikur+þakklæti= meiri kærleikur og þakklæti.

Þetta er ekkert erfitt, þetta er alveg klikkað eðlilegt. Þetta er jafn eðlilegt og okkur finnst að drekka og borða.