Mér til mikillar undrunar er næstum því ár síðan ég byrjaði að gerast áskrifandi að líkamsræktinni hér í næsta húsi. Fyrst um sinn mætti ég nú bara sirka einusinni í viku en síðan hefur komum mínum farið fjölgandi hægt en örugglega. Ég get held ég sagt að ég sé orðin svolítið þekkt í ræktinni, enda er staðan núna þannig að ég mæti nánast á hverjum degi, ekki allllveg alltaf en nánast. Alltaf á sama tímabilnu. Annaðhvort verulega snemma um kl 7 eða eftir að krakkar eru komnir í sínar dagvistir um klukkan 8 og í einstaka tilfellum þegar krakkarnir eru hýstir hjá föðursínum frábæra þá er ég þar uppúr 9.

Númm, eitt get ég sagt sem hefur komið mér á óvart að það er að mér finnst gaman að hlaupa. Ég hélt í alveg öll 30 árin að mér þætti ekki gaman að hlaupa. Og það sem ég geri er að pota eyrnatólum í eyrun og blasta þar góða tónlist (ekkert væmið rugl samt) og hleyp eins og vindurinn. Eins og vindurinn segi ég.

Og auðvitað er ég ekkert ein í ræktinni. Ef ég mæti snemma er þar fólk allskonar. Uppúr hálf átta átta koma allir frökku og flottu gæjarnir með alla vöðvana sína í eftirdragi. Allir sem mæta svona snemma í ræktina eru með spegiláráttu, séu þeir karlkyns það er að segja. Og þeir hljóta eiginlega að vera fyrir brjóstgóðar húsmæður því þær eru líka í ræktinni (liggur við með bökunarsvuntuna á sér) á þessum tíma.

Og þar eru líka vinir tveir. Annar er massaður og hinn ekki og er þessi massaði í því að hvetja hinn áfram í róðrartækinu.  Mér finnst þeir stundum fyndnir og líka þessi upprunalega rauðhærði en með svartlitað hár,.. hann er alveg krepptur í framan af áreinslu einnig í róðrartækinu og í lyftingasalnum.

Og svo uppúr 9 fer eldra fólk að dragast inn. Ekki fatta ég afhverju þau eru í leikfimi fötunum síðan þau voru í framhaldsskóla og ekki fatta ég afhverju það voru svoleiðis föt til þegar þau voru þar.. ég skil ekki afhverju einhverjum einusinni datt í hug að leggja sig fram við að sauma eitthvað sem heitir flauelis leggings…. eða þannig samfesting.

Best er að fjólubláu flauels leggins buxurnar lafa utan á konu sem kom á hlaupabrettið við hliðina á mér í morgun og lyktaði svo ekki vel að ég þurfti að gefast upp á að vera eins og vindurinn og fara og sýna mig fyrir þeim svartrauðhærða, því samfestingurinn úr sama efni lafir ekki, nei, hann er svo níðþröngur utan um kropp gamals krumpaðs manns að ég er alltaf við það að gera magaæfingar úr hlátri þegar ég sé hann… og hann er ekki í bol yfir, bara á samfesting, ermalausum… er að spá hvort konan hans hafi lánað honum þetta.. og svo kannski hlær hún heima meðan hún skellir í sig þreföldum kaffi og sígarettu..hehe.

Allavegana get ég líka sagt að klukkan 8 er lykt í ræktinni af svölum spegilathyglissjúkum karlmönnum með stóra vöðva .. s.s ekki svo slæm, en klukkan 9:30 er komin fúl gamalmenna fýla.