Ég keypti mér 10 miða kort í sundlauginni hérna á Hvammstanga. Sem að mínu viti, ER bara ú besta, þvílík laug! Geðveikt hissa að vera alltaf bara ein eða ein af kannski 3 öðrum í lauginni þegar ég er í henni. Á bara tvö skipti eftir og sé fram á að neyðast til að kaupa mér annað kort. Mikið er gasalega gott að komast í heitan pott! Það er allra meina bót. Hafi maður bólgur, þá hverfa þær, hafi maður þreytu, þá getur maður lagt sig aðeins í pottinum og ef manni er kalt, sem kann að vera á þessum árstíma, þá er þetta bara hið besta.

Síðan við komum norður hef ég s.s legið í pottunum meira en ég hef gert allt síðasta ár, ef ekki lengur. Það sem er líka gaman er að hlusta á sögurnar sem fastagestir pottanna segja. Það upplifir maður kannski frekar í Laugardals- eða Vesturbæjarlauginni. Hér eru stundum svo fáir að það er enginn fyrir utan mig og krakkana oní, en stundum og í nokkur skipti hafa verið nokkrir (h)eldri menn og einstaka kona.

Einn sagði við mig, þegar ég kom frá lauginni, yfir í litlapottinn og skaust svo þaðan og yfir í heita pottinn, hvort litli hefði nokkuð verið heitur. Ég sagði að hann hefði bara alls ekki verið heitur. Þá sagði hinn sem í pottinum var “jah, potturinn hlýtur að hafa hitnað eftir að þú fórst oní hann”. Ég verð að taka því fagnandi að vera orðin alvöru kona, eða mér reiknast til að ég hljóti bara að vera orðin þannig í laginu að ég sé heit í augum aldraðra karlmanna og sé þessvegna kona, en ekki barn.

Ég hef síðan verið spurð spjörunum úr, öllu nema sundbolnum (hahahaha), um hvar við búum og hvar við höfum verið og hvert við séum að fara. Það þykir mér eðlilegt að sé spennandi saga.

Þá var ég á eintali með öðrum (h)eldri manni í pottinum, eiginlega duttum við, aðallega hann samt, á trúnó. Hann sagði mér hið ýmsasta en endaði á að spyrja mig um barnafjöldann. Ég svaraði stolt að ég ætti orðið fjegur börn. Þessi þrjú, og benti útí laug, og svo eina litla heima. Hann spurði hvað sé elsti væri gamall.

Og svo sagði hann, “já, þú hefur sjaldan legið kjur”.  – – –

Ég verð að viðurkenna að ég kveikti ekki á perunni alveg strax hvað manni var að meina og svaraði skírt og skorinort, eins og sönn reynslu manneskja, “nei, það hefur aldrei hentað mér”.

Það var svo ekki fyrr en í furðulegu þögninni á eftir þessum orðaskiptum að ég fór að hugsa að það sem hann sagði þýddi kannski ekki að ég væri alltaf að flytja og breyta um í mínu lífi.

Það var svo ekki fyrr en ég kom heim, eða réttara sagt daginn eftir, að ég fékk staðfest á Fífusundsbúinu að það að hafa ekki legið kjur þýðir að maður sé oft að gera æfingar á skeiðvellinum og það með öðrum.. sennilega einum sem getur getið með manni börn.

Lord! Þessi var ekki alveg með grensurnar á sínum stað.